Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins
Miðvikudaginn 08. mars 1989

     Flm. (Matthías Bjarnason):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins með síðari breytingum en flm. þess eru auk mín Pálmi Jónsson, Ólafur G. Einarsson, Friðjón Þórðarson og Geir H. Haarde.
    Frv. var flutt á síðasta þingi af okkur Pálma Jónssyni og náði þá ekki fram að ganga. Við flytjum það nú aftur og ég ætla að fara um það nokkrum orðum.
    Frv. gerir ráð fyrir grundvallarbreytingu á lögunum um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins á þann veg að í staðinn fyrir að leggja inn á ákveðnar deildir er gert ráð fyrir með frv., ef að lögum verður, að hvert fyrirtæki fyrir sig eigi það sem það leggur til Verðjöfnunarsjóðsins og fái það svo aftur út. Þegar stjórn sjóðsins ákveður að greiða úr Verðjöfnunarsjóði fái hver og einn úr sínu eigin framlagi en ekki eins og nú er, að nú er þetta í einni púlíu hvað snertir hverja deild fyrir sig.
    Þegar lögin um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins voru samþykkt 1969 var almennur áhugi fyrir því í sjávarútvegi að koma á slíkum sjóði sem þessum til þess að jafna sveiflur, til þess að greiða inn þegar vel áraði og aftur að eiga eitthvað upp á að hlaupa þegar illa gengi í atvinnugreinum. Þessum sjóði var skipt í allmargar deildir, freðfiskdeild, humar-, rækju-, saltfiskdeild, saltsíld, skreið, fiskimjöl, loðnulýsi, loðnumjöl og fleira. Síðan hefur þetta form verið óbreytt og alltaf hafa orðið allmiklar umræður um Verðjöfnunarsjóðinn og þá hefur það farið eftir hagsmunum hvers hóps fyrir sig hverju sinni hvort menn hafa viljað efla Verðjöfnunarsjóð eða fella hann niður. Sumir hafa komist að þeirri niðurstöðu að það beri að afnema hann með öllu, aðrir hafa talið að hann hafi ekki að fullu og öllu sýnt þann tilgang sem honum var ætlað í byrjun eða þegar lögin urðu að veruleika 1969, og um þetta má eðlilega deila.
    Freðfiskdeildin sem er langstærsta deildin hefur verið að meira eða minna leyti óvirk í mörg ár af þeirri ástæðu að hagur þeirrar deildar hefur verið með þeim hætti. Hins vegar hefur verið greitt af ýmsum öðrum afurðum reglulega til sjóðsins og út eftir því sem á hefur þurft að halda og þær greiðslur hafa margar hverjar jafnað miklar sveiflur sem hafa orðið á verðlagningu sjávarafurða. Af þeim sökum tel ég að þessi sjóður eigi fullan rétt á sér og meira en það, hann er bráðnauðsynlegur til þess að jafna sveiflur, til þess að hleypa ekki út í verðlagið þegar miklar uppsveiflur verða og eiga þá til fjármuni til að bæta þegar illa árar.
    Það sem okkur, flm. frv., finnst mikilvægast að breyta er það sem ég nefndi hér í upphafi, að hverfa frá því að leggja inn í sjóðinn í ákveðnar deildir, en færa það yfir á fyrirtækin þannig að hvert fyrirtæki fyrir sig eigi sínar inngreiðslur og njóti sinna útgreiðslna. Að öðru leyti leggjum við ekki til breytingar á stjórn sjóðsins. Það verður að vera ein sameiginleg stjórn sem ákvarðar hverju sinni hvað eðlilegt er að láta hvern og einn greiða til

Verðjöfnunarsjóðs og síðan hvað eðlilegt er að greiða úr sjóðnum í bætur. Það er líka til styrktar fyrirtækjunum að hafa heimild til þess að hafa þær inngreiðslur á bundnum reikningum í þeim lánastofnunum sem fyrirtækin skipta við, þeim lánastofnunum sem er eðlilegt að ávaxta þessa fjármuni í ef eigendur fjárins vilja hafa sína peninga í sínum eigin lánastofnunum, en kæri þeir sig ekki um það er eftir sem áður heimilt að varðveita þá fjármuni í Seðlabanka eins og verið hefur.
    Ef við lítum á yfirlit um rekstrarstöðu Verðjöfnunarsjóðsins er innstæðan ekki nema 1,2 milljarðar í íslenskum krónum um síðustu áramót, en það er rétt að benda á að allt fé Verðjöfnunarsjóðsins er í SDR, sem hækkaði um 8,4% um áramót, og þar af leiðandi hefði inneignin hækkað svolítið miðað við það sem gefið er upp í töflu í greinargerðinni, en þar er talið að sé um 1,2 milljarðar í þessum deildum öllum. Segja má að það séu aðallega tvær deildir sem eitthvað eiga, þ.e. saltfiskdeildin sem átti þá 515 millj. kr. og rækjudeildin sem átti 436 millj. kr. og þar á eftir er humardeildin með 181 millj. kr. Aðrar deildir eiga sáralítið fé í Verðjöfnunarsjóði, sú sem á mest þeirra sem ég hef ekki talið upp á innan við 20 millj. kr. Freðfiskdeildin átti t.d. ekki nema 10,2 millj. kr. um síðustu áramót sem er auðvitað sama og ekki neitt.
    Í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem var á undan núv. stjórn var skipuð nefnd undir forustu sjútvrh. sem átti að endurskoða lögin um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins og gera tillögur um breytingar. Ég held að það sé rétt munað hjá mér að sú nefnd lagði til að Verðjöfnunarsjóðurinn yrði lagður niður en þáv. ríkisstjórn féllst ekki á þá tillögu, þó að einhverjar raddir hafi verið uppi um það utan þessarar nefndar sem betur fer. Það er sjáanlegt að sú ríkisstjórn sem nú situr hefur ekki í hyggju að leggja Verðjöfnunarsjóð niður. Hún tók þá veigamiklu ákvörðun er hún var mynduð að láta eina deild þessa sjóðs taka 800 millj. kr. að láni og það ber nú ekki vott um að ætlunin hafi verið að leggja Verðjöfnunarsjóðinn niður. Hins vegar harma ég að yfirlýsingar hæstv. sjútvrh. um endurskoðun á lögunum um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins hafa ekki séð dagsins ljós. Einn þm. spurði um það fyrir 14--15 mánuðum hvað
liði þessari endurskoðun og þá lýsti sjútvrh. því yfir í munnlegu svari hér í fyrirspurnatíma að hann teldi að niðurstöður þeirrar endurskoðunar mundu liggja fyrir í apríl á sl. ári. M.ö.o. það er að verða liðið ár frá því að hann taldi að slík endurskoðun gæti legið fyrir en það bólar ekki á henni enn þá.
    Við flm. frv. teljum því brýna nauðsyn á að flytja það aftur og leggjum áherslu á að sjútvn., sem örugglega fær þetta mál til meðferðar, fari þegar að vinna að málinu. Ég hygg að í flestum tilfellum muni menn, sérstaklega þeir sem hafa verið óánægðir með Verðjöfnunarsjóðinn eins og hann er, verða ánægðari ef þessi grundvallarbreyting sem við leggjum til yrði gerð. Hún er líka eðlileg því þá er ekki verið að taka

peninga af neinum og færa yfir til annarra. Þá á hver það sem hann hefur lagt sjóðnum til. Þetta er eðlileg og heilbrigð skoðun sem menn hafa haft á þessu og því viljum við stíga þetta ákveðna, stóra og myndarlega skref í þessari breytingu á Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins.
    Hins vegar er mér það ljóst að ákvæði til bráðabirgða, sem fjalla um skiptingu á þeim eignum Verðjöfnunarsjóðsins sem hann á nú, kunna að valda töluverðri gagnrýni, enda er, eins og þar kemur fram, erfitt að koma þeim peningum til skila svo að öllu réttlæti sé fullnægt. Við flm. þessa máls eru mjög opnir fyrir því að hugleiða frekari breytingar á þessum ákvæðum til bráðabirgða ef það mætti verða til þess að sætta hin ólíku sjónarmið. Við teljum ekki óeðlilegt að sjómannasamtök og samtök útvegsins fái þá einhverja hlutdeild í þessari eign sem eftir er. En þetta finnst mér að eigi ekki að verða til þess að tefja fyrir framgangi málsins því þetta er ekki svo ýkja há upphæð að við eigum að deila um það. Höfuðatriðið er að breyta lögunum og færa þau í það horf að það verði meira samstarf og menn verði ánægðari með Verðjöfnunarsjóðinn í hinu nýja formi sem við flm. leggjum til.
    Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um frv. Því fylgir ítarleg greinargerð og ég vitna í fyrri framsöguræðu mína á sl. ári og legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.