Efnahagsáætlun Norðurlanda 1989-1992
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Fyrirvari sá sem hér er vísað til og tengist efnahagsáætlun fyrir Norðurlöndin er þannig í íslenskri þýðingu, með leyfi forseta: ,,Íslenska hagkerfið er að ýmsu leyti frábrugðið hagkerfum hinna Norðurlandanna. Því þurfa markmið og tillögur í þessum kafla um fjármagnshreyfingar og fjármálaþjónustu nánari athugunar við af Íslands hálfu.`` Þessi fyrirvari stendur óbreyttur og hefur verið ítrekaður nýlega af hæstv. fjmrh.
    Í stjórnarsáttmála er ákvæði sem ég vil lesa, með leyfi forseta: ,,Sérstaklega verður unnið að því að laga íslenskt efnahagslíf að hinum nýju aðstæðum og tryggja viðskiptastöðu íslenskrar atvinnustarfsemi án aðildar að bandalaginu.`` --- Þetta er í kafla sem fjallar um viðskipti okkar við Evrópubandalagið og starf innan Fríverslunarbandalags Evrópu.
    Í yfirlýsingu þeirri sem ég flutti hér fyrir hönd ríkisstjórnarinnar 6. febr. sl. segir m.a., með leyfi forseta: ,,Ríkisstjórnin mun á næstunni kynna ákveðnar tillögur um samruna lánastofnana hér á landi og áætlun um aðlögun íslenska lánamarkaðarins að breyttum aðstæðum í umheiminum. Í þessu felst m.a. að íslensku atvinnulífi verði tryggð sambærileg aðstaða á fjármagnsmarkaði og er í helstu viðskiptalöndum.`` Einnig segir í þessum sama kafla yfirlýsingarinnar: ,,Heimildir íslenskra fyrirtækja til þess að taka lán erlendis með ríkisábyrgð, eða ábyrgð banka eða sjóða í eigu ríkisins, verða takmarkaðar en hins vegar verða heimildir fyrirtækja til að taka erlend lán á eigin ábyrgð rýmkaðar. Á næstu missirum verða reglur um fjármagnshreyfingar og viðskipti með fjármálaþjónustu milli Íslands og annarra landa mótaðar á grundvelli tillagna ráðherranefndar Norðurlanda um efnahagsáætlun Norðurlanda 1989--1992.`` Síðan segir: ,,Ríkisstjórnin leggur áherslu á að búa íslenska bankakerfið undir breytingar sem munu fylgja sameinuðum fjármagnsmarkaði Evrópu, m.a. með því að auka hagkvæmni þess þannig að það geti staðist samkeppni við erlenda banka hvað varðar vaxtamun, tryggingar o.fl. Í framhaldi af því verður m.a. kannað hvort heimila megi viðurkenndum erlendum bönkum starfsemi hér á landi.``
    Hér er að sjálfsögðu um sama málið að ræða og eins og segir í fyrirvara okkar í tengslum við efnahagsáætlun Norðurlanda þá eru aðstæður hér að ýmsu leyti frábrugðnar því sem er í okkar helstu viðskiptalöndum. Hins vegar, eins og fram kemur í tilkynningu ríkisstjórnarinnar, er unnið að því að draga úr þessum aðstöðumun eins og frekast verður unnt þannig að við getum a.m.k. orðið aðilar að vissu marki að þeim hugmyndum sem Norðurlöndin hafa í þessu sambandi.
    Ég vil taka skýrt fram að vegna smæðar hins íslenska fjármálakerfis verður ætíð að hafa þarna sterka varnagla eða við skulum segja sterkar varnir gegn því að hið litla íslenska peningakerfi sogist og hverfi inn í hið langtum stærra peningakerfi Evrópulandanna. Ég held hins vegar að það verði ekki komist hjá því vegna samkeppni íslenskra fyrirtækja

að þessum markaði og aðstöðu þeirra, sem þarf að vera sambærileg, að íslensk stjórnvöld geri allt sem hægt er til þess að samræma þessa aðstöðu og styrkja íslenska peningakerfið eins og frekast er kostur. Ég tel það vera eitt af stærri verkefnum í efnahagsmálum hér að styrkja íslenska peningakerfið. Það er vægast sagt ákaflega veikt í dag og vanburða.