Efnahagsáætlun Norðurlanda 1989-1992
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Fyrirspyrjandi (Matthías Á. Mathiesen):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. svör hans. Af því sem hann og hv. 2. þm. Austurl. sögðu liggur ljóst fyrir að innan ríkisstjórnar Íslands er ágreiningur um þessi mál, það fer ekkert á milli mála.
    Ef ég man rétt þá vék hæstv. viðskrh., samstarfsráðherra, að þessum málum á þingi Norðurlandaráðs og lét þau orð falla að reglur um fjármagnshreyfingar og viðskipti með fjármálaþjónustu milli Íslands og annarra landa yrðu mótaðar á grundvelli tillögu ráðherranefndarinnar um efnahagsáætlun Norðurlanda 1989--1992, án þess að þar væri þá settur fram neinn fyrirvari í sambandi við þá hluti. Það liggur ljóst fyrir að það er hæstv. fjmrh. sem hér ræður ferðinni og gott að það kemur hér fram. Það er því ljóst að innan ríkisstjórnarinnar er ekki samstaða um þessi mál og jafnframt staðfestir þetta það sem hér hefur oft verið sagt um það hver stjórnar ferðinni í efnahagsmálunum hjá núv. hæstv. ríkisstjórn, þ.e. hæstv. fjmrh.