Efnahagsáætlun Norðurlanda 1989-1992
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Bara örstutt athugasemd. Mig langar til að benda hv. 1. þm. Reykn. og reyndar einnig hv. 2. þm. Austurl. á mjög einfalda staðreynd sem er þessi: Fyrirvari Íslands við efnahagsáætlun Norðurlandaráðherranna til næstu fjögurra ára er hluti af áætluninni. Hann er afar almenns eðlis. Hann vitnar fyrst og fremst til þess að hvað varðar fjármagnshreyfingar milli landa og rýmri reglur um þær þurfi vegna sérstöðu Íslands, hvað varðar efnahagsskipulag og alla efnahagsgerð, að skoða málið sérstaklega. Um þetta er enginn ágreiningur, hvorki innan ríkisstjórnarinnar né annars staðar í íslenskum stjórnmálum að ég hygg. Hitt er svo vafalaust rétt að menn leggja misjafnar áherslur í málinu og ég, sem ráðherra viðskipta- og bankamála og þar með gjaldeyrismála og greiðsluhreyfingar milli landa, legg á það mikla áherslu að íslenskir atvinnuvegir njóti sömu starfsskilyrða á fjármagnsmarkaði og á öðrum mörkuðum og keppinautar þeirra í Evrópu.