Efnahagsáætlun Norðurlanda 1989-1992
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Geir H. Haarde:
    Virðulegi forseti. Hér hafa spunnist athyglisverðar umræður í tilefni af þessari einföldu fyrirspurn. Forsrh. hefur sett ofan í við hv. 2. þm. Austurl., einn af máttarstólpunum í stjórnarsamstarfinu, Hjörleif Guttormsson. Hann hefur líka óbeint skensað viðskrh. fyrir stefnu hans gagnvart samskiptum við erlenda banka.
    Allt er þetta vegna þess að fjármálaráðherra Íslands gerði fyrirvara á fundi hinna norrænu fjármálaráðherra nú nýverið, sennilega án þess að hafa um það samráð við sína samráðherra, og í óþökk þess manns sem mest fjallar um þessi mál, þ.e. hæstv. viðskrh. Viðskrh. svarar með því að leggja fram í ríkisstjórninni og fá samþykkta sérstaka yfirlýsingu um þetta mál, sem forsrh. las hér upp í grandaleysi sínu hinn 6. febr. sl. og hér hefur verið vitnað til, þar sem kemur fram gerólík afstaða þeirri sem felst í fyrirvaranum sem fjmrh. gerði.
    Nú er reynt að breiða yfir þetta almennum orðum með því að segja: Ja, þetta er nú bara fyrirvari um það að íslenskt efnahagslíf sé svo frábrugðið því sem gerist í öðrum löndum. Þannig má út af fyrir sig segja um öll lönd. Það má segja það um Finnland að það sé öðruvísi efnahagslíf þar en annars staðar og sama má segja um Færeyjar og hin Norðurlöndin.
    Mennirnir úr hæstv. ríkisstjórn sem hér hafa talað geta hins vegar ekki dregið fjöður yfir að það er djúpstæður ágreiningur um þessi mál annars vegar milli viðskrh. og þeirra sem honum fylgja í þeirri stefnu að reyna að opna íslenskt efnahagslíf gagnvart útlöndum og svo hins vegar hinna gömlu einangrunarsinna sem hér eiga sinn fulltrúa í umræðunum í dag í hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni og afturhaldsaflanna í Alþb. Það eru afturhaldsöflin í Alþb. sem komu með þennan fyrirvara við efnahagsáætlun Norðurlandanna og verið er reyna að draga fjöður yfir það að þessir gömlu einangrunarsinnar hafi allt aðra stefnu í þessum málum en viðskrh. og sennilega líka hæstv. forsrh.