Verslunarfyrirtæki í dreifbýli
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Fyrirspyrjandi (Danfríður Skarphéðinsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir skýr og greinargóð svör við þessari fsp. minni og vona eins og hann að þetta mál verði rannsakað hratt og vel og gripið verði til þeirra aðgerða sem nefndin, sem skipuð hefur verið, telur réttar. En ég vil benda á það að fólk úti á landi, bæði neytendur og verslunarmenn, búa að öllu leyti við óhagstæðari skilyrði til verslunar en hér á þéttbýlli svæðunum. Það á bæði við um flutningskostnað og vöruval og þann lager sem kaupmenn þurfa að sitja uppi með úti á landsbyggðinni.
    En ég vil í tilefni af því að nú hefur þessi nefnd tekið til starfa benda á eitt annað atriði stjórnarsáttmálans sem ég tel að sé mikilvægt í þessu tilliti, en þar segir að gerðar verði ráðstafanir til jöfnunar á flutningskostnaði og kostnaði við síma, húshitun og skólagöngu. Öll þessi atriði eru mikilvæg og ég tel að verði flutningskostnaðurinn jafnaður geti það komið mjög til góða fyrir verslunina.