Ökuferilsskrá
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Fyrirspyrjandi (Jóhanna Þorsteinsdóttir):
    Hæstv. forseti. Ökuferilsskrá hefur verið haldin í einhverri mynd á tiltölulega fáum stöðum á landinu, en án slíkrar skrár er ógerningur að fylgjast með einstökum ökumönnum. Það hefur komið í ljós að knýjandi þörf er á samræmdri ökuferilsskrá á landsvísu. Vanhæfni í akstri og/eða vanþekking skírteinishafa á umferðarreglum er einfaldlega öllum hættulegt. Orsakir umferðaróhappa má í flestum tilfellum rekja til þriggja þátta: þess mannlega, hins tæknilega og hins umhverfislega. Því er brýnt að safna þeim gögnum varðandi þá tæknilegu og umhverfislegu þætti sem mögulegt er því úrvinnsla þeirra gefur möguleika til úrbóta. Mannlega þáttinn þarf að taka föstum tökum, en fræðsla og kynning er þar besta úrræðið. Bendi ég á það efni sem sérstakt kennsluefni til umferðarfræðslu í efri bekkjum grunnskóla, en ég hef, með leyfi forseta, lagt fram þáltill. á þskj. 494 um að koma á aðfaranámi til ökuprófs í 9. bekk grunnskóla.
    Ökuferilsskráin er að sjálfsögðu vitagagnslaus ef einungis er um söfnun að ræða en ekki úrvinnslu. Þess vegna er brýnt að settar verði reglur um söfnun upplýsinga, þ.e. leiðbeiningarreglur sem segi ótvírætt hvenær rétt þyki að aðvara ökumenn, hvort heldur er til þess að ræða við þá um ferilinn, skrá þá, láta þá sanna þekkingu sína í umferðarreglum í akstri eða jafnvel ökuleyfissviptingu. Markmiðið með ökuferilsskrá er að fækka slysum og bæta umferðarmenningu.
    Því hef ég gert svohljóðandi fsp. á þskj. 483 til hæstv. dómsmrh.:
    ,,Hvenær má vænta reglugerðar um ökuferilsskrá skv. 52. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987?``