Þjónusta við heyrnarlausa í sjónvarpi
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Fyrirspyrjandi (Þórhildur Þorleifsdóttir):
    Virðulegi forseti. Sjónvarp er líklega sá fjölmiðill sem best getur gagnast heyrnarskertum og heyrnarlausum. Bæði er það að mynd styður texta, varalestur auðveldar að fylgjast með efni, þ.e. af þeim sem við það ráða, og ekki síst er sjónvarp til þess fallið að rjúfa félagslega og menningarlega einangrun þessa hóps. Ýmislegt bendir til að sú einangrun sé meiri en hjá öðrum hópum fatlaðra, þ.e. þeirra sem geta búið utan stofnana, stundað atvinnu og séð um sig sjálfir. Ástæða einangrunar er að mikilvægasta hjálpartæki í samskiptum allra manna er ófullkomið, þ.e. tungumálið sjálft. En því miður er staðreyndin sú að íslenskt efni í sjónvarpi er það efni sem heyrnarskertir eiga hvað erfiðast með að tileinka sér vegna þess að það er ekki ritmálstextað. Útlent efni er þannig útbúið. En þar styður ritaður texti ekki hið talaða mál og nýtist því ekki sem þjálfun í meðferð máls þó auðvitað geti menn fylgst með söguþræði.
    Fréttaflutningur í dagskrá sjónvarps, þ.e. fréttaflutningur fyrir heyrnarlausa, táknmálsfréttir, er ekki tengdur almennum fréttum heldur barnaefni og ritmálstexta er ekki lengur rennt yfir skjáinn að loknum lestri almennra frétta. Það eru margir heyrnarskertir vegna aldurs, sjúkdóma eða slysa sem alls ekki skilja táknmál og geta því hvorki nýtt sér táknmálsfréttir né almennar fréttir.
    Hvað varðar börn sem eru heyrnarlaus eða heyrnarskert er brýnt að það litla efni sem framleitt er á íslensku fyrir börn sé með ritmálstexta því að annars geta þessi börn ekki notið neins íslensks efnis í sjónvarpi og verða að láta sér nægja erlent efni einungis.
    Þó að sjónvarp hafi fjölbreytt gildi fyrir alla almenna þegna þessa lands til skemmtunar og fróðleiks er ljóst að þörfum heyrnarlausra og heyrnarskertra er ekki sinnt sem skyldi og þó er gildi þessa tækis fyrir þá ótvírætt hvort sem er sem kennslutækis eða til að rjúfa þá menningarlegu og félagslegu einangrun sem ég nefndi áðan.
    Því spyr ég hæstv. menntmrh. um þjónustu við heyrnarlausa og heyrnarskerta í sjónvarpi. Þá fsp. er að finna á þskj. 521. Ég ætla ekki að lesa upp fsp. en einungis beina henni til hæstv. menntmrh.