Málefni heyrnarskertra
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Fyrirspyrjandi (Þórhildur Þorleifsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég minnist þess ekki að hafa viðhaft þau orð að ekkert hafi verið gert, en sagði að eftir þeim upplýsingum sem ég hefði aflað mér hefði lítið breyst til batnaðar.
    Það er alveg rétt, sem fram kom í máli hæstv. félmrh., að allar félagslegar aðstæður heyrnarlausra eru mjög bágar. Þeir eru láglaunahópur, þeirra húsnæðismál eru ekki í góðu ástandi og lengi mætti telja upp ýmislegt sem þannig bagar þá og auðvitað hafa þeir ekki fremur en annað ófaglært fólk mikla möguleika á að afla sér hárra tekna, hvað þá þegar þeir hafa að auki þann böggul að bera sem heyrnarskerðing eða heyrnarleysi er. Þeim mun brýnna er að ráðast strax til atlögu við það sem helst stendur þeim fyrir þrifum, þ.e. að geta nýtt sér þá þjónustu sem aðrir þegnar landsins geta nýtt sér með aðstoð túlka fyrst og fremst. Þar liggur rótin að ýmsum öðrum meinum sem þá bagar að þeir komast ekki í samband til að geta nýtt sér þá þjónustu sem gæti gert þá sjálfa hæfari til að lifa lífinu og sjá sér farborða.
    Það er mjög margt óunnið í menntunarmálum táknmálstúlka. Það er ljóst. En það er til næg kunnátta í landinu til að geta a.m.k. komið á fót einhverjum vísi að slíku. Nú veit ég að túlkar fylgja heyrnarskertum eða heyrnarlausum í skóla og þeir geta í ýmsum tilfellum fengið slíka aðstoð ef þeir þurfa á að halda, en hún er þeim feiknalega dýr og það er ekki með neinum skipulögðum hætti sem þeir geta leitað eftir þessari þjónustu. Til þess að fólk fari að leita sér menntunar í þessu fagi þarf auðvitað líka að liggja fyrir einhver niðurstaða eða vísbending um að þetta fólk geti þá fengið atvinnu þegar námi er lokið.
    Það er í rauninni alveg sama hvar borið er niður í málefnum heyrnarskertra. Það er einmitt að aðstoða þá við að ná sambandi við þjóðfélagið og umhverfið og þá þjónustu sem við höfum upp á að bjóða sem er brýnasta verkefnið og upphaf og endir lausna á hverju einasta máli þeirra.