Skólabúðir í Reykjaskóla
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Fyrirspyrjandi (Þórhildur Þorleifsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svörin, en vil jafnframt vekja athygli á því að annaðhvort hefur 3. spurning ekki skilist eða gleymst að svara henni, hver var kostnaður á hvern nemanda. Í þeirri spurningu felst að sjálfsögðu kostnaður hins opinbera því að næsta spurning hljóðar: ,,Þurftu nemendur að greiða hluta af kostnaðinum sjálfir og ef svo er, þá hve mikinn?``
    Það er alveg ljóst að 2500 kr. á barn er ekki óyfirstíganlegt og sjálfsagt geta börnin aflað sér þeirra peninga með ýmsum hætti yfir veturinn. Það getur jafnvel verið verkefni yfir veturinn að safna þeim sjóði. En ég saknaði svarsins við 3. spurningunni til þess að fá gleggri mynd af því hversu kostnaðarsamt þetta mikilvæga verkefni er skólakerfinu.
    Það er ánægjulegt að heyra að skólayfirvöld og börn eru sammála um ágæti og mikilvægi þessa verkefnis þó að ég að vísu tali ekki fyrir öll 500 börnin sem komu í þessar skólabúðir heldur einungis, eins og ég sagði áðan, af þeirri persónulegu reynslu sem ég hef af þessu og hefur orðið mér umhugsunarefni. Hvernig mætti nýta skólabúðir og hvernig þær geti orðið öðrum börnum til gagns og fræðslu.
    Það er ábyggilega hægt að finna ýmis úrræði víða um land til að reka svona skólabúðir og má þá minna á að það eru fleiri skólar sem ástatt er um eins og Reykjaskóla, þ.e. sem gegna ekki lengur upphaflegu hlutverki sínu. Rekstur skólabúða þar gæti hugsanlega verið ein lausnin í nýtingu þessara bygginga sem víða standa. Auk þess standa víða félagsheimili sem sum eru þannig útbúin að vel er hægt að gista þar með hóp barna. En auk þess má minna á að í heimavistarskólum um allt land eru gefin helgarfrí og iðulega eru gefin aðeins lengri frí eins og gengur og gerist í öllum grunnskólum. Það er verið að gefa mánaðarfrí og vinnufrí og alls konar frí koma þar til. Það er auðvitað hægt að tengja þessi frí helgum þannig að skólarnir losni þá lengur en tvær nætur, jafnvel 3--4 nætur, og gæti sá tími jafnvel dugað til að anna þessu verkefni svo að ekki þurfi í raun og veru að byggja hús eða reisa nein mannvirki til að reka svona starfsemi.
    En ég óska hæstv. menntmrh. góðs gengis með að vinna áfram að þessu verkefni og auka þátt þess í skólastarfi íslenskra barna.