Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Fyrst er spurt: ,,Hvaða svæði landsins ná ekki Rás 2?`` Svarið er: Talið er að um 2000 manns nái ekki útsendingu Rásar 2 og eru eyður í dreifikerfinu að einhverju leyti í öllum landsfjórðungum. Þær eru þó mestar á Norðurlandi þar sem dreifing er einna erfiðust. Má þar nefna Hörgárdal, Öxnadal, Auðbjargarstaðabrekku í Kelduhverfi, Fljótin í Skagafjarðarsýslu, Álftafjörð í Suður-Múlasýslu, Borgarhöfn í Austur-Skaftafellssýslu, Bárðardal efri, Almannaskarð og Lón.
    Nákvæmar mælingar á FM-dreifingu Rásar 1 og Rásar 2 liggja ekki fyrir en í dreifikerfi Rásar 1, FM, eru nú 65 aðalsendar eða endurvarpssendar en í dreifikerfi Rásar 2 eru þeir 46. Stefnt er að því að bæta við 25 sendum í dreifikerfi Rásar 2 og að dreifing þess verði svipuð og dreifing Rásar 1.
    Í öðru lagi er spurt: ,,Hvaða sveitabæir ná alls ekki sjónvarpinu?`` Svarið er þetta: Sveitabæir sem ná alls ekki sjónvarpinu eða þar sem móttökuskilyrði eru mjög léleg munu vera um 80 talsins. Þetta eru allt bæir sem liggja illa við sjónvarpsendurvarpi eins og er og gert er ráð fyrir að kostnaður við að tryggja þeim móttökuskilyrði sé að meðaltali um 500 þús. kr. á hvern bæ. Í dreifikerfi sjónvarpsins eru nú um 154 aðalsendar eða endurvarpssendar. Það eru um 99,9% landsmanna sem ná þessum útsendingum og er það með því hæsta sem þekkist meðal vestrænna þjóða, stendur í svari útvarpsins.
    Í þriðja lagi er spurt um það hvaða áform séu uppi af hálfu menntmrh. í þessu efni. Svarið er þetta: Menntmrh. hefur ákveðið, ég hef ákveðið það fyrir nokkrum vikum, að setja á laggirnar samstarfshóp til að fjalla nánar um uppbyggingu dreifikerfis Ríkisútvarpsins. Ég hef óskað eftir því að samgrn., Póstur og sími og Ríkisútvarpið tilnefni auk menntmrn. í starfshóp til að vinna að þessu sérstaka verkefni. Þá hefur uppbygging dreifikerfis Ríkisútvarpins einnig verið til umfjöllunar í samstarfshópi sem ráðuneytið skipaði til að gera tillögur um eflingu Ríkisútvarpsins, en framkvæmdir og uppbygging dreifikerfisins ráðast að sjálfsögðu af þeim fjárveitingum sem eru til umráða hverju sinni.
    Á heildaráætlun þessa árs á að verja um 20 millj. kr. til endurbóta á dreifikerfi útvarps og sjónvarps og þar við bætast fjárfestingarvörur af ýmsu tagi upp á 10 millj. kr., fluttar frá framkvæmdaáætlun síðasta árs, þannig að samtals er gert ráð fyrir að verja á þessu ári um 30 millj. kr. í þessu skyni.
    Ég vænti að þessum spurningum hv. þm. sé með þessu svarað. Ég skrifaði Ríkisútvarpinu 7. febr. 1989 út af þessu máli sérstaklega og bað um ítarlega kostnaðar- og framkvæmdaáætlun af hálfu Ríkisútvarpsins og óskaði jafnframt eftir því að sá starfshópur sem ég nefndi áðan færi yfir þetta mál í samráði við fulltrúa samgrn., Póst- og símamálastofnunar og menntmrn.
    Ég er sammála hv. þm. um forsendur þessa máls 100%, gersamlega sammála honum. Ég tel að það eigi að vera okkur metnaðarmál að koma Ríkisútvarpinu til

allra landsmanna undanbragðalaust og ég held að það sé einmitt þetta sem á að geta sýnt okkur betur en margt annað hvað það er brýnt að eiga almennilegt ríkisútvarp. Það er alveg augljóst mál að það sem kallað hefur verið frelsi í rekstri ljósvakamiðla leysir ekki þennan vanda. Það er langt frá því. Þessar skyldur eru á Ríkisútvarpinu sem þýðir að það verður að tryggja því fjármuni til að geta staðið undir þessum skyldum. Við höfum gert það m.a. með verulegri hækkun á afnotagjöldum útvarpsins núna frá 1. mars sl. Því miður fer þessi hækkun að talsverðu leyti til að greiða upp fjárhagslegan vanda sem lá á Ríkisútvarpinu frá fyrra ári þannig að minni hluti þessa en ég hefði vonað fer til þeirra endurbóta sem hv. þm. er hér að reka á eftir. En ég endurtek: Ég er honum sama sinnis og vænti þess að okkur takist, mér og honum í sameiningu og öðrum hv. þm., að reka þannig á eftir þessu máli að hér verið róið fyrir hverja vík eins og kostur er.