Gengisskráning krónunnar
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Fyrirspyrjandi (Kristinn Pétursson):
    Hæstv. forseti. Ég sá ástæðu til að koma með fsp. til viðskrh. um hvort hann teldi að hann hefði í embættistíð sinni farið eftir fyrirmælum 18. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 36/1986, varðandi gengi íslensku krónunnar, en þar segir: ,,Gengisskráning íslensku krónunnar skal miðast við að halda sem stöðugustu gengi, ná jöfnuði í viðskiptum við útlönd, en tryggja jafnframt rekstrargrundvöll útflutningsatvinnuvega og samkeppnisgreina.``
    Ég tel ástæðu til að fá rökstutt svar við þessari fsp. og um leið vildi ég gjarnan fá því svarað hvort hæstv. viðskrh. er sammála forsrh. þjóðarinnar um að eiginfjárrýrnun sjávarútvegsfyrirtækja á árinu 1988 hafi verið 13 milljarðar, viðskiptahallinn 10 eða 12 milljarðar, hvort hann telji að sé eitthvert samræmi í þessum hlutum.
    Gengisskráning hlýtur að taka mið af hagstjórn í landinu hverju sinni. Það er markmið með þessum lögum hvernig skuli skrá gengi íslensku krónunnar og það er ekki hægt að álíta að stjórnmálamenn eða embættismenn geti skráð gengi íslensku krónunnar eins og þeim sýnist. Það er markmið með þessum lögum hvernig gengið skuli skráð og það stendur hvergi að því skuli haldið stöðugu. Það er kannski síðasti hlekkurinn í þessari verðhækkunarkeðju. Svo er stöðvað á gengisskráningunni og eigið fé undirstöðufyrirtækja landsmanna rýrt með þeim hætti. Þetta er nákvæmlega sama og rányrkja fiskistofna. Þetta er ekkert annað en til að skerða lífskjörin í landinu til frambúðar.