Karl Steinar Guðnason:
    Frú forseti. Ég tel mig knúinn að vekja athygli á því að 22. des. lagði ég fram fyrirspurn hér í hv. Sþ. til fjmrh. um upplýsingaöflun kjararannsóknarnefndar sem er brýn fsp. og skiptir miklu máli varðandi þær rannsóknir sem þar fara fram og viðmiðanir. Enn hef ég ekki fengið svar við þessari fsp. Hún er ekki á dagskrá nú. Ég veit að hæstv. fjmrh. er erlendis nú, en ég óska eftir því að forseti komi þeim skilaboðum til fjmrh. að virða þingsköp og sýna ekki Alþingi þá óvirðingu að draga svör við fyrirspurnum svo úr hófi sem hér hefur gerst. Ég hefði látið hjá líða ef bót hefði orðið á hjá fjmrh. gagnvart upplýsingaöflun kjararannsóknarnefndar, en svo hefur ekki orðið. Ég bið forseta að koma þessu áleiðis og tel óhæfu að svo langan tíma taki að fá svar við fsp. þrátt fyrir að kveðið sé á um sjö daga frest.