Aðstoð við leigjendur
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég fagna því að þetta mál skuli vera komið á dagskrá. Þess var ekki kostur á síðasta fundi í Sþ. að taka það á dagskrá, en ég er fegin því að það er hér á dagskrá nú.
    Hér er ekki um neitt smámál að ræða, hér er um að ræða stórmál, og væri reyndar betra ef ekki þyrfti að flytja slíka tillögu. En eins og nú er komið er það mjög nauðsynlegt og við skulum ekki gleyma því að skortur á leiguhúsnæði er ekki síst vegna stefnu undanfarinna ára og jafnvel áratuga. Það hefur ekki verið byggt nægilega mikið af leiguhúsnæði. Áherslan hefur öll verið á að eignast húsnæði og þetta er sá hluti í húsnæðiskerfinu sem hefur verið hvað mest vanræktur.
    Eins og kemur fram í grg. þáltill. og flestir vita um er húsaleiga mjög há. Hún er varla á færi fólks með bærileg laun, hvað þá að hún sé á valdi lágtekjufólks. Það hlýtur að vera meginefni að styðja fólk til að hafa þak yfir höfuðið. Það þarf að leita til þess leiða. Hér er bent á tvær leiðir. Ég held að það sé nauðsynlegt þó það séu því miður ekki mjög margir þingmenn í salnum að þeir gefi þessu máli gaum og beri það inn í þingflokka sína og standi saman um að reyna að styðja á einhvern hátt, annaðhvort þann sem hér er lagður til eða annan, við þá hópa fólks sem eiga mjög erfitt með að standa undir kostnaði við húsnæði og geta ekki eygt í náinni framtíð og jafnvel langri framtíð að gangast undir þá herskyldu sem það er að eignast eigið húsnæði.
    Það hafa margir, m.a. Kvennalistinn, flutt mál á þinginu um að auka stórlega byggingu leiguhúsnæðis því það er alveg rétt, eins og kom fram í máli hv. 17. þm. Reykv., að það þurfa þess mjög margir einhvern tímann á lífsleiðinni að eiga þess kost að búa í leiguhúsnæði. Svo eru líka aðrir sem vilja ekkert eignast húsnæði, vilja fremur leigja án þess að þeir hafi nokkra sérnáttúru í þeim efnum. Það er mjög nauðsynlegt að fólk eigi val í þessum efnum, að það sé ekki beygt undir eina stefnu og neyðist til að fara í einn farveg, ekki síst þegar hann er svo torfarinn og erfiður eins og það að eignast húsnæði hefur reynst mörgum hér í landi.
    Ég legg áherslu á stuðning Kvennalistans við þessa tillögu. Hér er um hið merkasta mál að ræða og ég brýni aftur fyrir þingmönnum sem hér eru staddir úr flestum flokkum um að bera þetta mál inn í sína þingflokka þannig að því sé verðugur gaumur gefinn.