Aðstoð við leigjendur
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Óli Þ. Guðbjartsson:
    Hæstv. forseti. Ég vil í byrjun fyrir minn hlut þakka fyrir þær góðu undirtektir sem hafa þegar komið fram við þessa tillögu og þó að það sé að vísu eins og gjarnan vill vera á hinu háa Alþingi að þegar stjórnarandstaðan flytur eitthvert ágætt mál eru menn tilbúnir úr öðrum stjórnarandstöðuflokkum til að lýsa fylgi við viðkomandi hugmyndir en minna fer gjarnan fyrir yfirlýsingum af hálfu stjórnarliða eins og í rauninni hefur orðið hér, enda eru þeir ekki margir í salnum þessa stundina.
    En ég vildi fyrir minn hlut leggja á það áherslu í sambandi við þessa tillögu að hér er verið að leggja til breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt fyrst og fremst. Það er verið að leggja til breytingu til handa lágtekjufólki. Það er ekki tekið fram í tillögunni á hvern hátt þetta yrði útfært og heldur ekki grg. þannig að það má segja að það atriði sé algjörlega opið, skilgreiningin á því hverjir séu lágtekjumenn í þessu sambandi. En það fer ekkert á milli mála hver andinn er í þessu efni og mér þykir mjög vænt um þær undirtektir sem hér hafa orðið.
    En ég vek sérstaklega athygli á því að till. í sjálfu sér vekur athygli á misrétti í skattlagningunni, þ.e. að þeir aðilar sem þurfa að leigja fá ekki neinn hluta þess kostnaðar frádráttarbæran eins og skattalögin eru, en hins vegar er um að ræða húsnæðisbætur til annarra eða möguleika á þeim í lögunum eins og þau eru.
    Ég sé ekki annað en að tæknilega eigi að vera vel hægt að koma við leiðréttingu á þessu sviði eins og er í rauninni tekið fram í grg. þar sem minnst er t.d. á sjómannafrádrátt og húsnæðisbætur að öðru leyti, en ég vildi einnig vekja athygli á því að þó að sjálfsagt yrði tekjutap fyrir hið opinbera af þessum ástæðum ef þetta næði fram að ganga er líka minnt á að sú aðferð sem þarna er bent á gæti þýtt það að minna yrði um undanskot á lögmætum tekjustofni ríkisins en trúlega er þannig að það er a.m.k. óvíst að tekjutapið yrði umtalsvert í þessu efni.