Aðfaranám til ökuprófs
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Flm. (Jóhanna Þorsteinsdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að mæla fyrir till. til þál. um aðfaranám til ökuprófs á þskj. 494. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Kvennalistans Birna K. Lárusdóttir, Guðrún Agnarsdóttir, Kristín Halldórsdóttir, Sigrún Helgadóttir og Þórhildur Þorleifsdóttir.
    Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela menntmrh. að koma á aðfaranámi til ökuprófs í 9. bekk grunnskóla.``
    Í greinargerð með þessari tillögu segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Á undanförnum árum hefur fræðsla um slysavarnir í umferð verið mjög af skornum skammti á unglingastigi grunnskóla. Þó liggja fyrir drög að námsefni í umferðarfræðslu og brýnt er að tryggja að það komist í framkvæmd sem fyrst. Því er best borgið með sérstöku aðfaranámi til ökuprófs í 9. bekk grunnskóla.``
    Með hliðsjón af því að í nágrannalöndum okkar er námstími til ökuprófs tvisvar til þrisvar sinnum lengri en hér á landi vaknar sú spurning hvort námið hér sé of stutt og þar sé ef til vill að leita skýringa á tíðum umferðarslysum í aldurshópnum 17--20 ára.
    Okkur ber að leita orsaka og ekki síður úrræða og verður þá fyrst fyrir að líta til þeirrar fræðslu sem á að fylgja ökuprófi og á að tryggja þá umferðarmenningu sem við öll viljum hafa.
    Eins og nú er háttað ökukennslu er mikil ábyrgð á ökukennurum. Þeim er beinlínis ætlað að koma öllum þáttum umferðarfræðslunnar að á mjög stuttum tíma. Þar er um að ræða þjálfun í akstri ökutækis ásamt mannlegum og huglægum þætti umferðarkennslunnar.
    Umferðarfræðsla einskorðast ekki við ökutæki á vegum í þéttbýli og dreifbýli. Hún tekur ekki síður til umferðar og öryggis samborgaranna og umgengni við vinnuvélar og ýmis þau ökutæki sem notuð eru utan vega.
    Greiðastur aðgangur að öllum ungmennum er í gegnum grunnskólann og eðlilegast að hann sinni þessum mikilvæga uppeldisþætti.
    Í 9. bekk grunnskóla er möguleiki á að koma til allra verðandi ökumanna fræðslu sem, eins og þessi þáltill. felur í sér, aðfaranámi til ökuprófs. Þar gæti byrjað það nám sem lýtur að breyttum áhersluþáttum og að skipulagningu fræðslunnar sem hlekks í daglega lífinu, markmiðum sem leiddu til fækkunar umferðaróhappa hjá ungum ökumönnum. Fjölmargt mætti þar til nefna til að stuðla að bættri umferðarmenningu, svo sem skylduþátt, þ.e. umferðarkennslu sem lýkur með prófi og lágmarkseinkunn.
    Um fleiri mögulegar aðgerðir til úrbóta í umferðarmenningu okkar vísast til greinargerðar með till. til þál. á þskj. 134 sem þingkonur Kvennalistans flytja einnig.
    Einnig væri þarft að efnisþættir er varða öryggisbúnað bifreiða og tryggingar væru á námsefni til ökuprófs og einnig að gera nemendum grein fyrir því hvað kostar að kaupa og reka bifreið og önnur

vélknúin ökutæki.
    1. flm. hefur flutt fsp. til dómsmrh. um reglugerð um ökuferilsskrá sem felur í sér mat á fullnaðarskírteini ökumanna. Slík ökuferilsskrá er að öllum líkindum það aðhaldskerfi sem ásamt aukinni fræðslu getur leitt til fækkunar umferðaróhappa og tryggt okkur aukið umferðaröryggi.
    Hæstv. forseti. Ég vil að lokinni umræðu leggja til að þessari till. til þál. verði vísað til síðari umr. og hv. félmn.