Afstaða Íslands á fundi EFTA-landanna
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Ég kveð mér hljóðs utan dagskrár til að ræða málefni sem valdið hefur mér miklum áhyggjum að undanförnu. Þar er um að ræða fyrirhugaðan fund forsætisráðherra aðildarríkja EFTA, Fríverslunarsamtaka Evrópu, sem halda á í Osló í næstu viku. Þar verður að sjálfsögðu viðstaddur forsrh. Íslands, Steingrímur Hermannsson, sem hefur verið svo vinsamlegur að vera nærstaddur þessa umræðu.
    Það hlýtur að hafa vakið athygli fleiri en mína að undarlega hljótt hefur verið um tilefni þessa toppfundar af hálfu íslensku ríkisstjórnarinnar. Eins og stundum áður koma fregnir fyrst erlendis frá nú þegar á alþjóðavettvangi á að fjalla um stór hagsmunamál sem Ísland varða. Ég tel á engan hátt viðeigandi að efni þessa fundar fari með öllu fram hjá Alþingi Íslendinga svo mikið sem hér getur verið í húfi.
    Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum að Evrópubandalagð stefnir að því að í lok ársins 1992 verði kominn á einn og óskiptur markaður með afnámi landamæra ríkjanna tólf fyrir vöru, þjónustu, fjármagn og vinnuafl. Þetta markmið var að vísu sett fram í Rómar-sáttmálanum fyrir rúmum 30 árum, en það er fyrst með hertum ákvæðum, svonefndum einingalögum sem gengu í gildi 1987, að skriður komst á málið. Halda mætti af viðbrögðum fjölmiðla og stjórnmálamanna þessi missirin að himinninn sé að hrynja og viðbrögðin séu eins og hjá Unga litla í ævintýrinu.
    Það eru líklega bara sagnfræðingar sem minnast þess að miklar deilur urðu um hugsanlega aðild að Evrópubandalaginu hér áður fyrr, t.d. hér á Íslandi upp úr 1960. Í Noregi klofnaði samfélagið nánast í tvennt í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að Evrópubandalaginu 1972. Ísland hafði tveim árum áður valið þá leið að ganga í EFTA og enn eigum við samleið með fimm öðrum ríkjum í þeim samtökum.
    Ég tel nauðsynlegt að minna á það hér þó það sé flestum væntanlega ljóst að Evrópubandalagið og EFTA eru gerólík samtök að eðli og uppbyggingu. Evrópubandalagið er yfirþjóðlegt fyrirbæri, þ.e. ríkjasamtök með sameiginlegum valdastofnunum, ráðherraráði og framkvæmdastjórn með aðsetri í Brussel og heita má valdalausu Evrópuþingi í Strasbourg. Þar við bætist sérstakur dómstóll með aðsetri í Lúxemborg sem sker úr ágreiningsmálum. Þjóðþingin í löndunum eru því í raun orðin annars flokks stofnanir og það er orðin dapurleg mynd af þingræðinu sem við okkur blasir á meginlandinu.
    EFTA-ríkin hafa hins vegar hingað til valið allt aðra leið. EFTA eru frjáls samtök óháðra ríkja sem stefna að sem frjálsustum viðskiptum og hafa ekki afsalað sér neinum fullveldisréttindum. Nú er spurning hvort þar á að verða breyting á.
    Þann 17. jan. sl. hélt forseti framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins, Jacques Delors, ræðu á þingi Evrópubandalagsins og er hún talin vera eins konar stefnuyfirlýsing nýrrar framkvæmdastjórnar sem tók við um áramótin. Í ræðunni fjallaði hann m.a. um samskipti EFTA-ríkjanna við Evrópubandalagið. Hann

vakti athygli á því að nú yrði þyngra fyrir fæti í samstarfinu en verið hefur og því þurfi báðir aðilar að meta hvert stefna beri, ákvarðanatakan innan EFTA sé þunglamaleg og seinvirk þar sem hvert einstakt ríki þurfi að taka afstöðu til samskiptamála við Evrópubandalagið. Því varpaði hann þeirri spurningu til EFTA-ríkjanna hvort ekki þyrfti að leita eftir formfastara samstarfi með sameiginlegum stofnunum til töku ákvarðana og leggja áherslu á hinn pólitíska þátt í samstarfi beggja.
    Toppfundurinn í Osló, hinn fimmti í sögu EFTA, fjallar sérstaklega um hvernig bregðast skuli við þessari kvaðningu hins nýja valdhafa í Brussel.
    Undanfarnar vikur hafa ríkisstjórnir EFTA-landanna verið að bera saman bækur sínar um svar til Delors. Uppi var fótur og fit víða í EFTA-ríkjunum þegar brot úr uppkasti að væntanlegri ályktun Osló-fundarins fór að leka út í fjölmiðla. Fyrstu fréttirnar hingað bárust raunar fyrir tilstilli Ríkisútvarpsins sem voru teknar eftir Dagblaðinu í Osló og í kjölfarið fylgdu sænskir fjölmiðlar eins og Dagens Nyheter. Þar mátti lesa m.a. þann 1. mars sl. að í norsku uppkasti að væntanlegu svari forsætisráðherranna væri tekið undir áskorun Delors. Þar sagði m.a. að EFTA stefndi að því að koma á sameiginlegum markaði í formi tollabandalags með óheftu streymi á vörum, þjónustu og fjármagni samfara auknum tengslum við Evrópubandalagið. Einnig sé lag að því er varðar samræmingu á lagasetningu í EFTA og Evrópubandalaginu. Jafnframt sé rætt um að útkljá ágreining í eins konar gerðardómi. Fullyrt er í Dagens Nyheter að stjórn norskra jafnaðarmanna geti fallist á yfirþjóðlegar stofnanir, m.a. að því er virðist með stjórn umhverfismála að yfirvarpi.
    Í frétt blaðsins kom jafnframt að Johan Butterdal, þingflokksformaður norska miðflokksins eða Senterpartiet, telji ekki koma til greina að fallast á neinar yfirþjóðlegar stofnanir. Verkamannaflokkurinn norski velur leiðina í gegnum EFTA til þess að fikra sig í átt að aðild að Evrópubandalaginu, segir Butterdal.
    Eins og ráða má af þessu virðist svo sem engin smámál séu á dagskrá í
aðdraganda Osló-fundarins sem forsrh. Íslands er nú að tygja sig til þess að sækja. Finnst hv. alþm. og hæstv. ráðherrum við hæfi að forsrh. haldi utan án þess að hin minnsta grein sé gerð fyrir þessum málum hér á Alþingi? Það hefur ekki einu sinni verið svo mikið við haft að kveðja utanríkismálanefnd þingsins til fundar út af þessu máli og segir þó í þingsköpum, 15. gr., að nefndin sé, með leyfi forseta, ,,ríkisstjórninni til ráðuneytis um meiri háttar utanríkismál, enda skal ríkisstjórnin ávallt bera undir hana slík mál jafnt milli þinga sem á þingtíma.`` Að vísu er boðaður fundur í utanrmn. næsta mánudag, en þá verður forsrh. trúlega farinn af landi brott og líka hætt við að blekið sé þá þornað á uppkastinu að yfirlýsingu Oslóarfundarins. Getur verið að okkur Íslendingum sé ætlað að lesa það eftir á að búið sé að skuldbinda okkur í afdrifaríkum málum? Verður fyrir

lok næstu viku búið að skrifa upp á það fyrir Íslands hönd að við eigum að vera þátttakendur í sameiginlegum markaði þar sem landið yrði opnað fyrir erlendu fjármagni í áður óþekktum mæli? Er hugsanlegt að forsrh. verði boðið að skrifa undir yfirlýsingu um einhvers konar yfirþjóðlega ákvarðanatöku á vettvangi EFTA? Ég ætla svo sannarlega að vona að ekkert slíkt standi til, en blaðafregnir erlendis frá vekja áhyggjur.
    Virðulegur forseti. Ég leyfi mér að vænta þess að hæstv. forsrh. bregðist við þessum áleitnu spurningum og varpi hér á Alþingi ljósi á eðli þeirra ákvarðana sem stefnt er að að taka á fundinum í Osló. Alveg sérstaklega leyfi ég mér að spyrja hæstv. forsrh. að því hvort hann telji koma til greina að Ísland afsali sér lögsögu beint eða óbeint yfir einhverjum þáttum í sambandi við breytingar á starfsemi EFTA og samskiptum þess við Evrópubandalagið. Það eru ábyggilega fleiri en ég sem óska svara við þessum áleitnu spurningum.