Afstaða Íslands á fundi EFTA-landanna
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Júlíus Sólnes:
    Virðulegi forseti. Það er ekki seinna vænna fyrir okkur að fara að ræða um þetta mikilvæga mál á hinu háa Alþingi, þ.e. hver á að verða afstaða okkar Íslendinga til samstarfs Evrópulandanna á næstu árum, hvernig ætlum við að taka því að það er að myndast stór og samstæður markaður innan vébanda Evrópubandalagsins og með hvaða hætti ætlum við að hafa samvinnu okkar meðal EFTA-landanna sex á næstu árum. Eigum við e.t.v. eftir að horfa upp á það, kannski um aldamótin eða skömmu eftir aldamótin, að við stöndum ein sér, við Íslendingar, fyrir utan samstarf Evrópuþjóðanna eða verðum við að hugleiða það í alvöru þegar kannski liðin eru 20 ár eða svo að við neyðumst til að taka afstöðu til þess að við munum þurfa að ganga inn í Evrópubandalagið með öllum þeim skyldum og öllum þeim kvöðum sem því fylgir?
    Eins og málin horfa nú tel ég eðlilegt og sjálfsagt að við stöndum fyrir utan sjálft Evrópubandalagið en reynum að fylgjast mjög vel með og ná þeim samningum við Evrópubandalagið á sviði viðskipta og annarra samskipta sem hagstæðastir eru fyrir okkur Íslendinga. Það vaknar þá sú spurning: Er okkar málum best borgið með því að við reynum að ná tvíhliða samningum við Evrópubandalagið með því að leita eftir samningum beint við Evrópubandalagið eða eigum við að fara þessa leið í gegnum EFTA-samstarfið, þ.e. eigum við að treysta samstöðu EFTA-ríkjanna fyrir því að ná slíkum samningum fyrir okkar hönd? Þetta er spurning sem við verðum að fá svör við.
    Þarna er afstaða þeirra sex þjóða sem mynda Fríverslunarbandalag Evrópu, þ.e. EFTA-þjóðanna, mjög misjöfn. Sumir, m.a. Svíar, eru mjög bráðir til þess að gera slíka samninga við Evrópubandalagið og það hefur heyrst sú skoðun að þeir muni gefa EFTA-samtökunum eitt ár til að ná slíkum samningum fyrir hönd EFTA-ríkjanna sameiginlega. Ef það gengur ekki þannig að það fást engir viðunandi samningar á ári eða svo muni Svíar reyna að leysa þessi mál sjálfir án hjálpar EFTA-ríkjanna.
    Austurríkismenn hafa gengið hvað lengst EFTA-ríkjanna. Þeir lýsa því yfir fullum skrefum að þeir muni hyggja á fulla aðild að Evrópubandalaginu og láta á það reyna í þeim samningum hvort þeirra hlutleysi fær staðist í þeim samningaviðræðum sem þá færu í hönd við Evrópubandalagið.
    Norðmenn eru mjög tvístígandi. Það hefur komið fram í máli þeirra sem hafa talað á undan mér að skoðanir eru mjög skiptar í Noregi um hvaða afstöðu eigi að taka til Evrópubandalagsins.
    Finnar fara sínar eigin leiðir, en þó er mjög athyglisvert hvað Finnar hafa verið að gera undanfarin ár til að mæta þeirri samkeppni sem óneitanlega verður þegar hinn stóri sameiginlegi markaður Evrópu er orðinn að veruleika árið 1992. Hafa þeir þegar breytt löggjöf sinni á sviði bankamála og í ýmsum öðrum málum til að aðlaga sig þeirri staðreynd sem þá blasir við.

    Svisslendingar tel ég að muni vilja reyna tvíhliða samninga og treysta á eigin mátt og megin, enda hafa Svisslendingar alla tíð farið sínar eigin götur í alþjóðlegum viðskiptum.
    Og þá vaknar spurningin: Hvað ætla Íslendingar að gera? Ætla þeir að reyna samningaleiðina beint eða ætlum við að reyna að treysta á mátt EFTA-samstarfsins til að gera þessa samninga fyrir okkur?
    Það kom fram áðan að í ræðu Delors 17. janúar sl. á Evrópuþinginu kom fram áskorun til EFTA-ríkjanna að til þess að það væri hægt að ná einhverri samstarfi og samvinnu milli EFTA-ríkjanna og Evrópubandalagsins væri orðin full ástæða til fyrir EFTA-ríkin að huga að sínum innri málum, að búa til öflugan brúarstólpa sem hægt væri að byggja brúna yfir á. Og þá segja sumir: Er þá verið að ýja að því að EFTA eigi að verða einhvers konar lítið Evrópubandalag við hliðina á hinu stóra í Evrópu? Það þýðir þá að EFTA-ríkin verða að koma sér upp yfirþjóðlegum stofnunum í líkingu við það sem Evrópubandalagið hefur gert. Um þetta er áreiðanlega mjög mikill ágreiningur og verður áreiðanlega mjög erfitt að ná samstöðu um það milli EFTA-ríkjanna sex að fara þessa leið þó svo að fyrstu skrefin á þessari braut virðist þegar vera stigin sem margt bendir til í þeim aðgerðum sem hafa farið fram undanfarið á vegum EFTA-skrifstofunnar í Genf t.d.
    Það er eitt atriði sem ég vildi vekja athygli á. Ég spurði sérstaklega um það þegar við vorum stödd í Genf á dögunum, Evrópustefnunefnd Alþingis, með hvaða hætti á að fást skorið úr um deilumál sem koma upp milli t.d. tveggja EFTA-ríkja. Ég tók sem dæmi að Norðmenn hafa átt í mikilli samkeppni við okkur Íslendinga á ýmsum sviðum og er ekki örgrannt um að sú samkeppni hafi oft verið á óheiðarlegum grundvelli byggð. Norðmenn hafa t.d. rústað skipasmíðaiðnaðinn á Íslandi með því að nota ríkisstyrki til að gera norskum skipasmíðastöðvum auðveldara að ná samningum af m.a. íslenskum skipasmíðastöðvum. Þetta brýtur greinilega í bága við EFTA-fríverslunarsamkomulagið og þá vaknar spurningin: Með hvaða hætti getum við kært Norðmenn fyrir þarna augljós samningsrof og með hvaða hætti getum við fengið a.m.k. skorið úr um hvort þetta er augljóst brot á EFTA-samkomulaginu eða ekki?
    Svörin sem ég fékk við þessari spurningu voru þau að það væri næsta lítið sem við gætum gert. Íslenska ríkið getur að vísu reynt að fara þá leið að stefna norskum yfirvöldum fyrir norskum dómstólum og fá þannig úr því skorið hvort Norðmenn hafi brotið EFTA-samkomulagið, en það gefur auga leið að sú leið er næsta erfið og lítt líkleg til að skila nokkrum árangri. Og þá er spurningin: Er einhver önnur leið? Er hægt að hugsa sér að EFTA-ríkin þrátt fyrir allt komi sér upp einhvers konar yfirþjóðlegri stofnun þangað sem mætti vísa slíkum ágreiningsmálum sem hér er verið að fjalla um?
    Það eru orðin nokkur ár síðan að

Lúxemborgaryfirlýsingin svokallaða var samþykkt á sameiginlegum fundi fulltrúa Evrópubandalagsins og EFTA-ríkjanna 1984 í Lúxemborg þar sem því er lýst yfir að það skuli stefnt að efnahagssvæði Evrópu sem nái yfir þau 18 lönd sem mynda Evrópubandalagið og EFTA-ríkin sex þar til viðbótar. Þar fyrir utan var svo vikið að margþættu samstarfi sem þessi lönd mundu sameiginlega vinna að.
    Það er mikið rætt um frjálsræðin fjögur, þ.e. að innan þessa efnahagssvæðis Evrópu, svæðis þessara 18 Evrópulanda, yrði fullt frjálsræði í sambandi við vöruflutninga milli landanna. Þjónusta hvers konar ætti að vera alveg frjáls á milli landanna. Það er t.d. eitt atriði sem er vert að huga að. Við höfum verið mjög íhaldssamir í þeim efnum. Við höfum t.d. ekki viljað viðurkenna þjónustu annarra ríkisborgara á Íslandi og tek ég sem dæmi að hér er ekki heimilt fyrir erlenda arkitekta né verkfræðinga að leggja inn teikningar til samþykktar hjá íslenskum byggingaryfirvöldum. Þetta er mjög í andstöðu við það sem tíðkast í öðrum Evrópulöndum. Ég tek sem dæmi að í Danmörku er öllum erlendum ríkisborgurum frjálst að leggja fram teikningar til samþykktar hjá þarlendum byggingaryfirvöldum. Það skiptir ekki nokkru máli hvaða ríkisborgararétt þeir hafa. Við erum sennilega hvað íhaldssamastir í þessu efni. Þetta er eitt af þeim atriðum sem við þurfum að huga mjög að.
    Þá er það fjármagnið, en það er gert ráð fyrir að fjármagnsflutningar milli landa verði algerlega frjálsir. Þá vakna að sjálfsögðu ýmsar spurningar. Því hefur mjög verið velt fyrir sér af hálfu margra sem fjalla um þessi mál hér á Íslandi hvort við gætum hagnast á því að fjármagnsflutningar yrðu frjálsir eða hvort við mundum bera skarðan hlut frá borði, hvort erlendir aðilar mundu ná yfirtökum í fjármagnskerfinu, ná undir sig öllum íslenskum bönkum t.d.
    Það er eitt athyglisvert í þeim efnum þó. Það er að það er mjög mismunandi hvernig skattlagning fjármagns fer fram í hinum ýmsu Evrópuríkjum. Mér sýnist að það muni vera mjög erfitt fyrir ríki Evrópubandalagsins að ná samstöðu um t.d. það atriði hvernig skuli haga skattlagningu fjármagns og er ég ekkert viss um að þeir verði búnir að samræma það fyrir 1992 eins og stefnt er að. T.d. er mér kunnugt um að Frakkar skattleggja fjármagnstekjur með 25% skatti, Englendingar og Lúxemborgarbúar hafa engan skatt á fjármagnstekjum, 0%, og reyndar höfum við engan skatt á fjármagnstekjum eins og málum er háttað í dag. Það gæti vel verið að það mundi borga sig fyrir Íslendinga að halda í það að hafa engan skatt á fjármagnstekjum. Ef Evrópubandalagsríkin og hin ríkin í EFTA taka upp skattlagningu fjármagnstekna gætum við e.t.v. laðað erlent fjármagn hingað til lands vegna þess að við höfum engan skatt á fjármagnstekjum. Það er spurning sem þarf að fá svör við.
    Menn hafa haft miklar áhyggjur af því að leyfa frjálsan flutning á fólki milli landa eins og það er kallað, þ.e. að leyfa fólki að leita eftir atvinnu í Evrópulöndunum án tillits til ríkisfangs. Ég hef ekki

haft svo miklar áhyggjur af því hvað okkur Íslendinga varðar því að ég held að ásóknin yrði kannski meiri á þann veg að Íslendingar mundu leita til hinna Evrópuríkjanna í atvinnuleit frekar en að íbúar hinna Evrópuríkjanna mundu í stórum stíl leita til Íslands. Ég held að við þurfum ekki að hafa svo mjög áhyggjur af því.
    Eitt af því sem gerir stöðu Íslands mjög sérstaka í þeirri heild sem blasir við er sérstaða okkar á sviði sjávarútvegsmála. Ég vildi taka það fram hér að ég a.m.k. tel að veiðiheimildir til handa Evrópubandalagsríkjunum komi aldrei til greina í íslenskri lögsögu. Ég held að flestir geti verið sammála um það. Ég er líka sannfærður um að það er alger óþarfi að hafa nokkrar áhyggjur af þeim málum. Þegar litið er til þess að sjávarútvegur spilar nánast enga rullu í efnahagskerfi Evrópubandalagsins né hinna EFTA-ríkjanna fæ ég ekki séð að menn þurfi að hafa miklar áhyggjur af því að við kunnum að neyðast til þess að veita erlendum ríkjum, þ.e. hinum Evrópulöndunum, aðgang að íslenskri fiskveiðilögsögu. Ég held að það þurfi aldrei að koma til þess ef við bara höfum vit á því að standa fastir á þessari skoðun okkar.
    Hins vegar hef ég bent á að það er ekkert því til fyrirstöðu að við getum átt nána samvinnu við hin Evrópulöndin í sjávarútvegsmálum og þá kannski á fjarlægari miðum. Við gætum t.d. boðið Þjóðverjum og fleiri þjóðum Evrópubandalagsins, Spánverjum og Portúgölum, samvinnu um að nýta fiskimið lengra í burtu svo sem meðfram ströndum Afríku, en þar hafa einmitt þessar þjóðir verið að þreifa fyrir sér og sé ég ekkert því til fyrirstöðu að við með okkar allt of stóra togaraflota gætum verið með í þeim verkefnum. En það er einu sinni svo að við strendur Afríku eru mjög auðug fiskimið. Þar er staðan
þannig að þar er nógur fiskur en vantar skip. Hér er staðan þannig að við höfum nóg af skipum, allt of mörg, en vantar fisk. Það væri hægt að leiða þessa aðila saman og vita hvort ekki er hægt að koma einhverri samvinnu þarna á. Þessi samvinna gæti vel farið fram ásamt og með öðrum Evrópulöndum.
    Staða Íslands er mjög sérstök. Lega landsins gerir það að verkum og okkar efnahagskerfi og okkar viðskiptalíf að ég fæ ekki betur séð en að a.m.k. um ókomna framtíð sé okkur best borgið með því að geta gert samninga við allar þjóðir heims, þ.e. að við getum horft til allra átta, að við getum átt góð viðskipti við t.d. Bandaríkin og þá horfi ég ekki síst til góðra viðskipta sem við gætum átt við þjóðirnar í Austurlöndum fjær. Nýverið hefur opnast beint flutningasamband með flugi til Japans sem gerir okkur kleift e.t.v. að opna þar nýja markaði fyrir fiskafurðir og er það vel. Það eru svona hlutir sem við eigum að huga að og þess vegna eigum við ekki að einblína um of á Evrópubandalagið sem slíkt. Við eigum að hafa augun opin og horfa til allra átta.