Afstaða Íslands á fundi EFTA-landanna
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Ég fagna því að þessi mál eru komin hér til umræðu á Alþingi og vil þakka hv. 12. þm. Reykv., Kristínu Einarsdóttur, fyrir að taka þetta mál hér upp því það væri nánast óeðlilegt að mál af því tagi sem hér er til umræðu sé ekki rætt í þjóðþinginu jafnmikið og kann að vera í húfi og jafnmiklu og það skiptir að rétt og vel sé á þessum málum haldið, þessum stóru samskiptamálum við Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópubandalagið. Mér finnst alveg ástæðulaust að rugla því saman, annars vegar að halda eðlilegan trúnað í sambandi við undirbúning mála á alþjóðavettvangi og hins vegar því að þjóðþingið láti rödd sína heyrast um almenn viðhorf til þessara mála.
    Ég vil líka þegar í upphafi þakka hæstv. forsrh. fyrir viðbrögð hans við máli frummælanda. Það var ánægjulegt að heyra hæstv. forsrh. taka af öll tvímæli um það að í þeim samningsdrögum, sem kynnt hafa verið fyrir íslenskum stjórnvöldum og gengið hafa á milli aðildarríkja EFTA, sé ekkert það sem feli í sér á neinn hátt afsal á fullveldisrétti eða afsal á íslenskum réttindum til einhverrar yfirþjóðlegrar ákvarðanartöku eins og það er kallað á stofnanamáli á vettvangi EFTA hvað þá á víðari vettvangi.
    Hæstv. forsrh. greindi þinginu frá því að það væri ekki til umræðu að afsala neinum slíkum rétti en hins vegar væru misjafnar skoðanir meðal EFTA-ríkja hversu langt einstök ríki hefðu viljað ganga að þessu sinni í sambandi við yfirlýsingu væntanlega frá fundinum í Osló. Þetta er auðvitað mjög þýðingarmikið fyrir þing og þjóð að heyra og vita áður en efnt er til fundar forustumanna ríkjanna með þeim hætti sem hér er að stefnt. Ég fagna því að yfirlýsingar af þessu tagi liggja hér fyrir.
    Ég vil jafnframt benda á það hversu mikilvægt það er að þjóðþingin haldi á málum með skýrum hætti gagnvart framkvæmdarvaldinu, hvert svo sem það er, og séu gildir aðilar í stefnumörkun í svo stórum málum eins og hér eru til umræðu. Þróunin er því miður þannig í þingræðislöndum Evrópu að framkvæmdarvaldið er víðast hvar að sækja í sig veðrið á kostnað þjóðþinganna. Þessarar þróunar gætir nánast hvarvetna og við erum ekki lausir við þessa ásókn framkvæmdarvaldsins á kostnað þjóðþingsins en vel að merkja, það er ekki við framkvæmdarvaldið sjálft út af fyrir sig að sakast heldur er það miklu frekar að það skorti á metnað af hálfu þingsins að halda á sínum hlut með eðlilegum hætti. Það skortir mikið á það að þetta þjóðþing okkar marki þá stefnu til mála og hafi þá forustu í mikilsverðum málum sem þyrfti og því verður það hlutskipti framkvæmdarvaldsins meira en ella að taka ákvarðanir.
    Þingræðið er í hnignun í Evrópu þrátt fyrir allt hið mikla tal um þingræði og lýðræði. Þetta á alveg sérstaklega við um þá stóru heild, yfir 300 milljónir manna í Evrópubandalaginu sem nú er hvað mest um rætt. Þar er þingræðið að verða að skrípamynd eins og fram kom hér í máli frummælanda. Þar hafa

þjóðþingin afsalað sér valdi í þýðingarmestumálum, kannski að utanríkismálum undanskildum, til yfirþjóðlegrar skrifræðisstofnana í Brussel og Evrópuþingið situr sem valdalaust apparat í Strasbourg og fær í rauninni ekkert annað gert en að segja álit sitt á málum, veita umsagnir en forusta kemur þaðan ekki til mála. Það er nauðsynlegt að við Íslendingar áttum okkur á þessu eðli þessa bandalags sem að líkindum, eða a.m.k. ef til vill, er á leiðinni yfir í að verða ríki, sambandsríki. Fari svo þá kannski á eftir að stokka upp spilin og koma eitthvað burðugri fótum undir þingræði á þessu svæði, en það er ekki eins og málum er háttað nú í dag. En það er margt sem vísar til þess að ríkin tólf í Evrópubandalaginu eigi eftir að stíga skrefið til fulls yfir í formlega ríkisheild. Það er þess vegna sem ríkin í EFTA eiga engan kost á því að ganga þar inn í bili. Þó það kæmi umsókn frá Austurríki í dag þá eru ekki líkur á því að það sé komið á endastöð með afstöðu og aðild, jafnvel þó meðferðin yrði jákvæð, fyrr en 1995 eða 1996. Inn í ríkið Evrópubandalag fer að sjálfsögðu ekkert hlutlaust ríki og þau eru fjögur í EFTA sem hafa kosið að halda óháðri utanríkisstefnu, hlutleysi hvert með sínum hætti.
    Ég nefndi það að ástæða væri til þess fyrir okkur Íslendinga og hér á þjóðþingi okkar að hugsa um stefnumörkun sem fer fram á öðrum vettvangi en hjá okkur. Ég hef nýlega setið Norðurlandaráðsþing. Þar vorum við að fjalla um efnahagsáætlun fyrir Norðurlönd. Að vísu ekki bindandi en rammaáætlun sem hér var rædd í morgun. Hvað skyldu þeir vera margir hér á Alþingi Íslendinga, ætli það sé meiri hluti þingmanna, sem hafa lesið þessa efnahagsáætlun í gegn, frá orði til orðs? Mér vitanlega er hún ekki til á íslensku máli. Mér vitanlega hefur henni ekki verið snarað á íslenskt mál, a.m.k. ekki verið birt. Slík meðferð mála er auðvitað til vansæmdar, að það sé verið að fjalla um þýðingarmikil mál án þess að þau liggi hér fyrir á þjóðtungunni, aðgengileg á Alþingi Íslendinga. Á þessu þarf að verða breyting varðandi öll okkar alþjóðlegu samskipti þannig að það sé ekki skylda að menn séu fluglæsir á erlenda texta til þess að móta sér afstöðu til mála.
    Samstarf EFTA og Evrópubandalagsins er hér til umræðu. Auðvitað er vilji, væntanlega hjá öllum hér á Alþingi, að þarna geti tekist gott samstarf,
gagnlegt fyrir alla aðila, að það haldist gott samstarf þar sem það er gott, og þróist og verði betra en það er í dag. En það skiptir auðvitað öllu máli með hvaða hætti á þessum málum er tekið, hvaða skref eru þarna stigin.
    Ég vil vísa til þess sem hér hefur komið fram að menn hafa verið að þoka sér inn á lítt skilgreinda braut í samskiptum þessara aðila á undanförnum árum eins og t.d. með Lúxemborgar-yfirlýsingu forsætisráðherra Evrópubandalagsins og forsætisráðherra EFTA 1984. Það var ýmislegt heldur óljóst í þeirri yfirlýsingu. Þar er talað um evrópskt efnahagssvæði sem aldrei hefur í rauninni verið skilgreint í hverju eigi að felast, hvert eigi að stefna

undir því hugtaki. Þetta er eins konar regnhlíf yfir allt mögulegt og menn hafa verið að vinna undir þessari regnhlíf. Ég vil ekki halda því fram að þar hafi orðið nein stórslys á þeim árum sem síðan eru liðin, en þetta sýnir aðeins hvað það er nauðsynlegt fyrir hvert þjóðríki að átta sig á inntaki þess sem verið er að fjalla um, hvað þá að skrifa undir skuldbindandi. Og eitt er það að styrkja EFTA sem frjáls fríverslunarsamtök sjálfstæðra þjóða og annað það að fara yfir á þá braut að afsala sér fullveldi í mikilvægum málum sem greinilega er tilhneiging til hjá sumum EFTA-ríkjanna að gera. Forsrh. okkar segir: Það verður ekkert gert nema allir verði samstiga. En við skulum gæta að því að þó að við getum verið öflugir og ákveðnir Íslendingar, þá verðum við að gæta að því að lenda ekki í þeirri aðstöðu að telja okkur knúða til þess vegna þess að við erum komin inn á ákveðið spor, að stíga skref sem við teljum vafasöm, sem eru viðsjárverð varðandi framtíðarhagsmuni þjóðarinnar. Þess vegna er það svo þýðingarmikið að forsrh. Íslands geri sér fyllstu grein fyrir því, eins og má ráða af hans máli að hann geri, inn í hvaða samhengi er verið að tala og verður talað á væntanlegum fundi forsætisráðherra í Osló í næstu viku. Auðvitað liggur ekki allt fyrir, en það liggja fyrir drög að textum og fjölmiðlar hafa verið að birta glefsur úr þessu, bæði hér heima en alveg sérstaklega á Norðurlöndum. Ég vil líka leggja á það áherslu að það er ekki sama um hvað er verið að tala. Það er hægt að hugsa sér skuldbindandi ákvarðanir í alþjóðasamstarfi, jafnvel eitthvað sem má túlka sem yfirþjóðlegt í vissum málaflokkum þar sem þjóðirnar eiga sameiginlega hagsmuni. Við getum nefnt afvopnunarmál þar sem menn gera skuldbindandi samninga sem eru öllu mannkyni til framdráttar, og við getum nefnt umhverfismálin, skuldbindandi ákvæði um úrbætur í umhverfismálum, og jafnvel að þar séu menn að fórna einhverju af ýtrustu sjálfstæðiskröfum, þ.e. að menga ekki umhverfið vegna þess að það berst til annarra. En það er allt, allt annars eðlis en það að afsala sér sjálfræði þjóðar í efnahagsmálum, í undirstöðuþáttum varðandi stjórn efnahagsmála. Það á ekkert skylt við það sem er gert, sem betur fer, í samstarfi þjóða og sumpart skuldbindandi varðandi umhverfismál.
    Það er dálítið athyglisvert að ágætur forsætisráðherra Noregs, Gro Harlem Brundtland, sem veitir flokki forustu sem strekkir leynt og næstum ljóst inn í Efnahagsbandalag Evrópu, Verkamannaflokknum norska, og þar er verið að læða því inn til norsku þjóðarinnar að það sé allt í lagi að fórna ákveðnu sjálfræði í efnahagsmálum, mynda tollabandalag, taka upp frjálst streymi fjármagns, þjónustu, fólks, vöru, vegna þess að við erum hvort sem er í yfirþjóðlegu samstarfi í sambandi við umhverfismál. Norski forsætisráðherrann er mikill atkvæðamaður. Hún er atkvæðamikil á alþjóðavettvangi í umhverfismálum. En þarna eru villiljós á ferðinni, að mínu mati, sem fyllsta ástæða er til að gefa gaum og það er áreiðanlega gert í Noregi. Þar eiga menn viðkvæma

umræðu að baki sem hér var minnt á í upphafi í sambandi við þjóðaratkvæðagreiðsluna um inngöngu í Evrópubandalagið eða Efnahagsbandalagið eins og það þá var nefnt, árið 1972, þar sem felld var aðild gegn þorranum af stjórnmálaforustu í Noregi, m.a. í Verkamannaflokknum og í hægri flokkunum.
    Ég hef hér í höndunum norskar blaðaúrklippur frá í dag þar sem er verið að greina frá, til viðbótar við það sem komið hefur fram áður en með eitthvað fyllri upplýsingum kannski, efninu í þeim pappírum sem liggja nú á borðum forsætisráðherra EFTA-ríkjanna. Og þar kemur það m.a. fram --- ég ætla ekki að fara að vitna hér í með löngu máli af því að þetta eru þeir pappírar sem við höfum, þetta er það sem fjölmiðlarnir greina okkur frá --- að dregið hafi verið úr þeim áherslum sem lágu fyrir í fyrri drögum og greint var frá og vitnað til einmitt hér í upphafi af frummælanda um t.d. að í þessum textum felist afsal á þjóðréttindum. Það sé dregið úr því en hins vegar er látið að því liggja, t.d. hér í Dagblaðinu norska, að það sé ekki allt sem sýnist í þeim efnum að mati ýmissa sem farið hafa yfir þessa texta. Þar séu t.d. amennar formúleringar, eins og segir á norskunni, um að EFTA muni leitast við að leysa innri óeiningu og semja við Efnahagsbandalagið með einni rödd, ,,med en stemme``. Nú veit ég ekkert hvað er rétt í þessum efnum en þetta er það sem látið er liggja að hér í Dagblaðinu sem fyrst kom fram með brot úr textum sem hvorki hafa verið staðfest né þeim neitað af þeim sem þá hafa handa á milli. Og að mati ýmissa stjórnmálamanna norskra sem hafa farið yfir þessi mál segir Dagblaðið norska að ýmsir þeirra telji að þetta feli í sér vissa breytingu, visst afsal í þjóðréttarlegu tilliti yfir til EFTA, en þetta er vafalaust
túlkun aðila sem skilja þættina með öðrum hætti en þeir sem ætla sér að standa að yfirlýsingununum. Það eru svona þættir sem ég nefni hér til þess að forsrh. okkar vandi sig í öllum þáttum sem að þessu lúta, til þess að þær yfirlýsingar sem hann hefur gefið á Alþingi Íslendinga standi með réttu þegar þessum fundi er lokið.
    Það eru líka raktar hér deilurnar í Noregi um þessi mál. Það er ekkert einstakt að það er verið að ræða þessi mál á Alþingi Íslendinga. Þetta var í gær í umræðu í Stórþinginu norska af tilefni þriggja fyrirspurna og EFTA-ráðherrann Jan Balstad vék sér nokkuð fimlega undan og hélt auðvitað trúnað við pappírinn eins og krafist er í þessum undirbúningi að fundi forsætisráðherranna og staðfesti út af fyrir sig ekkert, var loðmæltur eins og hér er sagt í blaðafregnum. En það kom fram þarna mjög eindregin andstaða og viðvaranir frá talsmanni Miðflokksins norska, Senterpartiet, sem einnig hefur verið vitnað til hér fyrr í umræðunni, sem telur að þarna sé of langt gengið að hans mati í þessum efnum. Hvort hann hefur haft uppkastið fyrir framan sig skal ég ósagt látið, en það er eftir honum haft hér. Sama gildir um Sósíalíska vinstri flokkinn, sama gildir um Kristilega flokkinn í Noregi, svo að það eru deildar meiningar þarna um túlkun á þessum textum og við skulum gæta

að því, og ég treysti því að það verði vel lesið áður en ákvarðanir eru teknar. Og ekki þá meira um málin á erlendum vettvangi þessa dagana af minni hálfu.
    En mig langar aðeins að víkja að reynslu nágranna okkar og gamallar herraþjóðar yfir Íslandi, Dana, sem eru búnir að vera í Evrópubandalaginu síðan 1972. Ætli sé nú einhver almenn ánægja með þá þróun? Ég er ekki að taka það upp hér vegna þess að ég sé að gera því skóna að við séum á leiðinni í Evrópubandalagið, að það eigi vonandi eftir að renna vatn til sjávar, ekki aðeins áratugi heldur aldir áður en Íslendingar stígi slík skref inn í stórar þjóðarheildir, þjóðblöndu af því tagi sem Evrópubandalagið er í núverandi formi eða stærra. En við erum að ræða hér efnislega svipaða þætti og hafa ráðið miklu um þróun í Danaveldi á undanförnum árum. Við erum að fjalla um það að í hinu evrópska efnahagssvæði flytji menn sig inn á frjálst streymi fjármagns, frjálst streymi með þjónustu og fólk, fyrir utan frjáls viðskipti með vörur sem við erum jákvæð gagnvart. Það er nú ekki blessunin ein sem hefur fylgt þessu hömluleysi á þessum sviðum peninganna í Danaveldi. Það er verið að spá því að innri markaðurinn eigi að tryggja aukinn hagvöxt og velsæld og draga úr atvinnuleysi. Atvinnuleysi hefur farið ört vaxandi undanfarna mánuði í Danmörku, tugir þúsunda bæst við núna eftir áramótin. Og velferðarríkið Danmörk, sem er nú kannski orðið svolítið götótt á köflum, er í hættu að margra mati, m.a. vegna þess að Danir verða trúlega knúðir til þess að afsala sér skatttekjum, breyta skattkerfi sínu sem gerir þeim mjög erfitt fyrir að tryggja fjársöfnun í sameiginlegan sjóð Dana til þess að halda uppi þessu velferðarkerfi. Og hvað um þætti eins og umhverfisvernd, eins og verndun starfsumhverfis og eins og neytendavernd? Allir þessir þættir eru í verulegri hættu innan Danmerkur vegna kröfunnar um samræmingu innan Evrópubandalagsins. Sama mun verða uppi á teningnum ef við ætlum að ganga brautina áfram til samræmingar varðandi þessi atriði, samræmda staðla og annað þess háttar sem kann fyrr en varir að verða á dagskrá hjá þeim sem ganga vilja langt í þessum efnum, að opna fyrir hömlulaust streymi fjármagns og fleiri þátta einnig á EFTA-svæðinu.
    Ég ætla ekki að fara út í það hér, virðulegi forseti, að gera því skóna hvaða áhrif frjálst fjármagnsstreymi hefði á íslenskt samfélag, afsal á stjórntækjum hér í efnahagsmálum, afsal á því að geta ráðið gengi íslensku krónunnar, afsal á því að geta ráðið hér vöxtum sem yrði afleiðingin af frjálsu fjármagnsstreymi til og frá landinu. Hvað ætli þetta þýddi fyrir Ísland? Við getum velt því fyrir okkur. Ég ræði það ekki mikið nú en t.d. við sem erum fulltrúar landsbyggðar hér á Alþingi Íslendinga, hvaða stöðu ætli byggðamálin hefðu sem hafa nú ekki verið mjög hátt skrifuð eða hátt í þeim pundið hér í stjórnvaldsákvörðunum á undanförnum árum? Hvers ætli við myndum verða megnug í þeim efnum að viðhalda byggð í okkar landi ef við opnuðum fyrir gáttir fjármagnsins eins og krafan er um hjá ýmsum,

einnig þeim sem ætla að vera í EFTA og vilja ekkert inn í Evrópubandalagið í bili en taka niður hömlurnar í sambandi við fjármagnið?
    Þess vegna á það ekki að vera á dagskrá af hálfu Íslands að fara að skrifa upp á neitt af því tagi í sambandi við EFTA-samstarf á næstunni. Málið er auðvitað alveg órætt og óskoðað hér á Alþingi Íslendinga. Vissulega sagði hæstv. forsrh. hér áðan að það stæði ekkert slíkt til, að skrifa upp á það. Það væri fullur fyrirvari á öllu þessu sem snýr að fjármagnsflutningum, svokölluðu frelsi í þjónustu, og varðandi tilfærslu vinnuafls svo að við gætum verið róleg í bili. Við eigum hins vegar eftir að fá umræðuna um þetta hér á Alþingi og hún er þegar að koma upp hér í þjóðfélaginu og það geta orðið átök og við skulum búa okkur undir þau og ræða málin af sem mestu viti, innsæi og þekkingu. Skoðanir geta síðan verið skiptar og er ekkert við því að segja. Það eru hin lýðræðislegu skoðanaskipti sem við þurfum að ástunda hér og ákvarðanir
í ljósi þess.
    Ég vil þá aðeins koma hér, virðulegur forseti, að samskiptum Íslands sem EFTA-ríkis við Evrópubandalagið. Það hafa verið alveg þokkaleg samskipti Íslendinga við Evrópubandalagið nú um langt skeið, vissulega ekki hnökralaus, sjálfsagt að mati beggja ekki hnökralaus. Það eru nefndir hér tollar sem hafa óvænt komið upp varðandi saltfiskviðskipti, útflutningur okkar á saltfiski til Evrópubandalagsins. Auðvitað er það verulegt hagsmunamál, sem við verðum að reyna að leysa með samningum. Við gerðum samning árið 1972 og honum fylgdi bókun en sú bókun tók ekki gildi fyrr en 1976 þegar búið var að leysa deiluna um landhelgismálið, þ.e. að mati Evrópubandalagsins. Þeir nefnilega neituðu að bókun 6 tæki gildi 1972 vegna þess að þeir voru ekki ánægðir með stefnu Íslendinga í landhelgismálum. Við skulum minnast þess, nú þegar þetta bandalag, þessi stóri viðskiptaaðili okkar, setur fram kröfuna um það að komast inn í íslenska fiskveiðilögsögu, og hvað sem sagt er eða sagt ekki í veislum og ræðuhöldum, þá er það inni í stefnumiðum Evrópubandalagsins enn í dag að tengja saman veiðiréttindi og frjáls viðskipti með fiskafurðir. Það er þarna á blaði, hvort það verður krafa í samningum, hvort það verður pólitísk hindrun á samningum, á það hefur ekki reynt til hlítar. En ég vil aðeins segja um þetta mál: Við eigum ekki að opna fyrir samningaviðræður um neitt sem heitir skipti á veiðiheimildum varðandi fiskstofna innan íslenskrar efnahagslögsögu, innan íslenskrar landhelgi, út á einhverja möguleika á veiðum annars staðar. Það á ekki að vera til umræðu. Það er enginn stuðningur við slíkar hugmyndir á Íslandi og við eigum ekkert að vera að viðra þær. Ég hef ekki legið á því, þó að ég hafi ekki haft hátt um þá skoðun mína undanfarna daga, að ég tel það mjög óheppilegt ef farið væri út í það að taka upp viðræður af því tagi vegna þess að ég tel að þá værum við í rauninni ekki að ganga fram með eðlilegum hætti gagnvart þessum samningsaðila.

Við segðum honum ekki rétt. Það fær enginn stjórnmálamaður hér heimildir í hendur til þess að semja um skipti á veiðiheimildum, a.m.k. ekki sem neinu máli skiptir. Ég hef enga trú á því. Þá eigum við að segja það, enda engin rök fyrir því að fara að skipta á náttúruauðlindinni fiski upp á einhver betri samskipti, upp á það að fá frjáls viðskipti eftir almennum lögmálum fríverslunar. Það eru ekki nokkur rök fyrir því. Á sama hátt geta menn gengið inn í landhelgi Noregs og sagt: Sko, við viljum fá hérna hluta af norsku olíulindunum, annars fáið þið ekki heimsmarkaðsverð fyrir olíuna ykkar á alþjóðlegum mörkuðum. Fiskurinn er okkar náttúruauðlind og um hann verður ekki samið við aðrar þjóðir. Við ætlum að nýta hann, halda vel á honum og forðast að fiskimiðin okkar mengist.
    Eins og hér hefur komið fram í máli manna er það ekkert gustukaverk að bjóða fisk til sölu suður í Evrópu. Við þurfum ekkert að ganga bónarveg til þess með góðar afurðir héðan. Þetta eru gagnkvæmir hagsmunir, hagsmunir Evrópubandalagsins m.a. að fá fiskinn frá Íslandi nú og í framtíðinni og við þurfum ekkert að beygja okkur undir einhverjar úreltar hugmyndir um að fara að úthluta eða afsala okkur hluta af náttúruauðlindum landsins til að geta átt slík samskipti. Hér þarf að hafa skýra afstöðu og ekki ganga inn á skilgreiningar sem eru á pappírnum suður í Brussel og alltaf er verið að halda að Íslendingum öðru hverju.
    Ég er mjög undrandi á því að það skuli vera að finna stuðning við það hér, jafnvel á Alþingi Íslendinga, að halda þannig á máli. Ég held að það sé mjög langt frá því að það sé einhver meirihlutastuðningur við slík sjónarmið, að fara að taka upp samninga um gagnkvæmar veiðiheimildir.
    Hér hefur verið nefnt sem ávinningur sem sé á blöðunum sem á að leggja fyrir forsætisráðherrana í Osló að þar verði viðurkennt meginsjónarmið um fríverslun með fisk. Sannarlega er tími til kominn, sannarlega góður þáttur og gott að fá slíkt fram. En það á ekki að kaupa það neinu verði. Það þarf ekki að kaupa sanngirnissjónarmið eins og það að fiskur sé eðlileg vara í fríverslunarsamskiptum. Við eigum ekki að gjalda það með einhverju verði á öðrum sviðum. Þetta er eðlileg gagnkvæm krafa. Eins og við hleypum hér iðnvarningi annarra þjóða tollfrjálst inn í landið eigum við auðvitað réttinn að versla með fiskafurðir án hindrana. Það er ekki til að skreyta, hvað þá að vega þá á móti einhverju öðru.
    Virðulegur forseti. Ég mun senn ljúka máli mínu. Ég hvet hæstv. ríkisstjórn og hæstv. forsrh. til að gæta ýtrustu varúðar, eins og ég heyri að er hans vilji, í meðferð mála á vettvangi EFTA, bæði nú og framvegis meðan hann heldur þar á málum. Ísland fær stóran hlut á þeim vettvangi síðar á þessu ári, sem er formennska í EFTA-ráðinu, hver veitir þar forustu, sem leggur á okkur verulega ábyrgð en veitir okkur auðvitað færi um leið til að hafa enn frekar áhrif á þessum vettvangi en ella. Við tökum eftir því, bæði hér á Alþingi í umræðum og eins í viðræðum í

nefndum á vegum þingsins, að það eru uppi talsvert breytileg viðhorf til þessara samskiptamála, bæði á vettvangi EFTA og við Evrópubandalagið. Það er út af fyrir sig ekkert við það að athuga á meðan það leiðir ekki til þjóðhagslegs tjóns eða tjóns fyrir framtíð Íslands. Það er hún sem við erum með sem fjöregg í okkar höndum og berum ábyrgð á í þessum málum.
Og þar verðum við að vanda okkur sannarlega. Þar megum við hvergi rasa um ráð fram. Og það er svo víðs fjarri að það sé búið að vega og meta málin hér með tilliti til einhverra stórra breytinga í samskiptaháttum við nágrannaríkin að það væri á nokkurn hátt forsvaranlegt að taka einhverjar ákvarðanir þar. Þjóðþingið er að byrja að ræða þessa hluti, rétt að byrja. Við sem erum í Evrópunefnd þingsins höfum átt þess kost að fylgjast meira með þessum málum, skoða þessi mál meira en aðrir þingmenn. Við höfum verið sett í það hlutverk. En þingið allt þarf að vera á sama stigi þegar það fær það verkefni hugsanlega að meta hugsanlegar breytingar sem við verðum líka að vera opin fyrir að vissu marki.
    Það skiptir afar miklu, virðulegur forseti, að þjóðin geti verið samstiga í þessum stóru hagsmunamálum, bæði hvað snertir viðskipti, menningarleg samskipti og félagsleg málefni sem við skulum síst af öllu gleyma að eru einnig á þessu borði. Það eru ekki bara viðskipti. Það er ekki bara fjármagn og peningar. Það eru félagsleg samskipti fólks, staða fólks og það er fólkið sjálft. Því er hér mikið í húfi.