Afstaða Íslands á fundi EFTA-landanna
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Virðulegi forseti. Ég vildi fá að segja nokkur orð út af sjávarútvegsmálum og samskiptum okkar við Evrópubandalagið, ekki síst vegna þeirra umræðna sem hafa verið í fjölmiðlum undanfarna daga þar sem sá skilningur hefur komið fram að íslenska ríkisstjórnin hafi nánast boðið Efnahagsbandalaginu veiðiheimild við Ísland og nánast verið látið í það skína að ekkert ætti að koma jafnvel í staðinn. Þetta er að sjálfsögðu af og frá. Það hafa engar veiðiheimildir verið boðnar og ekkert slíkt staðið til og með eindæmum hvernig Morgunblaðið hefur lagt út af þessu máli, í jafnviðkvæmu máli og þetta er og af stórum fjölmiðli sem ætlast til að hann sé tekinn alvarlega, ekki síst á alþjóðavettvangi því allir leiðarar sem þar eru skrifaðir eru jafnóðum þýddir og sendir til samstarfsaðila okkar í hinum ýmsu löndum.
    Hitt er svo annað mál að við verðum að vera tilbúnir til að ræða okkar mál við Efnahagsbandalagið með þeim hætti sem við teljum okkur sjálfum vera fyrir bestu í þeim tilgangi að ná við það sem hagkvæmustum samningi því það verður ekki gengið fram hjá því að Efnahagsbandalagið er okkar mikilvægasti viðskiptaaðili og það verður ekki lifað í þessu landi nema við eigum hagkvæm utanríkisviðskipti og hagstæð samskipti við önnur ríki.
    Því er rétt í þessu sambandi að rifja það upp með hvaða hætti þessi mál hafa gengið á undanförnum árum og komið er á annan áratug.
    Þegar bókun 6 gekk í gildi 1976 var jafnframt ákveðið að taka upp viðræður við Efnahagsbandalagið um samskipti á sviði sjávarútvegsmála. Þessar viðræður áttu sér stað á árunum 1976 og fram yfir 1981 og það lágu fyrir þá drög að samningi milli okkar og Efnahagsbandalagsins. Það slitnaði upp úr þessum viðræðum eða þeim lauk m.a. vegna þess að Grænlendingar gengu úr Efnahagsbandalaginu og aðstæður breyttust. Því þurftum við að ganga til viðræðna við Grænlendinga eftir þetta til að reyna að ná samskiptamálum okkar við þá í gott lag og það hefur tekið langan tíma og því er ekki lokið enn. En í þessu sambandi er jafnframt rétt að rifja upp hver er annars vegar stefna Efnahagsbandalagsins og hver er stefna okkar.
    Stefna Efnahagsbandalagsins er sú að það komi veiðiheimildir í stað aðgangs að markaði og hvað svo sem menn segja í samræðum sín á milli er þetta hin opinbera stefna Efnahagsbandalagsins og fram hjá því verður ekki gengið. Það er hins vegar stefna okkar að það komi ekki til greina að ræða það að fyrir aðgang að markaði komi aðgangur að auðlindum. Okkar sérstaða er slík að slíkt er ekki hægt að ræða af okkar hálfu og fyrir því verður að skapast skilningur hjá Efnahagsbandalaginu og við hljótum að gera okkur vonir um að að sá skilningur skapist. Við þurfum hins vegar að ræða við það um önnur svið sjávarútvegsmála, þar á meðal fiskveiðar því að okkar fiskveiðar tengjast með nokkrum hætti Efnahagsbandalaginu hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Við skulum þá í því sambandi líta á þá

sameiginlegu stofna sem við eigum með öðrum þjóðum.
    Við eigum í fyrsta lagi sameiginlegan stofn með Norðmönnum og Grænlendingum sem er loðnan. Nú nýlega höfum við gert samning um skiptingu þessa stofns og til þess að koma í veg fyrir veiðar á ungloðnu í grænlensku lögsögunni töldum menn rétt að heimila þessum aðilum veiðar að hluta til í okkar lögsögu þannig að nýting stofnsins yrði sem hagkvæmust.
    Við eigum sameiginlega stofna með Grænlendingum. Í fyrsta lagi eigum við sameiginlegan karfastofn þar sem þannig háttar til að karfinn sem veiðist Grænlands megin er mun smærri en karfinn sem veiðist Íslands megin. Við eigum líka sameiginlegan rækjustofn þar sem við höfum mikilla hagsmuna að gæta og það vill svo til að mikið af ungviði, karfa, er drepið í þeim veiðum. Það er mikið magn sem er sópað út af karfaseiðum í þeim veiðum. Við þurfum að sjálfsögðu að ná samningum við Grænlendinga um nýtingu þessara stofna og það vill svo til að Grænlendingar hafa afhent Efnahagsbandalaginu nýtingu þessara stofna að langmestu leyti. Efnahagsbandalagið hefur keypt réttindi á Grænlandsmiðum, bæði að því er varðar karfa og rækju og þessar veiðiheimildir eru nýttar af Þjóðverjum, Norðmönnum, Dönum svo að eitthvað sé nefnt.
    Í síðasta lagi eigum við sameiginlegan fiskistofn með Efnahagsbandalaginu sem er kolmunni. Þennan stofn höfum við ekki nýtt á undanförnum árum. Hann var síðast nýttur 1983 þegar íslensk skip hættu veiðum vegna þess að kolmunninn gekk inn í skosku lögsöguna, þar með lögsögu Efnahagsbandalagsins. Fram hjá þessum staðreyndum verður ekki gengið og ef við ætlum að tryggja hagkvæmustu nýtingu íslenskra fiskistofna verðum við að vera menn til að ræða þau mál við þá aðila sem um þau fjalla.
    Baráttunni fyrir hagkvæmustu nýtingu íslenskra fiskistofna var ekki lokið með útfærslu landhelginnar af þeirri einföldu ástæðu að fiskarnir virða ekki landamærin. Það vill svo til að það eru sameiginlegir stofnar á þessum landamærum og um það verður að semja. Og við höfum aðeins samið um einn stofn til þriggja ára.
    Að ræða þessi mál með þeim hætti sem hér hefur verið að undanförnu verður að harma því að það er mikilvægt að við stöndum saman um þá meginstefnu okkar að
það komi ekki til greina að láta aðgang að auðlindum í stað aðgangs að markaði. Hins vegar verðum við að ræða sjávarútvegsmálin á breiðum grundvelli og í því felst ekkert nýtt. Það var gert á árunum 1976--1981. Því var lofað 1986 af þáv. forsrh. og þáv. utanrrh. að það færu fram samræður milli Íslendinga og Efnahagsbandalagsins og það stóð til að þær samræður byrjuðu í september sl. en úr því gat ekki orðið vegna ríkisstjórnarskiptanna. Það var hins vegar gert núna og það er aðeins opnun á þeim samræðum eða hvað svo sem það er kallað. Þær samræður eru nauðsynlegar og

þarf að flýta þeim frekar en hægja á þeim því að hér er mikið í húfi og engin ástæða til að hræðast þær samræður þannig að í ljós komi hvað það er sem þar er á borðinu. Það hefur ekki komið í ljós enn þá, en kemur væntanlega í ljós síðar. Það má segja að um það hafi verið full samstaða, ég vil segja meðal allra þeirra stjórnmálaflokka sem hafa átt aðild að ríkisstjórn frá 1976, frá því að bókun 6 átti sér stað, að þannig yrði haldið á málum og engin ástæða til að ýfa þau mál upp með þeim hætti sem reynt hefur verið að gera hér undanfarna daga.
    Þeir menn sem best til þekkja og hafa staðið í þessum málum af okkar hálfu í gegnum langan tíma meta það svo að það sé lykilatriði að þessar samræður eigi sér stað og þeim verði haldið áfram því það muni m.a. ekki þá standa í vegi fyrir því að við náum þeim samningum sem eru okkur lífsnauðsynlegir að því er varðar tollamál. Það er ekki aðeins saltfiskur. Það er ýmislegt annað sem hefur breyst frá 1976. Spánn og Portúgal hafa vissulega gengið í bandalagið og tollur hefur verið tekinn upp á saltfiski sem ekki var áður. Við höfum hafið mikinn útflutning á flatfiski sem ekki var 1976. Við höfum hafið útflutning á ferskum flökum sem ekki var þá. Og síðast en ekki síst hljótum við að stefna að því að fullvinna fiskinn mun meira, en tollar í Evrópu standa í vegi fyrir því. Það getur ekki verið stefna Íslendinga að ætla sér að flytja sem mest út af óunnum fiski inn á þessa markaði og gera það að einhverju samningsatriði. Það hlýtur að vera fyrst og fremst stefna okkar að vinna sem mest að fiskinum hér í landinu, en til þess þurfum við að fá eðlilega samkeppnisstöðu í Evrópu.
    Ég vænti þess að þær samræður sem eru hafnar að nýju og byrja aftur á þeim þræði sem slitnaði muni leiða til þess að við getum náð samningi við Evrópubandalagið á sviði sjávarútvegsmála og er eðlilegt að það sé stefnt að slíkum samningi því að Evrópubandalagið hefur gert slíkan samning við allar þjóðir hér á norðurslóð utan við Íslendinga og Sovétmenn. Nú er unnið að samningi milli Evrópubandalagsins og Sovétmanna og því hlýtur það að vera ljóst að við munum vilja gera samning um þau mál, en þó með þeim hætti að við höldum í öllu okkar rétti og okkar hagsmunir séu hafðir þar í fyrirrúmi eins og ég veit að allir munu vinna að.
    Evrópubandalagið hefur gert samninga við aðila á þeim grundvelli að aðgangur að markaði kemur í stað aðgangs að auðlind. Þar minni ég á Kanadamenn, Svía og jafnvel Norðmenn þótt það komi ekki fram með beinum hætti, en með samningi sínum fyrir stuttu náðu Norðmenn tollfrelsi á saltfiski í Evrópubandalaginu sem skaðað hefur okkar samningsstöðu verulega.
    Ég er sammála því að við hljótum að stefna að því, Íslendingar, að nýta okkar auðlindir sjálfir, en við hljótum hins vegar að verða að semja um aðra við sameiginlega stofna og ég minni á að hér eru í gangi samningar við aðila enn þá, þar á meðal við Belgíu, sem er hluti af Evrópubandalaginu, Norðmenn hafa hér lítils háttar heimildir og Færeyingar hafa það

jafnframt. Það er okkur lífshagsmunamál að semja um þessa sameiginlegu stofna því ef við gerum það ekki er mikil hætta á því að það verði stunduð rányrkja eins og hefur oft gerst og sem við fáum ekkert ráðið við. Ef við erum ekki menn til að viðurkenna þessar staðreyndir getum við ekki reiknað með því að hafa stjórn á þessum mikilvægu fiskveiðiauðlindum sem við eigum.