Afstaða Íslands á fundi EFTA-landanna
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Páll Pétursson:
    Frú forseti. Ég vil byrja á því að átelja það frumhlaup hjá Kristínu Einarsdóttur, hv. 12. þm. Reykv., að hefja utandagskrárumræður um þetta mál á þessari stundu. Ég held að málshefjandi sé ekki að reyna að leita að skynsamlegri niðurstöðu. Hér er einungis verið að reyna að slá sér upp og slá einhverjar pólitískar keilur. Við sitjum saman í Evrópustefnunefnd og ættum nú eftir átta mínútur að setjast að fundi inni í Borgartúni, boðuð þangað sem fulltrúar í Evrópustefnunefnd, boðuð þangað af hæstv. forsrh. til að fjalla um undirbúning að fundi forsætisráðherra EFTA-ríkjanna í Osló. Við höfum í höndum trúnaðarskjöl varðandi undirbúning þess fundar og hv. þm. þurfti ekki að kveðja sér hljóðs hér á Alþingi til að leita eftir þeim gögnum. Hv. þm. hafði fullkomin tækifæri til að hafa áhrif á þróun málsins og þann málflutning sem forsrh. kemur til með að hafa á fundinum í Osló. Það hefði verið réttara að reyna að fara þannig að en að reyna að slá sér pólitískt upp með upphlaupi hér.
    Við hv. þm. Kristín Einarsdóttir höfum í mörgu haft svipuð viðhorf í þessari nefnd hvað varðar afstöðu Íslands til Efnahagsbandalagsins og sú afstaða er einmitt á þeirri braut sem hæstv. forsrh. hefur nú markað. Hann hefur farið með þetta mál, hæstv. forsrh., af mikilli prýði að mínum dómi, sýnt bæði fyrirhyggju og varfærni og gætt hagsmuna Íslands með miklum sóma, haldið til haga fyrirvörum Íslands og sérstöðu.
    Það er ekki á dagskrá að ganga í Efnahagsbandalag Evrópu og ég drótta því ekki að neinum hv. alþm. að hann sé að vinna að því, enda væri það hreinn óvitaskapur að leita eftir inngöngu og fullri aðild að Efnahagsbandalagi Evrópu. Ég hef ekki trú á að aðstæður breytist svo á næstunni að okkur sé hagur að eða vit fyrir okkur að ganga í Efnahagsbandalagið. Það á sér stað hröð þróun innan Efnahagsbandalagsins. Það er stefnt að sameiginlegum innri markaði 1992. Ég er ekki trúaður á að allir þeir draumar sem menn dreymir í Brussel núna um þá Vestur-Evrópu sem komin verði á 1992 verði að veruleika. Ég minni á að Efnahagsbandalagið er bandalag stjórnvalda sem vilja verja fyrirtæki sín sameiginlega gegn utanaðkomandi samkeppni með því að reisa í kringum þau nokkurs konar Kínamúr, reisa nokkurs konar Kínamúr í kringum þessi tólf ríki. Og þetta er ekkert bandalag þjóða. Þetta er bandalag stjórnvalda og fyrirtækja. Og af því að þetta er ekki bandalag þjóða verður sameiningin ekki að mínum dómi eins fullkomin og margir eru að gera ráð fyrir í dag. Bretar halda nefnilega áfram að vera Bretar og Frakkar halda áfram að vera Frakkar og þegar til kastanna kemur una þeir því ekki að ganga undir svo yfirþjóðlegt vald sem Efnahagsbandalagið gerir ráð fyrir að verði komið á 1992. Þess vegna tel ég að það sé ekki eins mikil hætta á útilokun EFTA-ríkjanna frá Vestur-Evrópu og margir búast við í dag. Við Íslendingar höfum náð góðum samningum við Efnahagsbandalagið á flesta grein. Við þurfum að bæta vissa þætti, en við kaupum

náttúrlega ekki viðskiptahagsmuni fyrir veiðiheimildir eins og hæstv. sjútvrh. orðaði það áðan. Það er hins vegar mjög vandasamt verkefni að ræða um veiðiheimildir við Efnahagsbandalagið og orkar tvímælis hvað miklum tíma á að eyða í það því við þolum ekki og þurfum ekki að deila fiskimiðum okkar með öðrum. Við eigum að reyna að nota EFTA til að bæta stöðu okkar þar sem það hentar. Við getum ekki fylgt öðrum EFTA-ríkjum í öllum greinum. Okkar þjóðfélag er öðruvísi en annarra EFTA-ríkja og við þolum ekki og stöndumst ekki það frelsi --- það er nú búið að misþyrma orðinu frelsi svo mikið að ég held ég ætti heldur að nota orðið hömluleysi --- við þolum ekki það hömluleysi sem stærri ríki þola á flutningum fjármagns, hömlulaust streymi vinnuafls, vöru og þjónustu. Ef við undirgengjumst það mundum við að sjálfsögðu strax glata tungu okkar, menningu og sjálfstæði á mjög skömmum tíma. Við eigum að vinna af einurð innan EFTA. Og EFTA kemur til með að standa áfram. Þá þegar af þeirri ástæðu að Efnahagsbandalagið hefur ekki nokkurn áhuga á að fá hlutlaus ríki innan sinna vébanda. Þeir leggja vaxandi áherslu á hernaðarsamvinnu, á öryggismál, á varnarmál og þar af leiðir að Austurríki, Sviss, Finnland eða Svíþjóð passa ekki inn í það munstur sem Efnahagsbandalagsríkin eru að koma upp hjá sér og útilokast þá þegar af þeirri ástæðu. Norðmenn gætu átt leið inn í Efnahagsbandalagið. Þeir eru hins vegar ekki einhuga í málinu. Hægri flokkurinn vill aðild og hefur gert það að kosningamáli. Miðflokkurinn leggst gegn aðild og hefur gert það að kosningamáli. Það er ekki rétt, sem hér hefur komið fram, að það sé einhugur í Verkamannaflokknum. Verkamannaflokkurinn er klofinn í málinu og forsætisráðherra Norðmanna, formaður Verkamannaflokksins, hefur reynt að sópa þeim vanda undir teppið fram yfir næstu kosningar. Ég hef þær fregnir að í þjóðaratkvæðagreiðslu væru úrslit tvísýn í Noregi svo við þurfum ekkert að slá því föstu hér og nú að Noregur sé á leiðinni inn í Efnahagsbandalagið.
    Við þurfum að styrkja EFTA og reyna að semja með EFTA þar sem það hentar okkur, semja beint þar sem við eigum ekki samleið með öðrum EFTA-ríkjum. Og ég vil biðja hv. þm. að einblína ekki á Evrópubandalagið því heimurinn er miklu stærri. Heimurinn er líka Ameríka, Austurlönd fjær, Austur-Evrópa og meira að segja þriðji heimurinn. Þess vegna held ég að það sé okkar verkefni að passa
að lokast ekki inni í Efnahagsbandalaginu því við höfum þar ekkert að gera. Norðurlönd hafa betri lífskjör og þróaðra velferðarkerfi en flest önnur Evrópulönd og ég held að við eigum að standa vörð um okkar velferðarþjóðfélög. Innan Efnahagsbandalagsins eru 15 milljónir manna stöðugt atvinnulausar og það er nokkuð sem ekki freistar okkar.
    Eins og ég sagði áðan ætti Evrópustefnunefnd að vera að setjast að störfum og þar er réttur vettvangur

fyrir okkur sem þar sitjum til þess að skiptast á skoðunum og samræma okkar sjónarmið. Þess vegna tel ég að þessi umræða hér sé misráðin á þessu stigi og skerpi fremur andstæður en laði til samstöðu.
    Ég tel að hæstv. forsrh. sé mjög vel trúandi til að fara með þetta mál bæði í Osló í næstu viku svo og annars staðar og ástæðulaust og illt verk að vera að reyna að sá fræjum einhverrar tortryggni eins og þessi málsupptekt ber vott um.
    Ég tel að þeir ræðumenn sem hér hafa talað hafi haft fullkomnar aðstæður til þess að fylgjast með málinu og hafa áhrif á gang þess.