Byggingarsjóður námsmanna
Mánudaginn 13. mars 1989

     Páll Pétursson:
    Frú forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um stofnun Byggingarsjóðs námsmanna og geri það í fjarveru 1. flm., Finns Ingólfssonar, en auk okkar flytja þetta mál hv. þm. Stefán Guðmundsson, Guðni Ágústsson, Valgerður Sverrisdóttir og Jón Kristjánsson. Tillgr. er þannig:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að stofna í samvinnu við námsmannasamtökin, þ.e. stúdentaráð Háskóla Íslands og Bandalag íslenskra sérskólanema, byggingarsjóð sem hafi það hlutverk að fjármagna íbúðarbyggingar fyrir námsmenn. Byggingarsjóðurinn verði sjálfstæð stofnun með sérstakri stjórn og verði í vörslu Seðlabanka Íslands.
    Byggingarsjóðnum verði heimilað að taka lán hjá Byggingarsjóði verkamanna. Sjóðurinn verði til að byrja með í eigu ríkisins og námsmannasamtakanna. Tekjur sjóðsins verði leigutekjur af húsnæði í eigu sjóðsins og greiði námsmenn innan námsmannasamtakanna ákveðið hlutfall af árlegum skólagjöldum sínum til byggingarsjóðsins. Fyrstu tíu árin greiðir ríkissjóður árlega til sjóðsins þrefalda þá upphæð sem námsmenn greiða. Þegar tekjur sjóðsins standa undir eigin framlagi sjóðsins við fjármögnun bygginga afhendi ríkið samtökunum eignarhlut sinn í sjóðnum.``
    Þannig hljóðaði tillögugreinin. Tilgangurinn með þessari þáltill. er að benda á ákveðna leið til lausnar á því ófremdarástandi sem nú ríkir í húsnæðismálum námsmanna.
    Innritaðir stúdentar í Háskóla Íslands á þessu hausti eru rúmlega 4300. Það er þó aðeins brot af fjölda námsmanna því að í Bandalagi ísl. sérskólanema eru félagsmenn liðlega 3000 og nám við Háskólann á Akureyri stunda nú um 70 manns. Námsmenn í þessum námsmannasamtökum búa við mjög misjafna aðstöðu hvað húsnæðismál varðar. Bandalag ísl. sérskólanema hefur ekkert húsnæði fyrir sína félagsmenn. Sama gildir um Háskólann á Akureyri. Þeir verða því eingöngu að treysta á leigumarkaðinn. Auk þessa eru þúsundir námsmanna sem stunda nám í mennta- og fjölbrautaskólum sem einnig verða að leita sér að leiguhúsnæði. Aftur á móti búa stúdentar við Háskóla Íslands við mun skárri kost þótt slæmur sé því að þeir hafa möguleika á að komast inn í það húsnæði sem Félagsstofnun stúdenta á. Það er Gamli garður, sem byggður var árið 1934, Nýi Garður sem byggður var 1943 og Hjónagarðar sem teknir voru í notkun árið 1974. Þó er innan við 5% stúdenta við Háskólann sem geta nýtt sér þetta húsnæði.
    Árið 1984 beitti þáv. félmrh., Alexander Stefánsson, sér fyrir því með lagasetningu á Alþingi að hægt væri að lána úr Byggingarsjóði verkamanna til námsmanna og annarra félagasamtaka 85% af byggingarkostnaði leiguhúsnæðis fyrir þessa hópa. Í kjölfar þessarar lagabreytingar hófust byggingarframkvæmdir á vegum Félagsstofnunar stúdenta við nýja garða. Í september sl. fluttu fyrstu stúdentarnir inn í það húsnæði.
    Sett hefur verið á fót Félagsstofnun stúdenta við

Háskólann á Akureyri og vonir standa til að sú stofnun eignist innan tíðar húsnæði fyrir stúdenta sem stunda nám við þann skóla. Það er eðlilegt, verði þessi tillaga samþykkt hér á Alþingi, að Félagstofnun stúdenta við Háskólann á Akureyri verði eignaraðili að þessum byggingarsjóði.
    Í könnun sem Félagsstofnun stúdenta lét gera árið 1982 á húsnæðisaðstöðu stúdenta við Háskóla Íslands kom fram að 4,6% stúdenta bjuggu á stúdentagörðum en 40% stúdenta bjuggu í leiguhúsnæði. Lánasjóður ísl. námsmannna lét framkvæma árið 1986 svipaða könnun á húsnæðisaðstöðu námsmanna sem voru í lánshæfu námi hér á landi. Sú könnun sýndi að 50% námsmanna bjuggu í leiguhúsnæði og í dag búa um 4% stúdenta við Háskóla Íslands á stúdentagörðunum. Rannsókna eða kannana á ástandinu er því ekki þörf. Það er aðgerða þörf.
    Daglegar auglýsingar, og það í tugatali, í dagblöðum í ágúst og september á ári hverju, þar sem námsmenn auglýsa eftir húsnæði og heita hárri fyrirframgreiðslu, segja sína sögu um ástandið. En hvernig námsmenn geta heitið hárri fyrirframgreiðslu er torskiljanlegt. Herbergi eru leigð út fyrir miklar fjárhæðir, tveggja herbergja íbúðir fyrir kannski 30--40 þús. kr. á mánuði og reiknuð framfærsla Lánasjóðsins í dag eru 33.418 kr. á mánuði fyrir einstakling í leiguhúsnæði. Af þessari upphæð er áætlað að um 5.140 fari í húsaleigu. Þetta leiguverð er ekki greitt af námsmönnum sjálfum nema að hluta til. Það sannar reiknuð framfærsla Lánasjóðsins. Auðvitað lendir það á foreldrum, vinum og venslamönnum að aðstoða námsmenn í þessum efnum. Þegar haft er í huga það aðstöðuleysi sem námsmenn búa við og hér hefur verið bent á, þá tel ég að öll rök hnígi í þá átt að byggingarsjóður sem þessi sé mjög nauðsynlegur og það vil ég rökstyðja með eftirfarandi:
    1. Eftir því sem framboð á húsnæði fyrir námsmenn verður meira, því minni verður námskostnaður nemenda. Leiga er mun lægri í námsmannahúsnæðinu en á hinum almenna leigumarkaði.
    2. Lægri námskostnaður mun draga úr kröfu námsmanna um hækkun á reiknuðum framfærslukostnaði frá Lánasjóði ísl. námsmanna. Það er þjóðfélagslega hagkvæmara að fjármagna félagslegar íbúðarbyggingar fyrir námsmenn en að
fjármagna húsnæðiskostnað þeirra á almennum leigumarkaði.
    3. Hægt er með fjölgun námsmannaíbúða að draga úr aðstöðumun milli landsbyggðar og höfuðborgar hvað menntun varðar.
    4. Hátt leiguverð hefur haft áhrif á varanlega búsetu fólks. Foreldrar námsmanna eða þeir sjálfir bregðast oft við húsnæðisvandanum með því að fjárfesta í íbúðum á höfuðborgarsvæðinu.
    5. Öflugur byggingarsjóður fyrir námsmenn er framtíðarlausn á leiguhúsnæðisvanda þeirra.
    6. Aukið framboð á húsnæði fyrir námsmenn mun leiða til lækkunar á leiguverði á hinum almenna leigumarkaði höfuðborgarsvæðisins og kæmi það helst

til góða þeim sem búa í leiguhúsnæði á því svæði.
    Húsnæðismál námsmanna hafa áður komið til umræðu hér á Alþingi. Þáltill. frá hv. alþm. Stefáni Guðmundssyni, um að fela ríkisstjórninni að kanna sérstaklega á hvern hátt mætti bæta úr þeim mikla húsnæðisvanda sem námsmenn utan Reykjavíkur búa við, var samþykkt hér á Alþingi 1984. Á síðasta þingi var flutt samhljóða tillaga og sú sem hér er mælt fyrir, en varð ekki útrædd.
    Sem fylgiskjöl með þessari þáltill. eru umsagnir Stúdentaráðs Háskóla Íslands, Bandalags ísl. sérskólanema og Félagsstofnunar stúdenta.
    Ég trúi því að með samstilltu átaki námsmanna sjálfra og ríkisvaldsins sé hægt að koma fastri stjórn á húsnæðismál námsmanna fyrir framtíðina. Við þær ástæður sem námsmenn búa í dag er útilokað að búa til lengdar.
    Frú forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði þáltill. vísað til hv. félmn. Sþ.