Byggingarsjóður námsmanna
Mánudaginn 13. mars 1989

     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Ég fagna þessari till. sem þingmenn Framsfl. flytja um að stofnaður verði sjóður til byggingar íbúðarhúsnæðis fyrir námsmenn. Það hefur verið mikið vandamál hjá námsmönnum að afla sér leiguhúsnæðis og það er rétt sem fram kom í ræðu hv. þm. Páls Péturssonar að þetta hefur haft veruleg áhrif á leigumarkaðinn hér í Reykjavík og m.a. leitt til þess að húsaleiga er allt of há.
    Ýmislegt hefur samt verið gert á vegum samtaka námsmanna. Nú eru í byggingu nýir hjónagarðar sem bjarga að miklu leyti þeirri þörf sem verður fyrir nemendur í Háskóla Íslands. En betur má ef duga skal. Ég verð að segja það að lítið hefur verið gert fyrir aðra en nemendur Háskólans. Það er rétt að komið verði á einhvers konar sjóði sem hægt er að ganga í til byggingar húsnæðis. Það er samt alltaf spurning hvernig standa skuli að þessu, hverjir eigi að greiða. Á það að vera ríkið eða eiga það að vera námsmenn að hluta til? Okkur er öllum kunnugt um að námsmenn hafa mjög litlar tekjur til ráðstöfunar til að borga leigu. Þess vegna ætti það að vera réttlætanlegt að ríkið komi þar inn í að einhverju leyti. Við þingmenn Borgfl. höfum lagt fram tillögur í Ed., einmitt um þetta, hvernig Byggingarsjóður verkamanna getur komið inn í og lánað allt upp í 100% til einmitt svona félagslegra bygginga. Ég held að það sé raunhæfara en að ríkissjóður styrki slíka sjóði með beinum framlögum. Hins vegar vonast ég eftir að tillagan komi vel til umræðu í þeirri nefnd sem henni verður vísað til, hv. félmn., en þar á ég sæti og mun gera mitt í því að kafa ofan í þessi mál og athuga hvort þetta sé raunhæft og hve mikinn kostnað ríkissjóður hefur af þessu máli.