Verndun vatnsfalla og jarðhitasvæða
Mánudaginn 13. mars 1989

     Flm. (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka þann stuðning sem kom fram í máli hv. 12. þm. Reykv. varðandi þessa till. Ég vænti þess að almennur vilji sé til þess að reyna að vinna vel og skipulega að þessum málum. Það er alveg rétt sem hv. þm. nefndi. Það þarf auðvitað nokkra fjármuni til þess að gera þá úttekt sem hér er gert ráð fyrir, vinna þá áætlun sem þar er um að ræða. Og það verður að treysta því að þingið veiti fé í því skyni ef þessi till. verður samþykkt. Hins vegar eru það auðvitað hreinir smámunir hjá því fjármagni sem fer til spillis með því að ráðast í ótímabæran undirbúning og rannsóknir, býsna dýrar rannsóknir margar hverjar, varðandi hagnýtingu sem hugsanlega er síðan ekki hljómgrunnur fyrir að verði byggt á til framkvæmda.
    Ég nefndi það ekki í máli mínu að í náttúruverndarlögum er vissulega ákvæði sem gerir það skylt að bera hönnun virkjana og annarra meiri háttar mannvirkja undir Náttúruverndarráð. Það er 29. gr. laganna nr. 47/1971. Það eitt er hins vegar ekki nóg þó að til bóta sé að hafa slíkt ákvæði því að það þarf að vinna að greiningu þessara mála vel fram fyrir sig, þ.e. tímanlega. Sá háttur hefur verið á að orkuyfirvöld hafa verið með mjög margt í takinu, auðvitað á mjög mismunandi stigi hvað undirbúning snertir, en forgangsröðun og vilji stjórnvalda í því efni hefur ekki legið fyrir. Það er slík forgangsröðun sem hér er beðið um að áætlun verði gerð um.