Íslenskt mál í sjónvarpi
Mánudaginn 13. mars 1989

     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Þar sem þessi till. er rædd hér af svo mörgum þá vildi ég bætast í hópinn til þess að taka undir þann áhuga sem felst í tillöguflutningnum og þau sjónarmið að það sé í rauninni ekkert ofgert í þeim efnum að rétta við hlut íslenskrar tungu. Það skiptir hins vegar mjög miklu hvernig að því er staðið þannig að fjármagn og fyrirhöfn nýtist sem best. Ég er alveg sammála flm. að auðvitað er sjónvarpið svo áhrifamikill miðill að það er mjög eðlilegt að reynt sé að leggja kvaðir á herðar þess varðandi íslenskt mál.
    Ég vil benda á að líklega væri einna áhrifamest ef þetta væri daglegur þáttur í starfi fjölmiðilsins og sjónvarpsins. Helst vildi ég mega segja sjónvarpsstöðva sem hér eru reknar og heimilaðar þó að ekki sé óeðlilegt að gerðar séu nokkuð aðrar og meiri kröfur til ríkisfjölmiðils heldur en kannski einkastöðva og er það þó vissulega álitamál.
    Ég held að stutt vakning og hvatning varðandi meðferð íslensks máls, helst daglega á vettvangi sjónvarpsins væri jafnvel áhrifameira en sérhólfað námskeið varðandi íslenskt mál þó að það geti einnig verið ágæt leið ef hægt er að efna til þess og koma því við í dagskrá á tíma sem líklegt er að margir hlýði á og verði aðnjótandi. Ekki skal ég hafa á móti því.
    Ég tek undir það sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni að það skiptir miklu að við hræðum ekki almenning varðandi notkun tungunnar og gerum ekki lítið úr fólki þó að það ráði ekki fullkomlega við það sem talin er vera rétt beyging eða rétt ritun íslensks máls eða réttur framburður. Aðalatriðið hér, eins og á öðrum sviðum, er auðvitað fyrirbyggjandi aðgerðir. Því fyrr sem þeim verður komið við þeim mun betra, hjá börnunum auðvitað sem eru í mótun, að þau geti orðið aðnjótandi að góðu tali og góðum texta, það skiptir mjög miklu máli.
    Fjölmiðlarnir eru hér auðvitað mjög leiðandi í þessu. Því er eðlileg krafa til þeirra sem starfa við fjölmiðla að þeir vandi sig í þessum efnum og það séu gerðar til þeirra miklar kröfur. Ég hef saknað þess nokkuð lengi og mér hefur fundist að á það skorti, en alveg sérstaklega verður þetta áberandi í þeirri svokölluðu fjölmiðlabyltingu eða ljósvakabyltingu sem orðið hefur undanfarin ár og sumpart verður rakin til breytinga á útvarpslögum. Það er ekki nóg að aðeins ríkisfjölmiðlar ástundi hér gott fordæmi og ræktunarstarf í sambandi við tunguna. Við þyrftum að geta lagt þá kvöð á hendur allra þeirra sem fá rétt til að nýta ljósvakann að þeir leggi eitthvað af mörkum í þessum efnum. Það ætti í raun að vera siðferðileg skylda þeirra sem beita þannig íslensku máli að það er haft fyrir mörgum að þeir leggi eitthvað á sig í sambandi við verndun og varðveislu tungunnar og ég á þá ekki við það í niðursuðuformi, þ.e. ekki í því formi að við eigum að líta á málið sem eitthvað óbreytanlegt því auðvitað er það í þróun eins og annað, framburður sem fleiri þættir málsins. En við þurfum að rækta grunninn, grunn málsins, og beitingu og notkun. Það er auðvitað undirstaða okkar

menningar, þjóðmenningar, öllu öðru fremur. Þess vegna er þessi till. sem og aðrar á réttum stað.
    Ég held að sú þingnefnd sem fær þetta til meðferðar ætti um leið og hún fjallar um þennan texta, sem hér er lagður til, að fara yfir það hvað hefur gerst í sambandi við þau mál sem tengjast varðveislu tungunnar á undanförnum árum og flutt hafa verið hér inn á vettvang Alþingis, því að þau munu vera nokkur, til þess að athafnir fylgi orðum og samþykktum og þingið fylgist með hvað gerist með þær samþykktir sem frá því ganga fram til framkvæmdarvaldsins alveg sérstaklega.