Lýsing á Reykjanesbraut
Mánudaginn 13. mars 1989

     Flm. (Jóhann Einvarðsson):
    Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 158 að flytja till. til þál. sem er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera kostnaðar- og framkvæmdaáætlun við að setja upp lýsingu við Reykjanesbraut milli Hafnarfjarðar og Njarðvíkur og leggja hana fyrir Alþingi eigi síðar en við næstu endurskoðun vegáætlunar.``
    Till. þessi var flutt fyrr í vetur er skammdegið var sem mest og veður oft erfið til aksturs. Sambærileg till. var flutt og samþykkt á síðasta þingi um lýsingu vegarins yfir Hellisheiði.
    Þegar hefur verið lögð fram á Alþingi till. til þál. um tvöföldun Reykjanesbrautar af þingmönnum Borgfl., till. sem er alls góðs makleg og flm. styður sem lokatakmark.
    Fyrir nokkrum árum stóð flm. að till. um að kanna hagnýtt gildi þeirra hugmynda sem uppi hafa verið um rafknúna járnbraut frá Reykjavík til Suðurnesja og austur fyrir fjall. Sú till. hlaut ekki afgreiðslu, en slík könnun þyrfti að fara fram.
    Báðar þessar till., þ.e. tvöföldun Reykjanesbrautar og rafknúin járnbraut frá Reykjavík t.d. að Flugstöð Leifs Eiríkssonar, eiga því miður allt of langt í land, m.a. vegna mikils kostnaðar.
    Talið er að umferð um Reykjanesbraut sé farin að nálgast 10.000 bifreiðar á sólarhring, sem segir ekki alla söguna, því að í raun eru aðeins tveir ,,toppar``, þ.e. umferðin er langmest árla morguns og síðan síðdegis á brottfarar- og komutímum flugvéla á Keflavíkurflugvelli, svo og við upphaf og lok vinnutíma á Keflavíkurflugvelli, en þar starfar mikill fjöldi Íslendinga hjá innlendum og erlendum aðilum.
    Slysatíðni á Reykjanesbraut er mikil og flest slys mjög alvarleg, enda hraði mikill og aðstæður ekki alltaf eins og best verður á kosið.
    Það er skoðun flm. að fullkomin lýsing við veginn sé fljótvirkasta og ódýrasta lausnin í sjónmáli til þess að draga úr slysatíðninni. Það hefur sýnt sig að þar sem lýsing hefur verið bætt á hættulegum umferðarslóðum hefur slysum fækkað.
    Unnt er að vinna þetta verk í áföngum, t.d. mætti byrja á því að lýsa upp gatnamót. Það væri mikil bót ef gatnamótin við Grindavíkurveg, Voga og Kúagerði yrðu lýst. Það er áætlað að kostnaður við að lýsa hver gatnamót þarna væri á bilinu 2,5--3,5 millj. kr. en að því yrði mikil bót.
    Samkvæmt þeim upplýsingum, sem flm. hefur aflað sér, má áætla að kostnaðurinn við þetta verk í heild, þ.e. frá Hafnarfirði að Innri-Njarðvík, sé um 85 millj. kr., eða um 3 millj. kr. hver km. En það má líka ætla að sá kostnaður næðist verulega niður ef unnt yrði að bjóða þetta verk út í einu lagi.
    Reynsla af lýsingu vegarins upp í Mosfellssveit og ofan við Hafnarfjörð staðfestir það.
    Lagfæra þyrfti og hækka stikur þær sem eru við veginn en þær eru eina hjálp bifreiðastjóra við erfið akstursskilyrði, t.d. í skafrenningi, til þess að draga úr umferðaróhöppum, árekstrum og útafkeyrslum sem hafa verið allt of tíð, sérstaklega í vetur, enda veður

oft verið válynd.
    Vegurinn hefur í örfáum tilfellum lokast í vetur og reyndar flesta vetur og þá fyrst og fremst við fáa staði. Á þessum fáu stöðum, sem eru við ,,hólana`` sem ég kalla stundum svo, væri unnt að draga verulega úr þessum möguleika á því að vegurinn lokaðist með því að jafna þessa hóla við jörðu. Ég tel að það ætti að hafa um það viðræður við Náttúruverndarráð hvort ekki mætti jafna þessa hóla og draga þannig úr því að það skafi í skafla á þessum fáu stöðum, en þetta eru ekki nema þrír eða fjórir staðir alla leiðina. Það er náttúrlega afar óþægilegt þegar vegur eins og Reykjanesbrautin lokast þó ekki sé vegna annars en millilandaflugsins sem rekið er eins og allir vita frá Keflavíkurflugvelli.
    Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til síðari umr. og hv. allshn.