Mat á heimilisstörfum
Mánudaginn 13. mars 1989

     Flm. (Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir):
    Ég mæli hér fyrir þáltill. sem ég flyt ásamt öðrum þingmönnum Borgfl., þeim hv. þm. Albert Guðmundssyni, Hreggviði Jónssyni, Guðmundi Ágústssyni, Júlíusi Sólnes, Inga Birni Albertssyni og Óla Þ. Guðbjartssyni.
    Þáltill. er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Alþingi ályktar að skora á forsætisráðherra að fela Þjóðhagsstofnun að gera úttekt á verðmætagildi heimilisstarfa í þjóðfélaginu í heild og meta gildi þeirra með tilliti til þjóðartekna eins og þær eru reiknaðar í dag.``
    Þegar við lögðum þetta mál fram vakti hæstv. félmrh. athygli mína á því að tillaga svipaðs eðlis hefði áður verið samþykkt á Alþingi. Í sjálfu sér breytir það alls engu. Aldrei er góð vísa of oft kveðin. Þjóðhagsstofnun mun hafa farið eitthvað ofan í þetta en samt ekki treyst sér til að rannsaka það til hlítar. Upplýsingar sem Þjóðhagsstofnun gaf byggðust á norskri könnun og samkvæmt því var álitið að verðmætagildi heimilisstarfa hér mundi nema um 17 milljörðum kr., þ.e. tekið var mið af þessari norsku könnun.
    Við höldum því fram hérna í grg. að konur gjaldi þess mjög á vinnumarkaði að störfin inni á heimilunum eru ekki metin. Reyndar er það alveg áreiðanlegt. Það er furðulegt að t.d. húsmæður skuli ekki komast inn í neina lífeyrissjóði. Það er ákaflega mikið réttleysi sem þeim er boðið upp á þar. Það var ákaflega algengt, þegar konur streymdu út á vinnumarkaðinn, að þær færu í störf sem eru mjög svipuð heimilisstörfum. Ég veit mörg dæmi um það að konur, sem fóru út á vinnumarkað og fóru að vinna í störfum sem þær höfðu nánast unnið alla ævi, fengu þetta einskis metið. Þær byrjuðu alveg frá grunni í launaskalanum. Þetta sýnir náttúrlega svo að ekki verður vefengt hvað þessi störf á heimilinu eru í raun og veru lítils metin. Þau hafa alltaf þótt svo sjálfsögð að það hefur orðið að vana að líta á þau eins og þau gerðu sig sjálf.
    Á þessu þarf að verða breyting. Ég held að kannski sé eitt af brýnustu verkefnum í því að berjast fyrir jafnrétti kvenna það að byrja á réttum stað og byrja t.d. á svona málum.
    Við segjum hér í grg., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þjóðarframleiðslan mælir hagsæld þjóðarinnar fyrst og fremst á mælikvarða markaðsbúskaparins. Þannig er undanskilin nær öll vinna sem unnin er án þess að gjald komi fyrir og vega heimilisstörf þar þyngst á metunum.``
    Vissulega hafa heimilisstörf breyst mikið á seinni árum. Það kemur náttúrlega margt til eins og allir þekkja, karlar og konur. Það er ekki síst að tæki til að vinna verkin með hafa breyst og eru orðin til svo að segja á hverju einasta heimili, en þrátt fyrir það þarf alltaf að vinna störfin heima. Ég hygg að þetta viti allar konur sem hafa stundað vinnu úti að verkin vinna sig ekki sjálf. Þau bíða þeirra þegar heim kemur.
    Að húsráðendur eigi að skipta verkunum heima á

milli sín er auðvitað sanngirniskrafa. Mér sýnist eiginlega þar sem ég þekki til öllu meira um það að hjónin skipti verkunum heima fyrir á milli sín en að börnin, þó uppkomin séu, gangi í verkin heima. Satt best að segja verð ég nú að segja það að ég dáist að mörgum eldri karlmönnum sem aldrei hafa vanist heimilisstörfum, hvað þeir hafa tekið við sér og farið að taka verkin heima líka. Þar held ég að komi fyrst af öllu til að þeir eru sjálfir þreyttir og vita hvað það er og vilja þá koma til móts við húsfreyjuna og létta henni störfin líka eða taka á sig sinn hluta af erfiðinu. Hins vegar finnst mér framförin ekki ýkja mikil hvað unga fólkið snertir. Ég veit ekki hvort þessu verður breytt, en hitt veit ég að ekkert er líklegra til að breyta því en það að virkilega sé farið að meta þessa vinnu eins og hún á skilið.
    Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri en legg til að þáltill. verði vísað til síðari umr. og félmn.