Mat á heimilisstörfum
Mánudaginn 13. mars 1989

     Málmfríður Sigurðardóttir:
    Virðulegi forseti. Þessi till. sem liggur hér frammi er um merkilegt mál, mál sem að vísu hefur stundum borið á góma hér í þingsölum en ekki verið tekið á sem skyldi. Könnun á verðmætagildi heimilisstarfa hefur ekki farið fram hér og jafnvel verið látið liggja að því að slíkt væri illframkvæmanlegt. Ýmsir hafa þó haldið því fram að þó að þessi hluti hagkerfisins sé ósýnilegur og komi hvergi fram í opinberum upplýsingum um efnahagsmál, svo sem Hagtölum mánaðarins, sé ekki þar með sagt að ekki sé hægt að koma við mælingum.
    Nú hafa Danir t.d. fært sönnur á þessa fullyrðingu og dönsku neytendasamtökin hafa gefið út bækling sem heitir á íslensku ,,Heimilisstörf, hvers virði eru þau?`` Með leyfi hæstv. forseta langar mig að lesa nokkrar niðurstöður úr þessum bæklingi þar sem ég tel að þær hljóti að eiga hliðstæður hér og að við getum litið á þær sem marktækar fyrir okkur. Þar segir m.a. að ef vinnuframlag barnafjölskyldna á heimilum í Danmörku sé metið til launa nemi það að meðaltali um 1,1 millj. ísl. kr., 162 þús. dönskum kr., á fjölskyldu á ári. Þar af færist *y2/3*y hlutar á launareikning kvenna. Í bæklingnum er sýnt fram á að með tiltölulega einföldun aðferðum geti dönsk heimili reiknað út hvers virði vinnuframlag þeirra til samfélagsins sé. Allar tölur í bæklingnum byggja á könnun sem var gerð 1987.
    Í Danmörku eru um 2,5 milljónir heimila og eins og gerist og gengur er þar sinnt venjulegum heimilisstörfum, svo sem skipulagningu og innkaupum, matseld og uppvaski og öðru slíku og barnauppeldi og umönnun þar sem börn eru. Og af þessum 2,5 milljónum heimila er um 1 milljón heimili einstaklinga.
    Samkvæmt fyrrnefndri könnun nota einstæðar konur talsvert meiri tíma í heimilisstörf en einstæðir karlar. Samanlagt vinna þessir einstaklingar um 767 milljónir vinnustunda við heimilisstörf, en það samsvarar vinnustundafjölda í öllum iðnaði Danmerkur.
    Svo er hér kafli sem tekur til þess hvað mikill tími fer í umönnunarstörf við börn. Hann er nokkuð langur og ég tek hann ekki en kem hér aftur að því að um 1901 milljón stunda fara í umönnun danskra barna inni á heimilunum á ári hverju. Þetta samsvarar því að tæplega 1 milljón manna hafi fulla atvinnu af þessum störfum. Og ef báðir foreldrar eru í fullu starfi á vinnumarkaði má því segja að vinnuframlag þeirra til samfélagsins samsvari þremur fullum stöðugildum hjónanna. Þessu þurfa þau að skila áður en hvíld og hinn eiginlegi frítími tekur við. Og í heildina tekið nemur vinnustundafjöldi við heimilisstörf í Danmörku 1320 milljónum tíma hjá þeim 658 þúsund fjölskyldum með börn sem búa í Danmörku. Og þar leggja konur af mörkum *y2/3*y hluta tímafjöldans.
    En það er eitt að reikna út fjölda vinnustunda eða ársverka við heimilisstörf og svo að meta verðmæti þeirra. Samkvæmt reikningsaðferð bæklingsins sem er fundin þannig að gengið er út frá launum heimilishjálpar, verkamanns og barnfóstru og tímakaup

þeirra margfaldað með þeim tímafjölda sem fer í einstök heimilisstörf. Þá sýnir sig að innkaup og aðrir snúningar í þágu fjölskyldunnar samsvara að verðmæti 44 milljörðum danskra kr., eða 295 millj. ísl. kr., en það jafnast á við samanlögð störf við samgöngur og póst- og símaþjónustuna í Danmörku. Verðmæti almennra heimilisstarfa jafnast á við verðmæti allra starfa í iðnaði, við hótel- og veitingarekstur og einkareknar velferðarstofnanir í Danmörku. Verðmæti þeirra starfa sem í bæklingnum flokkast sem önnur hagnýt heimilisstörf svara til starfa við veitur, byggingar, mannvirkjagerð, bílaviðgerðir og fataframleiðslu í Danmörku. Og beina umönnun barna má meta að verðmæti til 20 milljarða danskra kr., en það svarar til allra starfa við þjóðkirkjuna og þeirra starfa í heilbrigðiskerfinu að frátöldum sjúkrahúsunum sem krefjast fagmenntunar. Samanlagt eru þetta 320 milljarðar danskra kr., en það nemur 43% af vergri þjóðarframleiðslu Dana og 50% af þjóðartekjum. Það er ekki svo lítil verðmætasköpun sem fer fram á heimilunum þó hún sé hvergi metin að verðleikum og ósýnileg í hagkerfinu í þokkabót. Þetta var nú um Dani.
    Ég tel það brýna nauðsyn að fólk hér geti haft aðgang að tölum og niðurstöðum um verðmætasköpun á heimilum, svo sem eins og frændur okkar Danir hafa komið í kring. Og nú um stundir, þegar almenningsálitið heimtar að helst allir hlutir séu metnir til peninga, er sannarlega áhugavert að það liggi fyrir svart á hvítu hvers virði þau störf eru sem eru unnin á heimilum þessa lands.
    Á síðari árum hafa umræður aukist um heimavinnandi fólk og athygli hefur verið vakin á kjörum þess og réttindaskorti. Ýmsar tillögur og frumvörp hafa komið fram á Alþingi sem sýna vaxandi skilning og áhuga þingmanna á réttarstöðu húsmæðra og mikilvægi heimilisstarfa sem of mörgum er gjarnt að líta á sem svo sjálfsagðan hlut að unnin séu að það gleymist að þau kosta bæði tíma og fyrirhöfn og hvergi er tekið tillit til hagsmuna þeirra sem störfin vinna. Þingkonur Kvennalistans hafa flutt frumvörp um lífeyrisréttindi handa húsmæðrum og þáltill. um mat á heimilis- og umönnunarstörfum. Sú till. varð til þess að gerð var úttekt á stöðu þeirra mála og gerð tillaga um hvernig
skyldi meta þau. Skýrsla um þetta starf var lögð fram á Alþingi 1986 og niðurstaða hennar sýnir að í kjarasamningum nokkurra bæjar- og sveitarfélaga er tekið tillit til starfsreynslu við húsmóðurstörf og heimilisstörf, en það skilar svo litlum kjarabótum til kvennanna að segja má að það sé fremur viðurkenning á að meta beri þessi störf en að nokkuð raunhæft fáist út úr þeim.
    Mér virðist því auðsætt að forsenda þess að heimavinnandi fólk nái fram réttindum sér til handa, svo sem að starfsreynsla þess sé metin á vinnumarkaði og húsmóðurstörf séu metin til lífeyrisréttinda, sé að fram fari mat á þjóðhagslegu gildi starfanna og mat á þeirri verðmætasköpun sem fram fer á heimilunum. Það kynni nefnilega að verða til þess að

verðmætamatið í þjóðfélaginu yfirleitt breyttist í þá veru að mjúku málin fengju þá virðingu sem þau verðskulda og launin fyrir þau yrðu þá e.t.v. færð til samræmis við það.