Könnun á afbrotaferli fanga
Mánudaginn 13. mars 1989

     Kristín Halldórsdóttir:
    Virðulegi forseti. Hv. 1. flm. þessarar till. hefur sýnt það áður að hann þekkir nokkuð til þeirra mála sem þessi till. varðar og vill vinna að úrbótum og það ber að virða og þakka því sannarlega er úrbóta þörf. Svo mikið vitum við sennilega öll þótt við séum misjafnlega fróð um aðstæður. Því vil ég með örfáum orðum taka undir efni till., sem er bæði þörf og góð og sannarlega tímabær, en grg. er reyndar í rýrara lagi og hefði gjarnan mátt vera fyllri en hv. 1. flm. bætti sannarlega úr með ræðu sinni áðan og gaf okkur þar miklar og góðar upplýsingar um aðstæðurnar í þessum málum.
    Ég minnist þess að við umræðu um fangelsismál á síðasta þingi kom fram að þáv. hæstv. dómsmrh. hygðist láta vinna og leggja fram skýrslu um fangelsismál sem gæti orðið grundvöllur að úrbótum í húsnæðismálum og aðstæðum og öllum aðbúnaði fanga. Þessi skýrsla hefur því miður ekki enn litið dagsins ljós og sé ég ástæðu til að minna á það hér við þessa umræðu og láta í ljós von um að það loforð verði efnt þótt nú hafi að vísu orðið húsbóndaskipti í dómsmrn. En vonandi er núv. hæstv. dómsmrh. sama sinnis og forveri hans svo að við getum vænst einhverra breytinga og bóta.
    Stjórnvöld mega alls ekki gleyma þessum ógæfusömu mönnum sem lenda í lögbrotum af ýmsu tagi og gjalda fyrir það með innilokun og fangelsisvist sem er þeim oft þung raun og ekki síður aðstandendum þeirra. Og hvað eina sem stuðlað getur að því að bæta fremur þessa menn en að gera þá verri kemur ekki aðeins þeim sjálfum og aðstandendum þeirra til góða heldur þjóðfélaginu öllu. Það er góður hugur að baki þessarar till. Efni hennar er þarft og gott og ég styð það heils hugar.