Jöfnun á námskostnaði
Þriðjudaginn 14. mars 1989

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls hreyfði hv. 3. þm. Norðurl. v. athugasemdum sem lúta að skerðingarheimild sem er í 5. gr. frv. Með hliðsjón af þeim umræðum sem þá fóru fram hér í hv. deild tel ég ljóst að nokkur samstaða er um það hér með hvaða hætti væri eðlilegt að beita þessari heimild og mun ég með hliðsjón af umræðunni haga setningu reglugerðarinnar þannig að skerðingarheimildinni verði ekki beitt með ósanngjörnum hætti þegar um er að ræða námsfólk sem hleypur í að afla sér tekna í stopulum og stuttum námshléum. Það er hins vegar ekki ljóst með hvaða hætti þetta yrði best orðað. Ég hef aðeins látið líta á það þegar og mér er það ekki alveg ljóst, en tillit verður tekið til þeirrar hugsunar sem var á bak við athugasemd hv. þm. Stefáns Guðmundssonar og þeirra umræðna sem fóru hér fram við 2. umr. þegar reglugerð á grundvelli frv., ef að lögum verður, verður gefin út.