Verðbréfaviðskipti
Þriðjudaginn 14. mars 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Ég lýsi yfir ánægju minni með það að 1. mál þessa þings skuli nú komið á lokastig afgreiðslu í hv. Ed.
    Eins og þeir sem talað hafa á undan mér í þessari umræðu, hv. 8. þm. Reykv. og hv. 7. þm. Reykn., vil ég lýsa sérstakri ánægju minni með þá samstöðu sem tekist hefur um þetta mál á þessu síðasta stigi meðferðar þess hér í þinginu. Meginbrtt. sem hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar gerir, um það að fella niður 30. gr. frv. eins og það lá fyrir deildinni, get ég stutt, enda á efni þeirrar greinar betur heima í öðrum lögum eins og menn hafa hér vikið að í sínu máli, þ.e. seðlabankalögum.
    Varðandi það sem fram kom hjá hv. 7. þm. Reykn. um nauðsyn þess að endurskoða bankalöggjöfina frá grunni vil ég benda á að okkar bankalöggjöf er nýleg, hún er 2--3 ára eftir því hvernig á málið er litið, og varla þörf á grundvallarendurskoðun. Hins vegar er ekki vafi á því að þegar línur skýrast um framkvæmd fjármálareglna Evrópubandalagsins á næstu árum mun gefast ástæða til að huga að því hvernig þessar reglur, sem við höfum nýlega sett okkur, falla að því sem algengast verður í umheiminum. En það frv. sem við ræðum í dag er einmitt sniðið að því sem ég vil kalla bestu evrópskar fyrirmyndir um það hvernig menn ná hæfilegu jafnvægi milli frjálsræðis í þessari starfsemi og þeirrar ábyrgðar og aga sem fylgja þarf hvers konar frelsi eins og hv. 8. þm. Reykv. kom réttilega að í sínu máli.
    Ég ætla ekki að segja mikið fleira um þetta mál. Þó vildi ég að endingu svara spurningu sem fram kom hjá hv. 7. þm. Reykn. Það er meginreglan í frv. sem við erum hér að ræða að sömu lög gildi um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði hver sem að þeirri starfsemi stendur, hvort sem það er sjálfstætt verðbréfafyrirtæki eða fyrirtæki á vegum banka. Það er mjög brýnt að jafnræði gildi um þetta og að aðskilnaður sé sem gleggstur á milli bankarekstrar og þessarar starfsemi til að koma í veg fyrir það sem kallað er á ensku máli ,,insider trading``, innherjaviðskipti, þ.e. viðskipti sem byggjast á því að menn misnoti trúnaðarupplýsingar um hag eða stöðu fyrirtækja sem menn eru svo að versla með verðbréf fyrir. Um þetta eru nýleg dæmi í nágrannalöndum okkar og sú stefna sem fylgt er í þessu frv., sem ég vil kalla aðskilnaðarstefnu milli bankareksturs og verðbréfafyrirtækja, er að mínu áliti sú sem hefur orðið ofan á eða nýtur nú mests fylgis í nágrannalöndum okkar og við okkar aðstæður tel ég tvímælalaust rétt að við fylgjum henni.
    Hvað það varðar hvort þetta komi í veg fyrir að viðskiptabankarnir geti veitt landsbyggðarmönnum þjónustu í verðbréfaviðskiptum, þá tel ég það alls ekki felast í þeim tillögum sem hér eru gerðar samanlagt í því frv. sem við ræðum nú og svo frv. um viðskiptabanka og sparisjóði sem er fylgifrv. þessa frv. og kemur á dagskrá á eftir. Ég tel að með því að bankarnir stofni hver hjá sér verðbréfafyrirtæki eigi þeir að vera í færum, eins og einn bankastjóri eins

ríkisbankans mundi líklega orða það, að veita sínum viðskiptavinum hvar á landinu sem þeir búa þá þjónustu sem þarf til þess að þeir geti tekið þátt í verðbréfaviðskiptum eins og aðrir landsmenn.
    Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar, hæstv. forseti. Ég er sannfærður um það að sú löggjöf sem hér er á ferðinni muni auka traust almennings á verðbréfafyrirtækjum og verðbréfasjóðum og þannig verða bæði almenningi og þessari starfsemi til góðs. Við þurfum að þróa okkar fjármagnsmarkað þannig að hann fullnægi í senn þörfum almennings og atvinnulífsins. Þetta fyrsta mál þingsins er einmitt skref í þá átt.