Virðisaukaskattur
Þriðjudaginn 14. mars 1989

     Flm. (Júlíus Sólnes):
    Virðulegi forseti. Um fátt hafa orðið eins miklar deilur og þegar stjórnvöld í tíð ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar sumarið og haustið 1987 ákváðu að leggja söluskatt á matvæli. Þá hafði um langan tíma ríkt það ástand hér að matvæli voru án söluskatts. Með kjörorðinu ,,að söluskattskerfið skyldi gert einfaldara, réttlátara og skilvirkara``, en þessi þrjú atriði dundu í eyru alþingismanna allt haustið 1987, skyldi nú smám saman lagður fullur söluskattur á matvæli sem og annað og var það rökstutt með ýmsum leiðum, m.a. með því, sem ég nefndi áðan, að þar með yrði söluskattskerfið skilvirkara, undanþágum fækkað og söluskattur mundi því innheimtast betur.
    Ég held að fáar eða engar ráðstafanir íslenskra stjórnvalda hafi mætt eins mikilli andstöðu meðal almennings og það að leggja söluskatt á matvæli því að það er alveg ljóst og ég held að allir sem hafa skoðað þau mál geti verið sammála um það að matvæli eru sennilega dýrari á Íslandi en í nokkru öðru landi í heiminum. Ég hef orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að ferðast víða um lönd og komið í flestalla heimshluta. Ég hef hvergi nokkurs staðar orðið var við annað eins matvælaverð og Íslendingar mega búa við. Það er aldeilis með ólíkindum að bjóða láglaunafólki upp á það ástand, sem hér ríkir, að þurfa að nota kannski allt að 35--40% tekna sinna til að kaupa í matinn. Það er gersamlega óþolandi. Það er aldeilis með ólíkindum að nokkur skyldi hafa látið sér koma til hugar að það væri hægt að leggja söluskatt á matvæli í landi eins og Íslandi þar sem matvælaframleiðslan hlýtur alltaf að vera með þeim hætti að verð matvæla verður mjög hátt.
    Ísland er ekki landbúnaðarland í þeim skilningi sem við verðum að leggja í það hugtak þegar við berum okkur saman við hin frjósömu landsvæði Evrópulandanna, vesturheims og þegar víðar er leitað. Við erum á norðurhjara veraldar, á mörkum hins byggilega heims, og landbúnaður á að sjálfsögðu undir högg að sækja vegna veðurfars og annarra ytri skilyrða sem eru mjög óhagstæð. Það gerir að verkum að framleiðslukostnaður á hefðbundnum matvælum innan lands hlýtur alltaf að verða mjög hár. Við því er ekkert að gera. Þetta er staðreynd sem við verðum að sætta okkur við hvort sem okkur líkar betur eða verr. Hún er einfaldlega hluti af því að við búum í þessu landi. Út af fyrir sig erum við öll sátt við þetta ástand, en það að gera síðan matvæli að skattþúfu fyrir ríkisvaldið, þegar það er alkunna að hér er matvælaverð hærra en nokkurs staðar annars staðar, er aldeilis óþolandi.
    Áhrif þessarar skattlagningar hafa heldur ekki látið á sér standa. Þessi skattlagning er nú á góðum vegi með að eyðileggja gersamlega það brautryðjendastarf sem hér hefur verið unnið undanfarin ár á því sviði að koma upp öflugri ferðamannaþjónustu og laða hingað til lands erlenda ferðamenn. Þegar erlendir ferðamenn sem gista landið koma inn á veitingahúsin og sjá það matarverð sem þar er á matseðlinum liggur við að þeir flýi hljóðandi upp í næstu flugvél til að

koma sér burtu héðan, enda hefur veitingahúsarekstri hrakað mjög hér síðustu missirin, og ég tala ekki um eftir að matarskatturinn svokallaði var lagður á. Má segja að nú sé hart í ári í sambandi við rekstur veitingahúsa og hætt er við að sá vaxtarbroddur sem ferðamannaþjónustan hefur verið síðustu árin muni fölna skjótt.
    Við höfum mjög beitt okkur fyrir því, þingmenn Borgfl., að hér verði gerð breyting á, þ.e. að aftur verði horfið til fyrra ástands, að reynt verði að fella niður allan söluskatt af matvælum. Á sínum tíma var það rökstutt að það væri nauðsynlegt að breikka söluskattsstofninn og þess vegna m.a. leggja söluskatt á matvæli. Það væri með hliðsjón af komandi virðisaukaskattskerfi, að þar væri ekki unnt að hafa neinar undanþágur. Öðruvísi mundi það kerfi ekki virka. Síðan var okkur talin trú um að það væri ekki annað fært en hafa eina skattprósentu í virðisaukaskattskerfinu og þar af leiðandi yrði ekki hjá því komist að skattleggja matvæli þegar fram liðu stundir með fullum virðisaukaskatti sem samkvæmt núgildandi lögum um virðisaukaskatt er 22%.
    Þegar þessi mál eru skoðuð betur kemur í ljós að það er aðeins eitt land meðal landa Evrópubandalagsins sem notar aðeins eina skattprósentu í virðisaukaskatti, þ.e. Danmörk. Einhverra hluta vegna virðast fulltrúar stjórnvalda, sem undirbjuggu virðisaukaskattsfrv. á sínum tíma, hafa séð ástæðu til þess að kynna sér skattlagningu í Danmörku einni saman. Það er eins og þeim hafi alls ekki dottið í hug að kynna sér með hvaða hætti skattlagningu á neysluvörur og þjónustu og aðrar vörur er háttað t.d. í hinum Evrópulöndunum. Til að glöggva sig betur á þessu lét ég taka saman töflu, sem er birt í greinargerð með frv., þar sem er yfirlit yfir skattþrep í virðisaukaskatti í öllum löndum Evrópubandalagsins nema í Grikklandi, en Grikkir hafa ekki enn þá séð ástæðu til að taka upp virðisaukaskatt, a.m.k. virðast þeir hafa fengið undanþágu á meðan á aðlögunartíma þeirra stendur, en hann er ekki liðinn. Geri ég þó ráð fyrir því að þeir muni taka upp virðisaukaskatt sem og hin Evrópubandalagslöndin. En það er mjög fróðlegt að sjá með hvaða hætti löndin leggja virðisaukaskatt á.
    Ég vil byrja á því að geta þess að prentvillupúkinn hefur reynst okkur
erfiður í sambandi við undirbúning þessa frv. Upphaflega kom Danmörk inn með 0% virðisaukaskatt í aðalþrepi sem er aldeilis fráleitt því að eins og ég sagði hér í upphafi virðist virðisaukaskattskerfi okkar fyrst og fremst sniðið eftir því sem gerist í Danmörku, en þar er virðisaukaskattsprósentan 22% eins og reyndar hér hefur verið ákveðið. Í endurprentun á frv. kom inn önnur prentvilla þar sem undir aðalþrep eru settar tölurnar 0% og 22% fyrir Danmörku. Núllið á að fara í burtu. Það á aðeins að standa þar 22%.
    Það vekur nokkra athygli að flest landanna eru með mjög lága prósentu þegar um er að ræða skattlagningu á helstu lífsnauðsynjum. Þannig hafa Bretar algerlega hafnað því að skattleggja matvæli. Þar

er skattprósentan núll og reyndar eru fleiri nauðsynjavörur, eins og t.d. barnafatnaður, ekki með virðisaukaskatti í Bretlandi. Írar leggja heldur engan skatt á matvæli. Þar er virðisaukaskattsprósentan núll. Sum landanna eru með mjög lága prósentu á matvælum, eins og t.d. Ítalía með 2% og Lúxemborg með 3%. Belgía er með 6%. Síðan er skattlagningarprósentan á bilinu 6--7 og upp í 8% mest hjá Portúgölum. Þó er það athyglisvert að verð á matvælum er sennilega hvergi lægra en í Portúgal, en það er einfaldlega vegna þess að frumkostnaður matvæla er sennilega hvergi lægri en einmitt í Portúgal.
    Það er hins vegar annað sem vekur athygli. Í mörgum landanna er lagður á svokallaður lúxusskattur, þ.e. sum löndin eru með þriðja og hæsta skattþrep í virðisaukaskatti, eins og t.d. Belgía sem leggur á bæði 25% og 33% í virðisaukaskatti, Spánn og Frakkland leggja einnig á með lúxusþrepi, 33 og 33,3%, og Ítalía er með hvorki meira né minna en 38% lúxusskatt á ýmsar lúxusvörur. Þegar við sem eigum sæti í Evrópustefnunefnd Alþingis vorum á ferð í Brussel á dögunum höfðum við tækifæri til þess að ræða þetta mál mjög ítarlega við sérfræðinga Evrópubandalagsins sem komu til fundar við okkur. Við spurðum þá spjörunum úr um þetta atriði sérstaklega, bæði hvernig væri háttað þessari skattlagningu og hver væri stefna Evrópubandalagsins í þessum málum, hver yrði framtíðin hvað varðaði skattlagningu á t.d. matvæli hjá Evrópubandalagsþjóðunum. Okkur var tjáð að það hefur náðst samkomulag sem þó á enn þá langt í land þar sem sérstaklega Bretar og jafnvel Írar að einhverju leyti streitast við að taka upp skattlagningu á matvæli. En svo virðist þó að það náist samkomulag um að helstu nauðsynjavörur almennings verði skattlagðar með skattþrepi á bilinu 4--9%, en það mun þá látið gilda um matvæli, orku til upphitunar og ljósa, vatn, lyf, bækur, blöð og tímarit svo og fargjöld vegna fólksflutninga. Þetta nær yfir mikilvægustu nauðsynjar heimilanna. Hærra skattþrepið verður á bilinu 14--20% og nær yfir allar aðrar virðisaukaskattsskyldar vörur og þjónustu. --- Virðulegur forseti. Ég mundi nú óska eftir því að hæstv. fjmrh. gæti verið viðstaddur þessa umræðu eða a.m.k. svarað hérna spurningum ef hann er í húsinu. ( Forseti: Ég mun gera ráðstafanir til þess að hann verði sóttur.)
    Nú var mjög umdeilt á sínum tíma að hve miklu leyti væri nauðsynlegt fyrir Íslendinga yfirleitt að taka upp virðisaukaskattskerfi. Helstu rökin fyrir því voru að sjálfsögðu þau að það mundi auðvelda iðnaðinum í landinu samkeppni við nágrannalöndin. Þar með væri áhrifum uppsafnaðs söluskatts eytt. En ég vil þó benda á að sumar þjóðir Evrópu hafa ekki séð ástæðu til að taka upp virðisaukaskatt. Eins og kemur fram í greinargerðinni má benda á m.a. að Svisslendingar hafa þrisvar sinnum hafnað því með þjóðaratkvæðagreiðslu að taka upp virðisaukaskatt. Nú er ljóst að við höfum samþykkt lög á Alþingi um virðisaukaskatt og þó að ég hafi verið eindreginn

andstæðingur þess að virðisaukaskattur skyldi tekinn upp á Íslandi sé ég ekki ástæðu til þess úr því sem komið er að berjast frekar gegn því heldur reyna að lagfæra þau lög sem sett hafa verið og a.m.k. koma í veg fyrir það slys ef af verður að matvæli verði með 22% virðisaukaskatti.
    Mig langar til að beina þeirri spurningu til hæstv. fjmrh. úr því að hann er nú kominn í salinn: Hver er stefna ríkisstjórnarinnar í þessum málum? Hyggst ríkisstjórnin breyta núgildandi virðisaukaskattslögum þannig að matvæli og aðrar nauðsynjavörur verði með lægra skattþrepi í virðisaukaskatti eða er það áfram stefna stjórnvalda að hér verði fullur 22% virðisaukaskattur á öllum vörum og þjónustu hvort sem um er að ræða lífsnauðsynjar heimilanna eða óþarfar lúxusvörur ef hægt er að taka svo til orða?
    Þá vil ég víkja örlítið að 1. gr. frv., en hún hljóðar svo, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,14. gr. laganna orðist svo:
    Virðisaukaskattur skal lagður á með tveim mismunandi skattþrepum og skulu þau ákveðin í fjárlögum ár hvert. Hið lægra virðisaukaskattsþrep, sem ekki má vera hærra en 12%, skal gilda við álagningu á matvæli og aðrar helstu nauðsynjavörur heimilanna samkvæmt nánari skilgreiningu í reglugerð. Allar aðrar vörur og þjónusta svo og annað sem er virðisaukaskattsskylt samkvæmt lögum þessum skal bera skatt samkvæmt hærra þrepi sem eigi má vera hærra en 24%. Virðisaukaskattur rennur í ríkissjóð.``
    Hér eru tekin af öll tvímæli þar sem lagt er til að skattþrepin skuli vera
tvö, en við höfum séð ástæðu til þess að gera þá breytingu að setja hámark á bæði skattþrepin en binda ekki fasta álagningarprósentu í lögunum. Það er nefnilega von okkar að það þurfi ekki að leggja 12% virðisaukaskatt þegar fram líða stundir á lífsnauðsynjar, svo sem matvörur og annað sem heimilin nota fyrst og fremst, heldur geti sú skattprósenta verið lægri. Er þá eðlilegt og sjálfsagt að skattprósentan fylgi fjárlagagerðinni ár hvert þannig að hún verði ákveðin í fjárlögum, en ég held að það sé mjög nauðsynlegt að setja hámark þannig að stjórnvöld leiðist ekki inn á þá braut sem oft vill verða að eins og var í söluskattskerfinu gamla sé alltaf verið að hækka þessa prósentu. Með þessu ætti að vera hægt að ná samkomulagi um að prósentan verði aldrei hærri en 12% í lægra þrepinu og 24% í hærra þrepinu, en það fylgi fjárlagagerðinni hverju sinni að ákveða prósentuna fyrir næsta fjárlagaár innan þessara takmarkana.
    Ég mundi nú beina því til hæstv. fjmrh. að heyra álit hans á þessari hugmynd, hvort það fær staðist að það sé hægt að setja svona hámark í lögum um virðisaukaskatt en reyna síðan að haga fjárlagagerðinni þannig að það megi leggja á lægri prósentu en lögin heimila. Það ætti að vera markmið okkar að halda skattheimtu ríkisins í skefjum eins og framast er unnt. Það getur ekki verið stefna að keyra alla skattstofna ríkisins strax í botn og síðan þarf ár eftir ár að finna upp einhverja nýja skatta til að seðja ríkishítina sem

er því miður óseðjandi.
    Af því að hæstv. fjmrh. var einn þeirra sem mjög börðust gegn matarskattinum svokallaða á sínum tíma reikna ég með því að fá hann sem stuðningsmann í lið með okkur þingmönnum Borgfl. þar sem við erum hér að reyna að fá samþykki þingdeildarinnar fyrir því að leggja lægri skatt á matvæli og helstu nauðsynjar. Ég vænti þess svo sannarlega að hæstv. fjmrh. veiti okkur lið sitt í þessu efni.
    Ég skal ekki hafa þessa framsögu lengri. Við höfum talað mjög mikið um þetta mál á hinu háa Alþingi áður og þarf ég ekki að skýra þetta frv. frekar út. Það er augljóst hvað við erum að reyna að gera. En ég vil að lokinni þessari umræðu leggja til að frv. verði vísað til hv. fjh.- og viðskn. og 2. umr.