Virðisaukaskattur
Þriðjudaginn 14. mars 1989

     Flm. (Júlíus Sólnes):
    Virðulegur forseti. Ég vil fyrir mitt leyti þakka þær undirtektir sem frv. hefur fengið í hv. þingdeild. Ég held að þetta sé eitt af mikilvægari málum sem við eigum eftir að fjalla um á næstunni, með hvaða hætti við leitum leiða til að lækka verð á matvælum. Það er aðalmálið, kannski ekki svo mjög hvernig við gerum það heldur að það verði gert.
    Það er eitt þó sem mig langar aðeins til að nefna af því að hæstv. fjmrh. kom inn á það áðan í máli sínu, að með tveimur þrepum í virðisaukaskatti mun kerfið verða miklu flóknara og dýrara í rekstri, það þyrfti að fjölga mjög starfsmönnum til að reka kerfið með tveimur þrepum. Mig langar þá í því sambandi að minna eilítið á tillögur sem ég hafði uppi þegar við vorum að ræða virðisaukaskattslögin í fyrra á hinu háa Alþingi. Ég hef oft bent á: Er nokkur þörf fyrir að taka upp virðisaukaskatt á Íslandi? Virðisaukaskattur er skattform sem Evrópubandalagslöndin hafa þróað og ákveðið að nota sem allsherjarskattlagningu á neysluvörur í löndum Evrópubandalagsins. Það má segja að frumkvæðið að þessari skattlagningu er sú hugsun að þetta eru lönd sem eru með landamæri þar sem flutningar fara fram og aftur á ótal stöðum, þ.e. vörurnar stoppa ekkert á þessum landamærum og að sjálfsögðu leiðir hinn frjálsi markaður af sér að þær mega ekki stoppa á landamærunum. Þess vegna er virðisaukaskattskerfið heppilegt fyrir það efnahagskerfi sem þessi lönd hafa þróað með sér.
    Hver segir að þetta skattform eigi eitthvert erindi til Íslands? Við erum allt annað fyrirbæri. Við búum á eyju norður í Atlantshafi, erum gersamlega einangraðir. Vörur sem flytjast eiga til landsins koma inn um tiltölulega fáar uppskipunarhafnir þar sem þær stöðvast. Ef þessi mál eru skoðuð grannt virðist öll heilbrigð skynsemi benda til þess að við eigum að taka alla okkar skatta við landamærin þó svo það sé ekki rétt skattform fyrir lönd Evrópu, þ.e. lönd Evrópubandalagsins þar sem vörur mega ekki stoppa á landamærunum. En eins og málum er háttað hjá okkur stoppa allar vörur á landamærunum. Þar er langeðlilegast og þægilegast að skattleggja þær. Þess vegna gætum við í sjálfu sér flutt allan söluskatt í toll og látið tollþjónustuna um að leggja söluskattinn á. Þá þyrfti enga starfsmenn. Það þyrfti ekkert söluskattskerfi sem við erum núnaað sligast með. Við gætum gert annað. Við gætum athugað hvort ekki er nægjanlegt að leggja söluskatt á allan innflutning en afnema allan söluskatt af þjónustu. Ég held að það væri nær að skoða betur slíkar hugmyndir í stað þess að vera að leggja 22% virðisaukaskatt á matvæli og gera matvöru þannig ókaupandi fyrir allan þorra almennings.
    Það er reyndar mjög athyglisvert þegar matarinnkaup heimilanna ber á góma að þá hefur ekki hvað minnst hæstv. forsrh. hvað eftir annað vakið máls á því að hans ágæta eiginkona hafi oft tjáð sér að hún hafi ekki efni á því að kaupa lambalæri í sunnudagsmatinn því það sé allt of dýrt. Ég get

hjartanlega tekið undir það því þetta segir eiginkona mín mér líka, að hún hafi ekki efni á því að kaupa hvorki lambalæri né hrygg í sunnudagsmatinn. Þannig er nú orðið háttað að meginþorri þjóðarinnar hefur ekki efni á því að kaupa sér lambakjöt í matinn. Skyldi þá einhver furða sig á því þó að lambakjöt hrúgist hér upp því það hefur enginn efni á því að borða það. Það væri nær að taka á þessum málum og reyna að forða okkur frá þeirri pólitísku villu að vera hér með háan söluskatt á matvælum. Það skulu verða mín síðustu orð í þessari umræðu.