Virðisaukaskattur
Þriðjudaginn 14. mars 1989

     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Tilefnið að ég kem hér í lok þessarar umræðu er fyrst og fremst orð hæstv. fjmrh. þegar hann fór út í söguskoðunina. Það er nefnilega afar fróðlegt að skoða skilyrði Alþb. fyrir inngöngu í þessa ríkisstjórn. Mér fannst það kannski ekki koma alveg nægjanlega fram hjá honum hver þau voru svo að ég freistast til að rifja það upp.
    Það var sem sagt nr. eitt, tvö og þrjú að bráðabirgðalögin sem banna frjálsa samninga verkalýðshreyfingarinnar yrðu afnumin, að kaupskerðing yrði afnumin og samráð haft við samtök launafólks um skipan kjaramála og að matarskatturinn yrði tekinn til endurskoðunar. Þetta voru meginforsendurnar og er fróðlegt að skoða þær í ljósi sögunnar eins og hæstv. ráðherra gerði áðan. Eitt skilyrði var líka að Borgfl. mætti ekki vera með. Það er líka fróðlegt að rifja upp að hann mátti ekki vera með í viðræðum um væntanlega stjórnarmyndun. Þetta er í leiðara Þjóðviljans síðan 20. sept. í haust. ( KP: Það er ekki allt rétt þar.) Skjalfest.
    En önnur ástæða fyrir því að mér fannst ég eiga erindi hingað er sú að hæstv. ráðherra virtist ekki vera alveg viss um hver væri afstaða Sjálfstfl. til matarskattsins svokallaða. ( Fjmrh.: Nei, það voru ekki mín orð. Hvort Sjálfstfl. vildi virðisaukaskattinn með einu eða tveimur þrepum.) Já, það var það sem ég ætlaði að segja. Þá ætlaði ég að rifja upp fyrir honum það sem hér er til umræðu og kannski ekki ástæða fyrir okkur sjálfstæðismenn að hafa mörg orð um, því að afstaða okkar er vel kunn vegna þess að það er einmitt innihald þessa frv. sem varð örlagavaldur fyrrv. ríkisstjórnar, ef svo mætti að orði komast, og ástæðan fyrir því að ný ríkisstjórn var mynduð. Það gerðist þegar Sjálfstfl. lagði til að söluskattur á matvælum yrði lækkaður úr 25 í 10%. Það er ósköp einfalt mál. ( Fjmrh.: Má ég grípa fram í fyrir ræðumanni?) Það er forseti sem gefur leyfi til þess. ( Fjmrh. : Er það ljóst að Sjálfstfl. sé fylgjandi tveimur þrepum í virðisaukaskatti?) Það var ljóst þegar um matarskattinn var að ræða. Þetta var samkomulagsatriði í fyrrv. ríkisstjórn eins og það var sett fram á sínum tíma. Það var samkomulag innan stjórnarflokkanna hvernig það var gert. Það voru ýmsir þingmenn Sjálfstfl. á öðru máli. Hæstv. ráðherra hefur reyndar komið inn á á þessum fundi að þingmenn verða stundum að sætta sig við að ganga til móts við sjónarmið annarra þegar fleiri en einn flokkur á aðild að ríkisstjórn. Á það lagði Sjálfstfl. ríka áherslu fyrir kosningar hve erfitt það væri að hafa fleiri en tvo flokka í ríkisstjórn þegar um það væri að ræða að ná saman um meginstefnumörkun. Mér sýnist að þessi ríkisstjórn hafi margsannað að slíkt er meira en erfitt, það er ómögulegt í raun og veru því að þessi ríkisstjórn er byggð á sandi og hennar grunnur verður aldrei annað og það er spurning hvenær sú undirstaða hrynur, sú sandhrúga.