Virðisaukaskattur
Þriðjudaginn 14. mars 1989

     Guðrún Agnarsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég fagna því að hæstv. fjmrh. skuli kominn aftur til þings eftir fjarveru sína og býð hann velkominn, en hann hefur dvalist erlendis og virðist óþreyttur og eiga ýmislegt vantalað við þingið og ber að fagna þeirri kennslustund sem við fengum í málamiðlun og lýðræðislegum kröfum.
    En ástæðan fyrir frammíkalli mínu var fyrst og fremst sú að minna hann á það sem þegar hefur komið fram í máli hv. 6. þm. Reykn. Það var hluti af og reyndar meginefni yfirlýsingarinnar frá Hallormsstað. Ég man mjög vel eftir því vegna þess að ég vitnaði í hana í umræðu hér á þingi í haust þegar núv. ríkisstjórn hafði nýtekið við. Við ræddum þá efnahagsráðstafanir. Það var einmitt afnám launafrystingarinnar og samningsrétturinn, að hann yrði gefinn frjáls, sem voru hjartans mál Alþb. á þeim tíma. Ég held að flestir sem taka þátt í stjórnmálum geri sér grein fyrir því að málamiðlanir eru óhjákvæmilegar. Hins vegar hljóta einhvers staðar að vera mörk hjá öllum einstaklingum og öllum pólitískum samtökum um það hversu langt þau ganga í málamiðlunum, hversu mörg af sínum hjartans málum þau selja fram í von um að ná ákveðnum árangri. Þetta er ævinlega matsatriði. Það þarf ekki að jafna því við ábyrgðarleysi ef einhverjum samtökum eða einstaklingum eru hugsjónir svo dýrmætar að þær verði ekki framseldar gegn nokkrum öðrum verðmætum né heldur þeim sem óvís eru, því síður.
    Það mál sem hér hefur verið til umræðu, matarskatturinn, er auðvitað málefni sem snertir hvert einasta heimili í landinu núna, þ.e. hversu há verðlagning er á matvælum hérlendis. Ekki bara að hún sé svo miklu hærri en víða í nágrannalöndum okkar heldur er hún of há fyrir pyngju þeirra sem hér búa. Launin sem greidd eru eru of lág miðað við þetta háa matvælaverð og það er það sem skiptir meginmáli fyrir kjör fólks og þarf að hafa í huga nú þegar kjarasamningar fara í hönd, ekki síst þegar fólki er tilkynnt að kaupmáttur verði látinn haldast hinn sami út árið og hann hefur verið á fyrsta ársfjórðungi. Það gengur ekki upp hjá afar mörgum fjölskyldum og þeir sem kaupa í matinn fyrir heimili sín, og ég veit ekki hve margir af þeim sem hér sitja inni gera það, finna fyrir því. Það finna allir fyrir því hversu háu verði matvæli eru keypt hérlendis. Þess vegna er það meginmál að lækka eða afnema þennan matarskatt því að hann er mikilvægur hluti af þessari háu verðlagningu.
    Röksemd eins og sú sem hæstv. fjmrh. bar fram áðan var ein af meginröksemdum þeirra sem voru á móti virðisaukaskattinum á sínum tíma. Hann kostaði aukningu á starfsliði hjá hinu opinbera. En kröfurnar um að draga úr þessari álagningu eða afnema hana, kröfurnar um að draga úr henni eins og farið er fram á í því þingmáli sem hér er verið að ræða, réttlæta þessa aukningu á starfsliði því að ávinningurinn, og hæstv. ráðherra var auðvitað að tala um málamiðlanir, er meiri fyrir allan þorra fólks. Lýðræðislegu kröfurnar eru sterkari um að afnema álagninguna en

að halda í við starfsmannafjölgun hjá skattinum.