Virðisaukaskattur
Þriðjudaginn 14. mars 1989

     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Það var ekki ætlun mín að lengja þessa umræðu, en aðeins nokkur orð vegna ummæla hv. 3. þm. Vestf. sem flutti hér mjög fróðlega ræðu.
    Ég held að við kennum hvort öðru alltaf svolítið, sérstaklega þegar við tölum af einlægni, og reynsluleysi er ekki versta veganestið. Reynsluleysi og góður vilji eru ekki endilega versta veganestið. Það er margt veganesti verra. Hins vegar skiptir öllu máli að geta sett sig í spor annarra og reynt að skilja þann vanda sem aðrir glíma við en maður þekkir ekki sjálfur af eigin reynslu og ég efa ekki að það hefur verið mjög erfitt í gegnum þessa umrótstíma að standa í forustu í verkalýðshreyfingunni eða í verkalýðsfélögum. En það eru ekki bara tvær hliðar á þessu máli, hv. 3. þm. Vestf., það eru nefnilega miklu fleiri og ríkisstjórnum og stjórnmálamönnum gefast mörg stjórntæki önnur en að frysta laun og afnema samningsrétt til að ná tökum á efnahagsvanda. Það að verð átti að hækka í haust er eitthvað sem líka er hægt að stýra og ég hygg að hv. þm. muni vel hverjar afleiðingar urðu af þeirri efnahagslegu stjórn sem fólst í því að frysta laun sérstaklega á haustinu 1983, það alvarlega misgengi launa og lánskjara sem menn urðu valdir að af skyssu sinni, örugglega ekki af vilja sínum eða yfirveguðu ráði. Ég hygg að þeir hafi ekki gert það. ( KP: Það var ekki frysting launa. Það var bein lækkun.) Það var bein lækkun launa og það var mjög afdrifaríkt. (Gripið fram í.) Já, en það er sömu ættar og það er jafnafdrifaríkt og það er jafnslæmt. Nú langar mig, vegna þess að hv. þm. hefur meiri reynslu en ég í þessum efnum, að spyrja hann: Hvers vegna hefur það ekki gengið að þegar launahækkanir verða, því hann var einmitt að víkja að því að þeir sem hærra væru launaðir hefðu getað sótt sinn skerf á undan hinum og skilið þá eftir eins og ævinlega, hvers vegna hefur það ekki gengið í samningunum að hækkanirnar séu veittar í krónutölu? Og hvers vegna hefur það ekki gengið að þær nái e.t.v. einungis ákveðna leið upp eftir hinum fræga launastiga, þessum langa, langa, langa stiga sem nær langt aftur í aldir, alla leið til Mesópótamíu? Hvers vegna hefur það ekki gengið? Þessu getur hv. þm. svarað betur en ég. Ég skil það ekki. En reynsla hv. þm. og ýmissa annarra í þessari hv. deild er meiri en mín. Hvers vegna hræðast menn svona launajöfnuð?