Virðisaukaskattur
Þriðjudaginn 14. mars 1989

     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Það er svolítið sérstakt í hv. deild að hér skuli fyrst hafa verið haldið uppi góðri kennslu í stjórnmálafræði og síðan í sögu, komið með sérstaka söguskoðun, útskýrður sögulega tíminn frá því í september og síðan slegið föstu að ef hlutir hefðu verið öðruvísi en söguskoðun gerir ráð fyrir hefði farið á hinn veg.
    Sú söguskoðun sem hv. 3. þm. Vestf. var með í fyrri ræðu sinni um að allt hefði farið á annan endann í verðlagi ef samningarnir hefðu verið settir í gildi, samningsrétturinn fenginn launþegasamtökum, er röng söguskoðun. Ég held að hlutirnir hafi verið þannig í haust og við höfum heyrt það reyndar í umræðum á hv. Alþingi að ástandið í þjóðfélaginu hafi verið þannig og sé þannig að verðbólguþensla sé tiltölulega lítil. Áhrif gengisfellinganna hafa verið minni en menn hafa búist við vegna þess að það er kreppa, menn eru hræddir við að fylgja eftir ákveðnum vöruhækkunum. Stjórnmálamennirnir sem mynduðu ríkisstjórnina með okkur alþýðubandalagsmönnum, framsóknarmenn og alþýðuflokksmenn, gerðu sér mjög vel grein fyrir því að það var ekki mjög mikil hætta að setja samningana í gildi og fá launþegasamtökunum samningsréttinn, en þeir töldu það erfitt og þung spor að láta Alþb. koma því til leiðar að þau ólánslög sem sett voru á launþegasamtökin sl. vor yrðu numin úr gildi. Þetta er hin rétta söguskoðun. Ég er ekki að segja það fyrst og fremst til alþýðuflokksmanna, en ég hef tilfinningu fyrir því að framsóknarmennirnir hafi ekki viljað láta Alþb. koma út úr stjórnarmynduninni með það að hafa fært launþegasamtökunum samningsréttinn og samningana í gildi. ( KP: Eigum við ekki, hv. þm., að fara lengra aftur í tímann?) Við getum farið vítt og breitt í sögukönnuninni. En ég vil bæta við að líkurnar fyrir því að það yrðu kauphækkanir í haust voru sáralitlar. Alveg eins og hv. þm. benti á áðan var stór hluti samninga bundinn og hann er bundinn enn þá til vors. Sá hópur sem hefði orðið með lausa samninga voru sjómannasamtökin og ég held að maður með jafnmikla reynslu og hv. 3. þm. Vestf. geri sér vel grein fyrir því að það voru litlar líkur fyrir því að sjómannasamtökin hefðu farið að beita sérstökum aðgerðum til að ná upp sérstökum kjörum á þessu tímabili. (Gripið fram í.) Nei, hinir hóparnir eru að mínu mati og minni söguskoðun þannig að þeir höfðu litla möguleika til að sprengja sig upp á þessu tímabili.
    Ég vil aðeins láta þessa söguskoðun koma inn í þessa umræðu.