Áfengislög
Þriðjudaginn 14. mars 1989

     Frsm. allshn. (Jón Kristjánsson):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti allshn. um frv. til laga um breyting á áfengislögum, nr. 82 2. júlí 1969, með síðari breytingum. Þetta frv. er, eins og þeir hv. þm. muna sem hlýddu á 1. umr. þess fyrr á þessu þingi, flutt til að samræma atriði í áfengislöggjöfinni nýjum sveitarstjórnarlögum. Meginefni þess er á þá leið.
    Nefndin hefur fjallað um frv. og fengið skriflegar umsagnir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, áfengisvarnaráði, Stórstúku Íslands, lögreglustjóranum í Reykjavík og Sambandi veitinga- og gistihúsaeigenda. Einnig mættu fulltrúar frá áfengisvarnaráði á fund nefndarinnar.
    Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með einni breytingu sem gerð er tillaga um á sérstöku þskj. Breytingin felur í sér að 9. gr. frv. falli niður. Sú grein fjallar um áfengisvarnir og nefndin er sammála um að réttara sé að ákvæði hennar bíði heildarendurskoðunar þess kafla áfengislaga sem fjallar um áfengisvarnir.
    Þess má geta að í umsögn áfengisvarnaráðs er þess getið að ætlun heilbrrh. sé að setja löggjöf um áfengisvarnir á svipaðan hátt og gert hefur verið um tóbaksvarnir. Það yrði gert með endurskoðun áfengisvarnaákvæða áfengislaga, nr. 82/1969, með síðari breytingum, og endurskoðun laga nr. 39/1964, um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra. Áfengisvarnaráð leggur því til, og fylgdi því áliti sínu eftir á fundi með nefndinni, að þessi ákvæði um áfengisvarnir verði látin bíða heildarendurskoðunar á áfengisvarnakafla áfengislaganna. Nefndin féllst á þessi sjónarmið og hefur af þeim ástæðum lagt til að 9. gr. frv. falli niður. En ég vil ítreka að það er full þörf á því að endurskoða áfengislögin og er brýnt að því verði hraðað.
    Að öðru leyti leggur nefndin til að frv. verði samþykkt óbreytt en Sighvatur Björgvinsson og Kristinn Pétursson voru fjarverandi við lokaafgreiðslu málsins, en undir nál. skrifa Jón Kristjánsson, Kristín Halldórsdóttir, Guðni Ágústsson, Friðjón Þórðarson og Geir Gunnarsson.