Almannatryggingar
Þriðjudaginn 14. mars 1989

     Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir:
    Herra forseti. Ég vil lýsa eindregnu fylgi mínu við frv., fagna því mjög að það er komið fram. Má kannski segja að það sé vonum seinna en ég fagna því alveg sérstaklega.
    Endurhæfing þeirra sem lenda í slysum eða stórfelldum skurðaðgerðum er náttúrlega tiltölulega ný af nálinni hér hjá okkur, sjálfsagt miklu yngri heldur en í löndunum hérna í kringum okkur. Það er alveg áreiðanlegt að hún getur gert kraftaverk. Þarna er líka viss hópur af fólki sem fer mjög illa út úr sínum veikindum eða slysum ef ekki er komið til móts við hann hvað þetta snertir. Fólk þarf að bíða í ár eftir því að fá fullar örorkubætur og fólk er oft mjög illa stætt á meðan þess er beðið. Ég held að við ættum að gefa þessu frv. gaum og fylgja því eftir.
    Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar, en ég lýsi eindregnu fylgi við frv.