Eignarleigustarfsemi
Þriðjudaginn 14. mars 1989

     Árni Gunnarsson:
    Herra forseti. Vegna þeirrar umræðu sem fór fram í hv. fjh.- og viðskn. um frv. til laga um eignarleigustarfsemi tel ég rétt að hér komi fram að í nefndinni urðu umtalsverðar umræður um þau tryggingarákvæði sem gilda um veð sem eignarleigufyrirtæki hafa leyft sér að taka frá byrjun hér á landi umfram veð í hinu leigða sem fyrirtækin hafa fjármagnað. Þær skoðanir komu fram að það væri ekki eðlilegt að eignarleigufyrirtæki gætu tekið veð í öðrum hlutum en hinum leigðu, þ.e. að fasteignaveð, önnur en þau sem tekin væru í t.d. tækjum, bifreiðum og öðru sem þessi fyrirtæki hafa fjármagnað, væru óheimil.
    Þá kom einnig fram í nefndinni að skilaréttur leigutaka er afskaplega vafasamur, þ.e. að leigutaki sem ekki gengur tryggilega frá hugsanlegum skilarétti í samningi vegna leigutöku af þessu tagi standi frammi fyrir því að geta ekki skilað aftur þeim hlut, því tæki, þeirri vél, sem hann hefur tekið á leigu. Ég vil vekja athygli á þessu vegna þess að ég held að það sé umræðunnar virði, að athuga með hvaða hætti fyrirtæki af þessu tagi geta tekið veð, geta gert samninga við þá aðila sem versla við þau. Rekstur eignarleigu er í eðli sínu áhætturekstur og af þeirri ástæðu hafa eignarleigur réttlætt hærri vaxtatöku en gengur og gerist á markaði, hærri tekjur af því fjármagni sem eignarleigurnar leggja fram til leigu á þeim hlutum sem einstaklingar eða fyrirtæki gera samninga um. Mér finnst hins vegar allóeðlilegt, þó ekki hafi ég gert athugasemd við það í brtt. fjh.- og viðskn., að eignarleigufyrirtæki geti tekið fasteignaveð, t.d. í húseign leigutaka, umfram það veð sem hann hefur í þeim hlut sem hann leigir. Þá tel ég líka óeðlilegt að leigutaki geti ekki á leigutímabili, ef hann sér fram á að geta ekki staðið í skilum með greiðslur fyrir hinn leigða hlut, skilað honum aftur.
    Mér er kunnugt um það að þegar Svíum og sænskum stjórnvöldum þótti starfsemi eignarleigufyrirtækja fara út fyrir eðlileg mörk settu þeir inn í lög ákvæði um veðsetningar og skilarétt. Ég held að það væri heilbrigt og eðlilegra að ýmsu leyti að skilaréttarákvæði væru inni í þessum lögum. Það er hins vegar réttlætanlegt að leyfa lögunum að vera í gildi um nokkurra ára skeið áður en þessi atriði eru tekin til endurskoðunar.
    Ég vildi vegna umræðunnar sem orðið hefur í fjh.- og viðskn. vegna þessa mikilvæga þáttar í frv. gera grein fyrir þeim skoðunum sem fram komu í nefndinni og þeim skoðunum sem ég hef haft á þessu máli en geri ekki að ágreiningsefni, enda er eðlilegt að lög af þessu tagi, sem eru svo ný, verði tekin til endurskoðunar fljótlega.