Verndun fornleifa
Þriðjudaginn 14. mars 1989

     Flm. (Alexander Stefánsson):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um verndun fornleifa, 301. máli deildarinnar á þskj. 555. Flm. að þessu frv. eru auk mín Árni Gunnarsson, hv. 3. þm. Norðurl. e., Ólafur G. Einarsson, hv. 2. þm. Reykn., Ólafur Þ. Þórðarson, hv. 2. þm. Vestf., og Kristín Halldórsdóttir, hv. 10. þm. Reykn.
    Frv. sem hér um ræðir skiptist í þrjá kafla. I. kaflinn er tilgangurinn og fornleifar og forngripir, II. kaflinn er um fornleifafræðistofnun og III. kaflinn er um almenn ákvæði.
    Mér finnst ástæða til, herra forseti, að víkja að greinargerðinni sem fylgir þessu frv., með leyfi forseta:
    ,,Við samþykkt núgildandi þjóðminjalaga, nr. 52 frá 1969, var horfið frá fyrri hefð, sem einkenndi lögin um verndun fornleifa frá 1907, þar sem tilefni og tilgangur laganna var fyrst og fremst að stuðla að fornleifavernd. Fyrirmyndin að lögunum 1907 var fengin frá Norðurlöndum. Þessa hefð hafa nágrannaþjóðirnar haldið fast við og eru sérstakir lagabálkar um verndun fornleifa enn við lýði hjá þeim. Lögin um fornleifavernd urðu síðar hornsteinninn í allri menningarminjalöggjöf þessara þjóða. Áhuginn á því að kanna og skýra fornleifarnar og flokka þær í ákveðna tímaröð þróaðist smám saman í sérstaka faggrein, fornleifafræði. Norðurlöndin áttu, og eiga enn, stóran þátt í því að þróa fornleifafræðina sem alþjóðavísindagrein, einkum vegna löggjafarinnar og skilnings stjórnvalda á því að styðja við fornleifafræði sem fag- og vísindagrein í þessum löndum. Við þetta má bæta að fornleifalöggjöf nágrannalandanna hefur verið aðlöguð umhverfisverndarlöggjöf landanna og í Noregi heyra allar menningarminjar, þar með taldar fornleifar, undir umhverfismálaráðuneyti.
    Við erum óneitanlega langt á eftir nágrannaþjóðunum hvað fornleifavernd varðar og því mikilvægt að leggja sérstaka áherslu á að þessum þætti menningarminjavörslunnar verði búin góð skilyrði þegar henni eru sett ný lög.
    Það hefur mikla kosti í för með sér að skilja fornleifavörsluna frá Þjóðminjasafninu og safnastarfsemi yfirleitt. Með því móti er unnt að stórefla fornleifaverndina. Slíkt fyrirkomulag mundi samtímis létta til muna kvaðir á starfsmönnum Þjóðminjasafnsins sem gætu einbeitt sér að því að styrkja innviði Þjóðminjasafnsins sem safnastofnunar, enda ber að semja sérstaka löggjöf um Þjóðminjasafnið sem og önnur minjasöfn í landinu. Húsavernd getur heyrt undir Þjóðminjasafnið eftirleiðis sem hingað til, hugsanlega með aðstoð byggða- og minjasafnsvarða úti um land. Hér þarf þó að sjá til þess að húsavernd sé hagað þannig að friðlýstum byggingum, og þá ekki síst kirkjum, sé hægt að breyta með tilliti til nútímaþarfa fólksins sem þær nýtir.
    Flutningsmenn telja að viðurkenndir fornleifafræðingar, með menntun og reynslu, eigi að hafa umsjón með fornleifavörslunni. Það er ærinn

starfi þó svo að ekki sé verið að setja þeim að sjá um gamlar byggingar og annast þjónustu við byggðasöfn að auki eins og lagt hefur verið til. Það hefur hamlað fornleifavörslunni hérlendis allt of lengi, og þar með framgangi og eðlilegri þróun innlendrar fornleifafræði, að ekki er nægilega ýtt undir það að ráða til starfa vel menntaða fornleifafræðinga né heldur að skapa þeim eðlileg starfsskilyrði. Við erum fyrir allnokkru orðin eftirbátur nágrannaþjóða okkar í fornleifafræðilegum efnum og er því mál til komið að skapa fornleifavörslunni skilyrði sem sæmi okkur sem menningarþjóð en það er einmitt tilgangur þessa lagafrumvarps.``
    Virðulegi forseti. Ég tel rétt að taka fram hér að fyrir nokkru var lagt fram á Alþingi frv. til l. um þjóðminjalög sem er 188. mál þingsins, þskj. 220, sem er nú til meðferðar í hv. menntmn. Það er tilgangur og hugsun okkar sem að þessu frv. stöndum að við teljum, eins og kom raunar fram við umræðurnar um það frv., að það sé of lítil áhersla lögð á verndun fornleifa í því frv. og þeim þætti í þessum málum sem er menningarmál og mikið mál fyrir þessa þjóð sé ekki nægjanlega góð skil gerð við endurskoðun á þjóðminjalögunum og þess vegna sé ástæða til að fá meiri umfjöllun um þessi mál almennt nú, fá umræður um sérstöðu fornminja og mikilvægi þessa þáttar í okkar þjóðfélagi og gera tilraun þar með til að auka sjálfstæði þessa málaflokks, annaðhvort með sérstofnun eins og er lagt til í þessu frv. eða með sjálfstæðri deild í Þjóðminjasafni sem fái sterkari meðhöndlun og sterkari sérgreiningu en kemur fram í því frv. til þjóðminjalaga sem nú er til meðferðar hjá hv. menntmn.
    Einnig kemur til greina að skoða í alvöru hvort ekki sé ástæða til að meta hvernig staða þessara mála á að vera í framtíðinni með tilliti til umhverfisverndarmála og þeirrar umræðu og þeirrar stefnumörkunar sem er fram undan í þeim málaflokki og lítið hefur verið sinnt í okkar þjóðfélagi til þessa og á eftir að marka þar heildarstefnu.
    Herra forseti. Ég sé ekki í sjálfu sér ástæðu til að rekja hverja grein þessa frv. Frv. er ekki mjög fyrirferðarmikið. En ég vil lýsa sérstaklega því sem fjallar um fornleifafræðistofnun og því sem kemur fram í II. kafla frv. þar sem við gerum sérstaka grein fyrir því hvað við teljum að eigi að leggja höfuðáherslu á í sambandi við þau mál, bæði að því er varðar yfirstjórn og þær
rannsóknir sem þar þurfa að fara fram. Ég vil einnig benda á að í 21. gr. undir kaflanum um fornleifafræðistofnun er gert ráð fyrir að skipta landinu í fimm landsminjasvæði og það séu sérstakir landsminjaverðir sem starfi á vegum fornleifafræðistofnunarinnar, einn á hverju svæði. Það er gert ráð fyrir því í þessari frumvarpsgrein að landsminjaverðir skuli vera fornleifafræðingar að mennt, en um menntunarkröfur skuli nánar tilgreint í reglugerð.
    Mér finnst þetta vera undirstrikun á því sem hér hefur komið fram áður, bæði af því að við þurfum að

fá meiri þátttöku þeirra og skapa skilyrði þeim sem sérmennta sig á þessu sviði og einnig fá meiri væðingu á þessu verkefni um landið allt í hverjum landshluta. Ég get endurtekið það, sem kom fram við 1. umr. frv. til þjóðminjalaga, að einmitt kom fram sú skoðun í umræðunum frá fleiri en einum þingmanni að Þjóðminjasafnið og þessi málaflokkur almennt væru of fjarlæg fólkinu, það þyrfti að færa þessi mál nær fólkinu og meðferð þessara mála hefði gífurlegt gildi einmitt í sambandi við að fá fleira sérmenntað fólk sem leiðbeinir um þessi mál og tekur þátt í þeim vandasömu störfum sem þessu óneitanlega fylgir.
    Ég vil svo að lokum endurtaka að við flm. teljum að það sé einmitt rökrétt að koma með þetta frv. inn í umræðuna um endurskoðun á þjóðminjalögum þannig að það verði breiðari vettvangur til að fjalla um þessi mál og umfram allt megum við ekki flýta okkur um of þegar við erum að setja nýja löggjöf um þessi mál og þess vegna er ástæða til að undirstrika það sérstaklega að til þessa verði vandað og menn fái rækilegan tíma til að skoða alla þætti þessa máls miðað við að ná skynsamlegri niðurstöðu um hver lendingin verður þannig að við höfum í höndum vandaða löggjöf á þessu sviði öllu og getum ekki sagt eftir á að við höfum ekki athugað málin nægjanlega frá öllum þáttum þess.
    Ég vil svo að lokum, herra forseti, til að lengja ekki þessar umræður leyfa mér að leggja til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.