Verndun fornleifa
Þriðjudaginn 14. mars 1989

     Kristín Halldórsdóttir:
    Virðulegi forseti. Afstaða mín til þessa máls kemur fram í því að ég er einn flytjenda þess og stend að sjálfsögðu við það sem kemur fram í grg., enda er það í samræmi við tillögu okkar kvennalistakvenna um umhverfisráðuneyti þar sem við leggjum til að fornleifar, skráning, rannsóknir, flokkun og friðlýsing fastra fornleifa heyri undir friðlýsingar- og fræðsludeild sérstaks umhverfisráðuneytis.
    Við það sem kemur fram í greinargerð og það sem fram kom í máli hv. 1. flm. er svo sem ekki miklu að bæta. Sú tilhögun sem hér er lögð til er að sönnu umtalsvert önnur en nú gildir og í rauninni geri ég mér ekki miklar vonir um að löggjafarsamkundan fallist á þessa tilhögun nú, ekki síst með tilliti til þess að til umfjöllunar er nú frv. til þjóðminjalaga þar sem fornleifum er skipaður ákveðinn sess innan þess ramma og svo verður vafalaust um sinn.
    Kvennalistinn átti fulltrúa í nefndinni sem samdi það frv. og reyndi þar mikið til að fá fram breytingar sem voru meira í áttina við þær hugmyndir sem koma fram í þessu frv. um verndun fornleifa. Á það var ekki fallist í nefndinni, en við ákváðum engu að síður að standa að því frv. og ekki meira svo sem um það að segja. Það var okkar mat eftir mikla umhugsun að það væri rétt að standa að því.
    Það sem felst í frv. sem hér er til umræðu er framtíðarsýn. Svona teljum við þessum málum best fyrir komið og vonandi berum við gæfu til að haga þeim svo áður en langt um líður. Fornleifavernd er eins og fram kemur í greinargerð hornsteinn í menningarminjalöggjöf hverrar þjóðar, en við erum því miður miklir eftirbátar t.d. nágrannaþjóða okkar í þessum efnum. Þessu frv. er ætlað að vekja til umræðu og umhugsunar um þetta mál og því næst breytinga á núverandi skipan mála svo við getum með sæmilegri samvisku sagt að við kunnum að fortíð að hyggja eins og segir í máltækinu.
    Ég skal ekki orðlengja þetta, enda er áhugi þingmanna á þessu máli í algeru lágmarki svo sem sést á þeim fjölda sem er viðstaddur. En ég vildi aðeins láta þetta koma fram til áréttingar því sem sagt hefur verið.