Verndun fornleifa
Þriðjudaginn 14. mars 1989

     Guðrún Helgadóttir:
    Hæstv. forseti. Það kann að vera að ástæðan fyrir því að ég er mjög undrandi á þessu fram komna frv. sé sú að ég hef átt þess kost að kynnast að nokkru vinnubrögðum annarra þjóðþinga vegna starfa minna fyrir hið háa Alþingi.
    Hér hefur setið nefnd í eitt og hálft ár skipuð fulltrúum allra flokka, stjórnskipuð nefnd af tveim ráðherrum, við að reyna að semja þjóðminjalög og ég vil taka fram að sú nefnd situr enn að störfum. Kvennalistinn átti ekki fulltrúa í þeirri nefnd. Hann á þar fulltrúa sem nú hefur eins og við öll hin snúið sér að næsta verkefni sem nefndinni var falið. En þegar þessu fyrsta verkefni okkar er lokið kemur fram frv. flutt af fulltrúum fjögurra af sex stjórnmálaflokkum sem eiga sæti á Alþingi, sjö reyndar en flokkur Stefáns Valgeirssonar átti ekki fulltrúa í nefndinni. Maður hlýtur að spyrja: Hverju sæta vinnubrögð á borð við þetta? Hafa menn ekki rætt þessi mál í þingflokkum sínum? Höfðu þeir fulltrúar sem í nefndinni voru ekki umboð þingflokka sinna? Voru þetta bara einstaklingar sem sátu og spjölluðu í eigin umboði? Halda þeir ágætu flm. þessa frv. að við höfum ekki rætt stöðu fornleifarannsókna? Ég get fullyrt að það var svo sannarlega gert. Eftir óralangar umræður, sem tóku hátt í ár, varð niðurstaðan sú að okkar litla þjóð, sem auk þess telur sig allfátæka í augnablikinu, var ekki talin hafa ráð á því að bæta við heilli stofnun í menningargeirann. Það hefur gengið nógu illa að reka þær sem fyrir eru. Við töldum jafnframt að vel væri hægt að koma fornleifarannsóknum fyrir innan þess þjóðminjaráðs sem við gerum ráð fyrir. Og það vekur undrun mína að tveir af flm. hins nýja frv. eiga sæti í hv. fjvn. Ég hélt að sú góða nefnd hefði ekki haft það sem eftirlætisverkefni að setja á stofn nýjar stofnanir.
    Menn hafa talað hér um að faglegar skuli unnið að málum. Hið nýja fornleifaráð, sem talað er um í hinu nýja frv., hvernig er það skipað? Menntmrh. á að skipa þrjá stjórnarmenn, einn tilnefndan af Sambandi ísl. sveitarfélaga, og það getur verið hvaða ófaglærður stjórnmálamaður sem er, einn tilnefndan af landsminjavörðum, sem fjarri því eru allir fagmenntaðir menn, og lögfræðing tilnefndan af lagadeild Háskóla Íslands.
    Hvernig viljum við haga okkar þjóðminjaráði? Það skal gert heyrum kunnugt: ,,Menntamálaráðherra`` --- segir með leyfi hæstv. forseta í hinu fyrra frv. --- ,,skipar þjóðminjaráð til fimm ára í senn. Deildarstjórar Þjóðminjasafns Íslands og minjaverðir velja einn úr sínum röðum til setu í þjóðminjaráði. Félag íslenskra safnmanna tilnefnir einn og Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands tilnefnir einn fulltrúa. Að jafnaði skulu a.m.k. tveir framangreindra þjóðminjaráðsmanna hafa menntun á sviði fornleifarannsókna. Bandalag kennarafélaga tilnefnir einn fulltrúa í þjóðminjaráð og einn er skipaður án tilnefningar. Ráðherra skipar formann.``
    Hvort ráðið skyldi nú vera faglegra? Ég held að spurningu minni sé svarað með þessum upplestri, en

ég ætla ekki að fara hér út í, enda enginn tími til þess, þetta langa og mikla frv. í smáatriðum. Ég veit mætavel hvaðan það er komið. Auðvitað hafa allir rétt á að flytja frv. á hinu háa Alþingi. En það hlýtur að vera ákaflega undarlegt að stjórnmálaflokkarnir sem hér sitja, þingflokkarnir, skuli ekki geta komið sér saman um frv. sem fulltrúar þeirra eru að vinna að í stjórnskipuðum nefndum heldur komi með annað frv. sem gengur þvert á þá vinnu sem komist var að niðurstöðu um í nefndinni sem enn situr áður en það frv. hefur fengið vinnslu hér í þinginu. Auðvitað gátu þessir umræddu einstöku þingmenn gert brtt. við það frv. En að koma með nýtt frv. gerir ekki annað en að tefja málið svo að þar með eru satt að segja ekki miklir möguleikar á að það náist að vinna það á þeim tíma sem eftir lifir af þingi. Þessi vinnubrögð eru auðvitað fyrir neðan allt sem maður hefur áður kynnst.
    Við höfum sent til umsagnar frv. til þjóðminjalaga til, ég má segja, 40 aðila í þjóðfélaginu, þar á meðal þeirra sem mestan áhuga hafa á þessu nýja frv. Allt þetta fólk átti kost á að láta í sér heyra og hefur nú þegar látið í sér heyra, margt af því, því satt að segja var frv. okkar unnið í samráði við nær allt það fólk sem hefur með þessi mál að gera í okkar þjóðfélagi. Þannig er þetta frv. með öllu óþarft sem sjálfstætt frv. Miklu eðlilegra hefði verið að menn hefðu beitt sér fyrir brtt. og beðið eftir umsögnum sem kynnu að berast um hið nýja frv. til þjóðminjalaga. Mér eru þetta gjörsamlega óskiljanleg vinnubrögð og man ekki eftir í tíu ára þingsögu minni að unnið hafi verið á þennan hátt.
    Mér er alveg ljóst að gífurleg pressa hefur verið sett á ákveðna þingmenn vegna þessa máls og það er misjafnt hvað menn hafa sterk bein til að þola slíka pressu. Það er mér alveg ljóst. En mér finnst þetta satt að segja eins og löðrungur framan í það fólk sem setið hefur í hinni stjórnskipuðu nefnd og hefur sjálfsagt talið sig vera þar í umboði sinna þingflokka að þetta frv. skuli koma fram núna. Það skal vera lýðum ljóst að gegn því verður barist. Svona er ekki hægt að fara með hv. þm. Að ein manneskja skuli geta haft þau áhrif á heila fimm þingmenn að þeir beygi sig fyrir slíkri pressu og taki við svona plaggi! Hv. þm. skulu ekki segja mér eitt augnablik að þeir hafi samið
þetta sjálfir. Ég veit hvaðan þetta er komið og við þekkjum þessar skoðanir. Við ræddum þessar skoðanir af fullri virðingu og við komumst að niðurstöðu í nefndinni sem við töldum vera viðsættanlega niðurstöðu. Þessi framkoma er Alþingi til vansæmdar og ég vil mælast til þess að þetta fólk átti sig og dragi þetta frv. til baka.