Verndun fornleifa
Þriðjudaginn 14. mars 1989

     Kristín Halldórsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég á satt að segja mjög bágt með að skilja reiðilestur hv. 13. þm. Reykv. Ég sé ekki nokkra einustu ástæðu til slíkra geðshræringa út af þessu máli. Ég vil aðeins árétta það sem ég sagði áðan að fulltrúi Kvennalistans í nefndinni sem samdi frv. til þjóðminjalaga og kom raunar að því verki þegar það var langt komið og átti því töluvert erfitt uppdráttar innan um þá reyndu nefndarmenn, þ.e. hv. þm. Danfríður Skarphéðinsdóttir, reyndi töluvert til að fá fram breytingar á því frv. sem voru einmitt í takt við þær hugmyndir sem koma fram í því frv. sem hér um ræðir. Hv. þm. Danfríður Skarphéðinsdóttir sætti nokkru ámæli í nefndinni fyrir þessar tilraunir sínar, að ég ekki segi beinlínis aðkasti og dónaskap manna sem töldu sig eina vita og vera dómbæra um hvernig þessum málum skyldi skipað. Það varð hins vegar niðurstaða okkar að standa að samkomulagi þar eð lengra yrði ekki komist með þær hugmyndir að sinni eftir að nefndin hafði hafnað þeim svo gjörsamlega. Þess vegna tel ég afar ólíklegt að þeim verði eitthvað betur tekið ef þær yrðu fluttar við það frv. sem er til umfjöllunar í deildinni.
    En ég sé ekki nokkra ástæðu til þess að þær hugmyndir séu ekki til umræðu með þinglegum hætti og þá á þann veg sem við vildum helst sjá. Og eins og ég sagði áðan er þetta framtíðarsýn. Svona viljum við sjá þessu fyrir komið þótt síðar verði.
    Ég mótmæli eindregið áminningum hv. 13. þm. Reykv. vegna þess hvaðan frv. er komið. Ég sé ekki að það skipti nokkru máli. Við erum sammála þessum hugmyndum og það er algjört aukaatriði, en þó ekkert til að draga dul á, og ég man nú ekki hvort það hefur komið fram hér fyrr, að stærstan þátt í samningu þessa frv. á líklega best menntaði fornleifafræðingur landsins, Margrét Hermannsdóttir, og fyrir það skömmumst við okkar ekki nokkurn hlut. Ég sé enga ástæðu til annars en að þiggja góð ráð fólks sem veit um hvað er að ræða.
    En ég hlýt að taka undir orð hv. síðasta ræðumanns og vísa öllum aðdróttunum um einhverja pressu í þessu máli til móðurhúsanna skulum við nú segja í þessu tilviki því að það er síður en svo að um einhverja pressu sé að ræða. Þetta eru hugmyndir sem við vorum sammála og það er löngu komið fram að eru í takt við okkar eigin hugmyndir og við leggjum þetta frv. fram af einlægum áhuga á þessu máli og viljum að það komi fram og verði undirstaða og grunnur að framtíðarskipan.