Verndun fornleifa
Þriðjudaginn 14. mars 1989

     Guðrún Helgadóttir:
    Hæstv. forseti. Það er m.a. vegna þess að mér hefur verið falið, eins og hv. 1. þm. Vesturl. sagði áðan, æðsta embætti hins háa Alþingis að ég mótmæli þessum vinnubrögðum. Þegar stjórnskipuð nefnd með fulltrúum allra flokka hefur setið í eitt og hálft ár við að komast að niðurstöðu og samkomulagi um nýtt frv. til þjóðminjalaga er með öllu fráleitt að síðan komi fulltrúar fjögurra flokkanna með aldeilis nýtt frv. Eðlilegur gangur ef unnið er á þinglegan hátt væri auðvitað að koma með brtt. við það frv. sem fyrir liggur. Það er öllum frjálst og auðvitað er öllum frjálst að bera fram frv. um alla skapaða hluti. En ég læt ekki af því að þetta eru afar óvenjuleg vinnubrögð. Og það er svo alveg ástæðulaust fyrir hv. 1. þm. Vesturl. að grípa alltaf til þessarar gömlu klisju að um frumhlaup sé að ræða þó að slíku sé mótmælt. Þetta eru í hæsta máta óþingleg vinnubrögð.
    Ég vildi sjá framan í hæstv. iðnrh. sem hér situr ef hvenær sem eitthvert ríkisstjórnarfrv. kemur fram --- og ég er aðili að einum stjórnmálaflokki sem styður þessa ríkisstjórn --- kæmum við nokkur úr þeim flokki eða öðrum með ný frv. um sama efni. Ætli við reyndum ekki að koma með brtt. ef við getum ekki unað því sem fram er borið. Það segir sig sjálft og getur hver manneskja sagt sér sjálf að auðvitað truflar þetta nýja frv. meðferð þingsins á því frv. til þjóðminjalaga sem okkur liggur svo á að fá samþykkt. Auðvitað hefur hver einasti hv. þm. leyfi til þess að bera fram brtt. Vitaskuld.
    Vegna þess að hv. þm. 10. þm. Reykn. gaf í skyn að fulltrúi Kvennalistans hefði orðið fyrir ámælum fyrir skoðanir sínar í nefndinni vil ég að það sé alveg skýrt að það var ekki frá neinum nefndarmanna. Einn fornleifafræðingur landsins skrifaði Kvennalistanum harkalegt bréf sem formaður nefndarinnar, sem í þessu tilfelli er ég, mótmælti vegna þess að það var engan veginn við hæfi. Um það vorum við öll sammála. Ég vil að það sé alveg skýrt að ámælin voru ekki borin fram af hálfu nefndarinnar.
    Það er hins vegar hárrétt, sem hv. 10. þm. Reykn. sagði, að fulltrúi Kvennalistans kom óþægilega seint inn í nefndina fyrir hana sjálfa fyrst og fremst og hæstv. forseta þessarar deildar sem einnig kom inn í nefndina á sama tíma.
    Það er alveg hárrétt að hún barðist fyrir ákveðnum breytingum varðandi stöðu fornleifanna og fjölmargt af tillögum hennar var tekið inn í það frv. sem við lögðum síðan fram og héldum að samþykki væri fyrir í þingflokkunum. Ég spurði að sjálfsögðu sem formaður nefndarinnar hvort menn hefðu rætt þetta mál í þingflokkunum og beið raunar mjög lengi eftir að mönnum gæfist tími til þess og frv. var ekki borið fram fyrr en það lá fyrir að við teldum okkur hafa stuðning þingflokkanna fyrir frv. til þjóðminjalaga. Auðvitað gerðum við síðan ráð fyrir því þegar við sendum málið til umsagnar allt að 40 aðila, ef ég man rétt, eða það var sent úr hv. menntmn., að við ættum von á einhverjum brtt. og málið fengi sína þinglegu meðferð. En ég held að við hljótum að geta verið

sammála um það, hv. 1. þm. Vesturl. og ég og hv. 10. þm. Reykn., að það er afar sérkennilegt að koma með frv. sem gerir ráð fyrir að fella heilan kafla úr hinu nýja frv. til þjóðminjalaga og koma nýrri stofnun á fót. Það var um það sem deilan snerist. Við viljum ekki nýja stofnun. Við teljum okkur fremur eiga að verja þeim peningum sem fást til verndunar fornminja og þjóðminja í þessu landi til faglegrar vinnu en að búa til nýja stofnun með því sem slíku fylgir óhjákvæmilega. Það getur vel verið að það verði einhvern tímann veruleiki í framtíðinni og það væri vel, en ég held að miðað við þær aðstæður sem við búum við í þessu landi í dag höfum við síst af öllu efni á því. Og auðvitað er það jafnrétt hjá hv. 10. þm. Reykn. að þjóðminjavernd á Íslandi er langt á eftir öðrum þjóðum. Við getum hins vegar hugsað sem svo: Er það nokkuð einkennilegt? Við erum einu sinni færri og það eru færri sálir sem standa undir því að reka menningarþjóðfélag sem við viljum gjarnan að sé á borð við það sem gerist í næstu löndum í kringum okkur. En það tekur vitaskuld lengri tíma og þyrfti ekki að segja þessi sannindi tveimur hv. fulltrúum í fjvn.
    Við erum með, eins og ég hef áður sagt hér í ræðu, þjóðminjasafnshús sem er að hrynja. Það hlýtur að vera fyrsta verkefni okkar að finna fjármagn til að bjarga því húsi. Við erum með Þjóðleikhús sem þarfnast viðgerða sem kosta hundruð milljóna. Við erum með Þjóðarbókhlöðuna eins og hún er en það hús er búið að standa í 14--15 ár öllum í þessu landi gagnslaust. Vitaskuld verðum við að raða í einhverja forgangsröð í hvað við ætlum að verja fé á allra næstu árum. Og að það sé það brýnasta sem við gerðum í dag að stofna fornleifastofnun eða fornminjastofnun með forstöðumanni og ritara og fulltrúa og tölvukerfi og öllu því sem tilheyrir er að mínu viti fásinna, algjör fásinna. Við tryggðum það hins vegar með frv., ef það að lögum yrði, að fornleifafræðingar, a.m.k. tveir, ættu sæti í þjóðminjaráði og töldum þar með að við hefðum tryggt að þeim kafla þessa máls yrði ekki gleymt því að það er alveg hárrétt, sem hér hefur fram komið, að þar er ómælt verkefni fram undan.
    Ég get verið sammála mörgu í þessu nýja frv. fimmmenninganna nema mér þykir afar kyndug samsetning á svokölluðu fornminjaráði. Ég á afskaplega erfitt með
að sjá hvað er faglegt við nefnd þar sem einn er tilnefndur af Sambandi ísl. sveitarfélaga, annar af landsminjavörðum, sem ég er ekki viss um að allir séu fagfólk þó að þeir stundi sitt starf með mestu prýði, og lögfræðingur tilnefndur af Háskóla Íslands. Ég held að þjóðminjaráð með tveimur fornleifafræðingum hljóti að vera miklu faglegra.
    Ég held að hinn faglegi hluti málsins sé miklum mun betur tryggður í frv. til þjóðminjalaganna en með þessu nýja frv.
    Nú sé ég að genginn er í salinn hv. 1. þm. Norðurl. v., þingflokksformaður Framsfl., og ég vil spyrja hann: Hafði Guðmundur G. Þórarinsson, hv. 14.

þm. Reykv., ekki umboð þingflokksins þegar við náðum samkomulagi um frv. til þjóðminjalaga?
    Ég vil geta þess að ég hefði a.m.k. ekki verið aðili að flutningi þess nema ég teldi að þingflokkur Alþb. stæði þar að baki. Og það mætti æra óstöðugan ef menn leggja áralanga vinnu í að semja slík frumvörp og komast að niðurstöðu sem allir eru taldir geta sætt sig nokkurn veginn við með fyrirvara um þinglega meðferð málsins og niðurstöðu umsagna allra þeirra sem þessi mál varða ef slíkar nefndir ættu svo alltaf von á því að ótal önnur mál og ný frumvörp allt annars eðlis og sem ganga þvert á það sem mestum tíma var eytt í að ná samkomulagi um kæmu svo á eftir. Ég verð að segja alveg eins og er: Mér þykja þetta kyndug vinnubrögð. Ég ítreka það vegna þess að hv. 1. þm. Vesturl. fannst ekki sæma að forseti Sþ. hefði þá skoðun að þingmenn ættu ekki að flytja ákveðið frv. Það hef ég auðvitað aldrei sagt og tók það skýrt fram. Það er auðvitað öllum þingmönnum leyfilegt. En það er til nokkuð sem heitir þingleg hefð. Þingmenn flytja brtt. við slík frumvörp en koma ekki með glæný frumvörp sem ganga þvert á það sem þeirra eigin fulltrúar hafa lagt mikla vinnu í að komast að niðurstöðu um. Um það snýst þetta mál og það er einmitt vegna þess og ekki síður vegna þess að ég er forseti Sþ., ég býst við að ég hefði haft sömu skoðun hvort sem ég væri forseti Sþ. eða ekki, en ekki síst af því að ég er það hef ég lagt nokkurn metnað í að þingmál og málatilbúningur í þinginu væri með sóma og mér finnast þessar aðferðir ekki æskilegar.