Verndun fornleifa
Þriðjudaginn 14. mars 1989

     Kristín Halldórsdóttir:
    Herra forseti. Umræðurnar hafa reyndar aðallega snúist um form og þinglegar hefðir en minna um efni þessa frv. Hv. 13. þm. Reykv. minntist þó aðeins á hvernig ætlast væri til að stjórn fornleifafræðistofnunar yrði skipuð og gagnrýndi það og taldi að það yrði ekki faglegt. Þessi athugasemd sýnir nú að hún hefur ekki kynnt sér efni frv. e.t.v. af skiljanlegum ástæðum eftir að hafa hlustað á málflutning hennar hér. Ég vildi aðeins leiðrétta það að þessi stjórn eigi ekki að vera faglega skipuð, enda þótt tilnefning komi frá Sambandi ísl. sveitarfélaga og Háskóla Íslands. Það segir t.d. í 20. gr.: ,,Menntmrh. skipar forstöðumann fornleifafræðistofnunar til fimm ára í senn að fenginni tillögu stjórnar og skal hann vera fornleifafræðingur að mennt.``
    Síðan eiga landsminjaverðir hlut að máli og segir í 21. gr. að landsminjaverðir skuli vera fornleifafræðingar að mennt. Þannig held ég að það sé nú ekki rétt athugað að ekki verði séð fyrir faglegri stjórn.