Verðbréfaviðskipti
Miðvikudaginn 15. mars 1989

     Frsm. fjh.- og viðskn. (Valgerður Sverrisdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir brtt. á þskj. 621 frá fjh.- og viðskn. Í fyrsta lagi er lagt til að breytt verði aftur til hins upphaflega orðalags frv. um að heimilt skuli vera að svipta starfsleyfi ef opinber rannsókn hefst. Nefndin telur að rétt sé að það tímamark sem miða skuli heimild ráðherra við sé þegar við upphaf opinberrar rannsóknar.
    Ríkir hagsmunir kunna að vera til þess að grípa inn í starfsemina sem fyrst og er það undir mati ráðherra samkvæmt greininni. Jafnframt hefur komið í ljós að samkvæmt gildandi rétti kunni að vera viss vandkvæði á því að ákvarða tímamark þess hvenær dómsrannsókn hefst þar eð hugtakið á ekki lengur við í lögum vegna breyttrar skipunar á rannsókn opinberra mála. Sem sagt, nefndin leggur til að í stað orðsins ,,dómsrannsókn`` komi: opinber rannsókn.
    Í öðru lagi leggur hv. fjh.- og viðskn. til að bætt verði við ákvæði til bráðabirgða. Með ákvæðinu er stefnt að því að unnt verði að halda áfram að veita leyfi til verðbréfamiðlunar samkvæmt umsókn frá þeim tíma er frv. þetta verður að lögum og þar til námskeið verða haldin samkvæmt ákvæði 3. gr. frv.
    Augljóslega mun það taka nokkurn tíma að ganga frá framkvæmdaatriðum varðandi námskeiðahaldið þrátt fyrir að nú sé unnið að undirbúningi þess og tillögur þar að lútandi verða lagðar fyrir viðskrn. innan skamms. Til þess að brúa megi það tímabil sem hér um ræðir er því lagt til að ráðuneytinu verði heimilað að veita tímabundin leyfi til verðbréfamiðlunar í 18 mánuði og heimilt að framlengja þann tíma um allt að 6 mánuði.
    Ég les þá síðari brtt. eins og hún liggur fyrir á þskj. 621. Hún hljóðar svo:
    ,,Við ákvæði til bráðabirgða bætist nýr töluliður sem verði 5. tölul. og orðist svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. þessara laga er viðskrh. heimilt, að fenginni umsókn prófnefndar, að veita þeim, er uppfylla skilyrði 4. gr. laga nr. 27/1986, tímabundið leyfi til verðbréfamiðlunar í átján mánuði, enda fullnægi viðkomandi öllum skilyrðum 3. gr. laga þessara. Heimilt er að framlengja þann frest um allt að sex mánuði ef sérstaklega stendur á.``
    Fjh.- og viðskn. stendur öll að þessum brtt. og hv. þm. Danfríður Skarphéðindóttir, sem sat fund nefndarinnar, er samþykk þeim.