Eignarleigustarfsemi
Miðvikudaginn 15. mars 1989

     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þau orð hæstv. ráðherra, Jóns Sigurðssonar, að um sé að ræða frv. til laga sem full þörf er á að setja. Án þess að fjölyrða mjög um efni frv. vil ég segja strax í upphafi míns máls að með þessu frv. er hæstv. ráðherra að leggja fram frv. sem er í eðlilegu samhengi við þá þróun sem orðið hefur á Íslandi á svonefndum fjármagnsmarkaði. Frv. felur í sér ákveðnar skýringar á þeirri starfsemi jafnframt því sem settar eru, eins og hæstv. ráðherra sagði, eðlilegar og að mínu mati í flestum tilfellum réttar leikreglur á þessu sviði.
    Eins og hæstv. ráðherra gat um í sinni ræðu hefur þetta rekstrarform tíðkast í nágrannalöndum til fjölda ára og einnig hefur það rutt sér til rúms á Íslandi á síðustu árum, sérstaklega í gegnum þau fjögur fyrirtæki sem hæstv. ráðherra nefndi. Ég vil því lýsa því yfir að ég styð frv. mjög eindregið en geri mér jafnframt grein fyrir því að hér er um fyrstu lagasmíð að ræða á þessu sviði þannig að gera má ráð fyrir því að þau lög, sem frv. gerir ráð fyrir að komi til framkvæmda gagnvart eignarleigustarfsemi og verði samþykkt á þingi, hljóti auðvitað að koma til endurskoðunar þegar nokkur reynsla er fengin af þeim.
    Virðulegi forseti, ég tel að þetta sé hið besta mál sem þurfi að fá eðlilegan og skjótan framgang á þingi.