Verðbréfaviðskipti
Miðvikudaginn 15. mars 1989

     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):
    Herra forseti. Hér er um að ræða 1. mál deildarinnar sem afgreitt var frá hv. Nd. fyrir örfáum vikum. Nú kemur það frá Ed. og hefur verið þar grálega leikið. Það er felld úr frv. ein megingrein þess, 30. gr., en hún hljóðar svo:
    ,,Seðlabanki Íslands skal láta sömu reglur, eftir því sem við getur átt, gilda um verðbréfasjóði að því er varðar bundið fé og settar eru innlánsstofnunum skv. 1.--3. mgr. 8. gr. laga nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands, eða jafngildi þeirra með kaupskyldu á öruggum verðbréfum.
    Hafi Seðlabankinn hlutast til um vexti útlána hjá innlánsstofnunum á grundvelli 9. gr. laga nr. 36/1986 getur bankinn, meðan sú íhlutun varir, að fengnu samþykki ráðherra bundið ávöxtunarkröfur og annað endurgjald fyrir fjármagn í viðskiptum verðbréfafyrirtækja og verðbréfasjóða takmörkunum sem miðast við hliðstæða áhættuflokka. Setur Seðlabankinn um það nánari reglur.``
    Ég tel að með því að fella þessa grein út úr frv. sé þessi lagasetning öll orðin harla lítils virði. Að vísu er hægt að bæta úr þessu með breytingu á seðlabankalögum. Hún liggur ekki fyrir og meðan svo er óska ég eftir því við hæstv. forseta að fjh.- og viðskn. deildarinnar fái þetta frv. til athugunar og málið verði ekki tekið á dagskrá fyrr en að þeirri athugun lokinni.