Verðbréfaviðskipti
Miðvikudaginn 15. mars 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Frv. þetta er komið aftur til Nd. eftir eina breytingu í aðalatriðum í Ed. þar sem 30. gr. frv. hefur verið felld brott, enda samkomulag fjh.- og viðskn. í Ed. að efni 30. gr. ætti miklu betur heima í seðlabankalögum. Svo stendur á að fyrir hv. Ed. liggur nú frv. til laga um breytingu á lögum um Seðlabankann þar sem einmitt eru gerðar tillögur um að breyta þeim greinum, 8. og 9. gr. laganna nr. 36/1986, þar sem fjallað er um annars vegar bindiskyldu og lausafjárhlutfall og hins vegar rétt Seðlabankans til þess að hlutast til um vaxtaákvarðanir innlánsstofnana. Það gefur auga leið að þegar þetta frv. um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði kom fram í þinginu --- og það var fyrsta mál þingsins --- var gerð tillaga um ákvæði í 30. gr. frv. hliðstæð bindiskylduákvæðum varðandi innlánsstofnanir í frv. til verðbréfaviðskiptalaga einfaldlega vegna þess að þá voru ekki á gangi brtt. við seðlabankalögin og þótti best á því fara að hafa þetta í einum og sömu lögunum. Nú stendur hins vegar svo á, sem ég hef skýrt frá og ég tel það að öllu leyti fara lögformlega betur, að því sem var í 30. gr. eins og henni hafði verið breytt í hv. Nd. verði efni sínu samkvæmt komið fyrir í 8. og 9. gr. seðlabankalaganna. Um það liggja nú frammi tillögur í hv. fjh.- og viðskn. Ed. og mér þykir sjálfsagt mál eins og fram kom í máli hv. 1. þm. Norðurl. v., formanns fjh.- og viðskn. þessarar deildar, og hv. 3. þm. Norðurl. e. að fjh.- og viðskn. fái tækifæri til þess að kynna sér stöðu málsins, en ég fullvissa þá um að þar eru ekki af hálfu stjórnarflokkanna uppi neinar ráðagerðir um efnislegar breytingar.
    Um þessa málsmeðferð var gott samkomulag í hv. Ed. og ég vil nota þetta tækifæri til að fagna þeirri samstöðu sem tekist hefur um hinar almennu starfsreglur, hin almennu starfsskilyrði fyrir verðbréfaviðskiptin í landinu. Mikil þörf er á því að þær leikreglur verði settar og virtar. Það er hagsmunamál almennings, neytenda, viðskiptavina þessara stofnana og reyndar þessara stofnana sjálfra að þessar reglur verði í lög festar sem allra fyrst.
    Ég vona að þessi formbreyting verði ekki til þess að tefja framgang málsins en tek að sjálfsögðu undir með þeim mönnum sem hér hafa talað um það að sjálfsagt sé að fjh.- og viðskn. þessarar deildar fái tækifæri til að kynna sér málið.
    Ég vil að lokum taka það fram að mér var kunnugt um þessar breytingar í hv. fjh.- og viðskn. Ed. ( Forseti: Má ég biðja hæstv. ráðherra aðeins að doka við í máli sínu. Mér er tilkynnt að hátalarakerfi hafi fallið út þannig að það næst ekki á upptöku það sem hér er mælt. Ef ráðherrann vildi hinkra við augnablik þangað til skrifstofa upplýsir stöðu mála.) Að sjálfsögðu.
    Ég þakka hæstv. forseta fyrir leiðbeiningarnar. Máli mínu var sem næst lokið. Ég vildi eingöngu ítreka það, sem ég sagði síðast, að ég vona að hv. fjh.- og viðskn. Nd. sjái að hér eru ekki uppi ráðagerðir um efnislegar breytingar. Ég vildi líka taka fram að mér

var kunnugt um breytingarnar í fjh.- og viðskn. Ed., hafði samband við formann fjh.- og viðskn. Nd. um leið og ljóst varð um þessa skipan mála. Sama máli gegndi að sjálfsögðu um fjh.- og viðskiptanefndarformann Ed. sem hefði verið í góðum færum að kynna þetta samstarfsmönnum sínum.
    Mér þykir leitt að þetta skuli hafa valdið töfum á málinu, en vona að því ljúki farsællega því eins og hér hefur komið fram í umræðunni er mikils um vert að þessu fyrsta máli þingsins verði lokið farsællega.